Hvað er til ráða þegar mannorði er rústað?

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér stöðu starfsmanns á leikskóla þar sem reynt er að rústa mannorði viðkomandi. 

Góðan daginn.

Ef manneskja sendir um rafrænt og við erum með sönnunargögn um þau ummæli að starfsmaður í leikskóla sé barnaníðingur án þess að sannanir séu fyrir því og engin sönnunargögn. Aðeins gert til að rústa mannorði einstaklingsins út af ágreiningi um allt önnur málefni, er þá hægt að kæra það?

Starfmaðurinn í leikskóla er með hreinann sakferil og hefur aldrei brotið gegn sínum börnum eða öðrum.

Er betra að fara með þetta í gegn um lögregluna eða einkamál?

Kveðja, L

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl,

Að bera saklausa menn röngum sökum er refsivert samkvæmt 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rangar sakargiftir fela í sér refsiverðan verknað sem nær til hvers konar aðferða sem viðhafðar eru í því skyni að valda því að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Í ákvæðinu eru taldar upp verknaðaraðferðir, svo sem röng kæra eða framburður, en vert er þó að taka fram að ákvæðið felur ekki í sér tæmandi talningu á þeim verknaðaraðferðum sem til greina koma. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi er varð að almennum hegningarlögum er svo mælt að ákvæðið nái til hvers konar aðferða sem notaðar eru til þess að fá saklausan mann sakaðan um eða dæmdan fyrir refsiverðan verknað. Þannig kann að vera að opinberun yfirlýsinga á samskiptamiðlum eða með öðrum sambærilegum hætti falli undir “annan hátt”, líkt og segir í ákvæðinu.

Ákvæði 148. gr. almennra hegningarlaga gerir þó þann áskilnað ásetningur þess aðila er ber fram rangar sakargiftir nái til þess að fá saklausan mann sakaðan eða dæmdan fyrir refsiverðan verknað. Sé hins vegar ekki hægt að sanna slíkan ásetning kemur helst til greina að viðkomandi verknaður sé refsiverður samkvæmt XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar. Þannig segir í 234. gr. almennra hegningarlaga, svo dæmi sé tekið, að hver sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi, allt að 1 ári.

Í þínu tilfelli væri sennilega ráðlegt, þó með þeim fyrirvara að undirrituðum eru ekki öll málsatvik kunnug, að kæra umræddan verknað til lögreglu, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að hafa uppi einkaréttarkröfur, t.d. um greiðslu bóta, í sakamálum.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is