Eigum við jafnmikið í íbúðinni ef við hættum saman?

Íslensk kona veltir því fyrir sér hver réttur hennar er …
Íslensk kona veltir því fyrir sér hver réttur hennar er ef hún hættir í ástarsambandinu. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veltir fyrir sér rétti sínum ef upp úr sambandi myndi slitna. 

Góðan daginn,

ég er búin að vera í sambúð í 7 ár. Við keyptum okkur íbúð saman fyrir þremur árum. Hann setti peninga inn í kaupin en ég lán og hef ég greitt af láninu frá upphafi. Við erum þinglýstir eigendur 50/50. Engir sérskilmálar voru gerðir í upphafi. Hvernig stöðu er ég í ef illa fer fyrir sambandinu? Er minn réttur jafn á við hann? Með fyrirframþökk og gleðilegt sumar. 

Kveðja, ein í óvissu

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl ein í óvissu. 

Engar lögfestar efnisreglur er að finna í lögum hér á landi um skiptingu fasteigna sambúðarfólks við sambúðarslit. Sú afstaða hefur á hinn bóginn mótast í dómaframkvæmd að litið er á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í fjárhagslegu tilliti. Meginreglan er sú að hvor aðili á þær eignir sem hann er skráður fyrir og ber ábyrgð á þeim skuldum sem hann hefur stofnað til nema sérstaklega sé samið um annað.

Við sambúðarslit eru þinglýst eignarhlutföll jafnan lögð til grundvallar og fasteignum skipt í samræmi við það. Í þínu tilviki yrði fasteignin, þó með þeim fyrirvara að undirrituðum eru ekki öll málsatvik kunn, skipt til helminga og breytir engu þótt maðurinn hafi lagt fram fé fyrir útborguninni svo sem ráða má af fyrirspurn þinni, enda hefur þú greitt afborganir og vexti af áhvílandi lánum.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is