„Ekki viss um að hún sé sú rétta“

Stundum getur verið gott að fá lánaða dómgreind hjá fagfólki …
Stundum getur verið gott að fá lánaða dómgreind hjá fagfólki þegar kemur að samböndum. Sér í lagi ef fólk er fast í mynstri sem það kemur sér ekki út úr. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem er að spá í sambandinu sem hann er nýkominn í. Hann er ekki viss með konuna og vantar ráð. 

Hæ hæ.

Ég hef verið að hitta konu að undanförnu þar sem við erum mikið bara tvö ein. Við höfum verið límd saman og það hefur verið æðislega gaman hjá okkur. En ég er ekki að sinna mér eins og ég er vanur. Svo er kominn þessi tími í sambandinu þar sem ég er ekki alveg að meika allt sem hún gerir eða segir. Mér líður ekki eins og hún sé konan sem ég er að leita eftir en samt sef ég hjá henni því þá er ég ekki alveg jafn einmana. 

Hvað ætti ég að gera? Er smá að kafna.

Kveðja, X

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

 

Sæll og takk fyrir spurninguna. 

Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk verði smávegis hátt uppi fyrst þegar það hittir manneskju sem það er hrifið af. Það gleymi sér aðeins og vanrækir sig sjálfan og lífið tímabundið. 

Hins vegar mæli ég alltaf með því að fólk fari hægt inn í sambönd, til að það sé viss um að félaginn sem það ætlar í samband með sé með sömu gildi og lífsviðhorf í lífinu. 

Það eru til viðmið tengt þessu sem ég myndi ráðleggja þér að skoða sem eru:

Hegðun sem er heilbrigð

  • Þú hlakkar til að fara á stefnumót með viðkomandi
  • Þú segir sannleikann um þig og lífið sem þú lifir
  • Þú talar á stefnumótum og hlustar á hvað hinn aðilinn hefur að segja
  • Þú gefur gullhamra af því þig langar að gera það en ekki af því þú vilt fá eitthvað í staðinn
  • Þegar þið kveðjist þá líður þér vel, innsæið er jákvætt og friður í huga þínum

Hegðun á gráu svæði

  • Þú eyðir miklum peningum á stefnumótum til að ganga í augun á þeim sem þú ert að hitta
  • Þú hugsar stanslaust um það sem var sagt og ert í vafa með sumt af því sem fór fram á stefnumótinu
  • Þú færð þessa tilfinningu að langa að taka ábyrgð á þeim sem þú ert að hitta, eða að laga hana/hann
  • Þú lætur hinn aðilann og þarfir hans/hennar ganga fyrir þínum eigin
  • Þú réttlætir það sem þú ert ekki að fá uppfyllt í samskiptunum

Síðan er margt í þínum texta sem væru rauð flögg að mínu mati. 

Ef þú sest niður og setur heilbrigð mörk og ræðir framtíðina. Að þú viljir fara aðeins hægar í sakirnar eða jafnvel hugsa þig um. Þá muntu strax finna hvort konan sé með sterk tengsl og lifi það alveg af, eða hvort hún fari upp á háa C-ið og í fórnarlambið eða ásakandann. 

Sambönd og samskipti eru ekki stöðug, heldur alltaf að þróast. Það finnst mér svo oft gleymast í umræðunni. Stundum þarf að setja betri mörk, stundum þarf að setja aðeins minni mörk. Stundum þarf að setjast niður og tala saman og já stundum þarf líka bara að hætta við og fara svo hægar í sakirnar næst. 

En þú verður að fara að sinna sjálfum þér og svo er aldrei gott að fara í samband nema með fólki sem maður kann svolítið vel við. 

Þú finnur út úr þessu um leið og þú setur heilbrigð mörk og tekur ábyrgð á sjálfum þér. Þá fara samskiptin annað hvort í heilbrigða hegðun eins og talað er um hér að ofan eða í gráa hegðun eða jafnvel sambandið endar. 

Það er ekkert hægt að æfa sig í að vera kærasti nema að prófa sig áfram og mér finnst karlmenn og konur stundum þarfnast aðeins meiri þjálfun í að tala saman. 

Varðandi kynlífið, þá er ekki mælt með að stunda það til að fylla í tómleika. Það eru til betri leiðir að ná upp hamingjunni, eins og að fara út að hlaupa. Fara í ræktina, í sund og fleira. 

Gangi þér vel.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is