Dúkkar gamli kærastinn upp á tímum kórónuveirunnar?

Mark Groves segir að stundum sé betra að halda utan …
Mark Groves segir að stundum sé betra að halda utan um tré en að stunda skyndikynni með fólski sem getur ekki skuldbundið sig. mbl.is/skjáskot Instagram

Mark Groves er með áhugaverðar kenningar um kórónuveiruna og áhrif hennar á piparsveina og -meyjar.

Hann er á því að margir séu að fá skilaboð þessa dagana frá fyrrverandi kærasta eða kærustu – þeim sem skildu einungis eftir brauðmola og létu sig hverfa um leið og sambandið átti að fara aðeins lengra.

„Saknaði þess að heyra í þér. Brjálaðir tímar í dag. Er í lagi með þig?“ eru dæmigerð skilaboð frá svona fólki.

Groves kennir fólki að tengjast á heilbrigðan hátt og segir að gott sé að líta undir yfirborð þeirra einstaklinga sem ráða ekki við meira en skyndikynni. 

Hann er á því að ástæðuna sé að finna í upphaflegum geðtengslum þessara einstaklinga við annað eða bæði foreldra sinna. Að sem börn hafi verið um ákveðna vanrækslu að ræða og of mikla ábyrgð. 

Í grunninn séu þeir sem geta ekki fest ráð sitt með meiru en kynlífi með litla sjálfsvirðingu og ótta við höfnun. 

Hann hvetur alla sem standa fyrir framan óvæntar fyrrverandi freistingar að skoða málin betur, áður en þau fara í sama gamla horfið og vona að núna verða breytingar. Hann segir það langsótt að minnka kröfurnar of mikið og að allir eigi skilið að elska á heilbrigðan hátt. 

„Ekki sætta þig við hvað sem er. Settu markið hátt og ekki gera undanþágu. Skoðaðu grunnhugmyndir þínar um ástina. Þú átt það skilið.“

mbl.is