Það sem þú átt ekki að gera ef makinn heldur framhjá

Framhjáhald er algengt í samböndum en samt sársaukafull upplifun.
Framhjáhald er algengt í samböndum en samt sársaukafull upplifun. Ljósmynd/Colourbox

Talið er að í 70% tilfella muni einstaklingar í hjónaböndum upplifa framhjáhald á einhverjum tímapunkti. Þrátt fyrir háa tíðni framhjáhalds er það engu að síður mjög sársaukafull upplifun. Elisabeth Shaw sálfræðingur gefur lesendum Body+Soul ráð um hvernig best sé að bregðast við. 

Ótryggð getur tekið á sig ýmsar myndir. Ef til vill var um að ræða aðeins örstutt gaman, í öðrum tilfellum langvarandi og tilfinningaríkara samband við einhvern annan en makann. Þá gæti samband þróast á netinu án þess að aðilar hafi nokkurn tímann hist.

Það sem á ekki að gera:

1. Ekki gera lítið úr því sem gerðist

Ef til vill reynir sá sem hélt framhjá að gera lítið úr verknaðinum til þess að láta hinum líða betur. En það stoðar ekki. Það gæti látið allt saman virðast vera leyndardómsfyllra og ýtir undir vanlíðan. 

2. Ekki lýsa öllu í smáatriðum

Hafir þú svikið maka þinn er líklegt að hann vilji vita allt. Það að vita öll smáatriði getur þó gert málin verri. Það verður að vera ákveðið jafnvægi í hreinskilni og að vita hvenær maður gengur of langt í smáatriðunum.

3. Ekki segja öllum sem þú þekkir

Þú þarft vissulega á stuðningi að halda en leitaðu til fagaðila eða einhvers hlutlauss vinar sem getur stutt þig án þess þó að lita þína ákvarðanatöku. Það gerist alltof oft að fólk hlaupi til og segi öllum frá en enda svo á að taka saman aftur. Slíkt gæti haft neikvæð áhrif á vina- og fjölskyldusambönd þar sem þeir fyrirgefa aldrei aðilanum sem hélt framhjá þótt þú hafir gert það. 

Það sem á að gera:

1. Treystu þinni eigin dómgreind

Ef hlutirnir stemma ekki skaltu vera óhrædd við að benda á það. Þú þarft ekki að hafa rétt fyrir þér en þú þarft að vita að áhyggjur þínar séu teknar alvarlega. 

2. Ákveddu hvort þú ætlir að vera eða fara

Sumir geta ekki valið á milli makans og hins aðilans. Þá er margt sem aftrar þeim frá að fara eins og til dæmis börn og aðrar skuldbindingar. Hætt er við því að sá sem brotið er á upplifi ákveðna meðvirkni. Ef hann getur ekki valið þá er það ekki þitt að sannfæra hann eða „vinna hann aftur“. Allir ákveða fyrir sig hvað þeir vilja í lífinu.

3. Hugsaðu um heildarmyndina

Það er vissulega ekki þér að kenna ef einhver hélt framhjá þér. Það getur hins vegar reynst fróðlegt og gagnlegt að rýna í sambandsmynstrið. Voru ákveðin vandamál til staðar sem sköpuðu ákveðna fjarlægð í sambandinu? Ef til vill er enn fyrir hendi ákveðinn grundvöllur til þess að byggja á.

mbl.is