Svona breytist kynlíf fólks 2021

Fólk á eftir að prófa nýja hluti í rúminu árið …
Fólk á eftir að prófa nýja hluti í rúminu árið 2021. mbl.is/Thinkstockphotos

Kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif á kynlíf og sambönd fólks árið 2020. Þrátt fyrir að bóluefni bindi vonandi enda á faraldurinn árið 2021 mun faraldurinn hafa ýmis spennandi og góð áhrif á kynlíf fólks að mati kynlífssérfræðingsins Tracey Cox að því fram kemur á vef Daily Mail. 

Ævintýralegt kynlíf

Í fyrstu bylgju faraldursins byrjaði fólk að kynnast líkömum bólfélaga sinna upp á nýtt. Kynlíf fólks fór niður þegar leið á faraldurinn en Cox telur líklegt að fólk haldi áfram að prófa eitthvað nýtt og spennandi í rúminu árið 2021. Því til stuðnings segir hún frá breskri könnun þar sem kom fram að 71 prósent fólks ætlaði að halda áfram að kanna nýjar aðferðir í kynlífi þegar faraldrinum lyki.

Tilraunir með kynhneigð

Fleiri skráðu sig tvíkynhneigða á kynlífsvefsíðu árið 2020 en áður. Telur Cox að þetta þema haldi áfram á nýju ári og fólk haldi áfram að prófa sig áfram með kynhneigðina. 

Hlutverkaleikir

Leitarorðið BDSM var notað meira en áður árið 2020 og setur kynlífssérfræðingurinn það í samhengi við kynlífstískuna árið 2021. Hún segir konur spenntari fyrir að breyta um hefðbundin kynhlutverk í rúminu. Fleiri konur nota til dæmis ól með gervilim í kynlífi með maka og könnun sýnir að enn fleiri konur hafa áhuga á að prófa slíkt. 

Kynlíf á netinu

Fólk nýtti samskiptaforrit til þess að stunda kynlíf árið 2020. Fólk er í dag opnara fyrir að stunda kynlíf með hjálp tækninnar sem hjálpar til dæmis fólki í fjarsamböndum. 

Hjálpartæki ástalífsins

Sala á unaðstækjum jókst árið 2020. Reynslan sýnir að þegar fólk fjárfestir í einu tæki er það líklegra til þess að halda áfram að prófa önnur kynlífsleikföng.

Fyrrverandi pör byrja saman aftur

Mörg fyrrverandi pör byrjuðu aftur saman í kórónuveirufaraldrinum. Cox telur að það eigi eftir að halda áfram á nýju ári. 

Frá fullnægingu yfir í núvitund 

Árið 2021 á eftir að snúast meira um núvitund í bólinu en það markmið að fá fullnægingu. Fólk hugsar meira inn á við eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp og það kemur fram í kynlífinu. 

Kynlíf eldri kvenna

Cox spáir því að eldri konur muni stunda meira og betra kynlíf. 

Vanda valið

Í heimsfaraldri þarf fólk að velja vel hvern það hittir. Þetta hefur áhrif á kynlíf fólks en Cox greinir frá rannsókn á þessu. Þrettán prósent þátttakenda sögðu að kórónuveirufaraldurinn myndi hafa þau áhrif að þau vildu kynnast fólki betur fyrir kynlíf. Svo eru reyndar sumir sem hoppa upp í rúm með næsta manni eftir bólusetningu en það er önnur saga.

Núvitund í rúminu.
Núvitund í rúminu. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is