Var leikinn grátt 2007 og óttast um erfingjana

Ólafur Garðarsson, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hvort gamlar skuldir bitni á erfingjum hans eftir hans dag. 

Sæll. 

Árið 2007 veitti ég sjálfskuldarábyrgð vegna framvirks samnings um hlutabréfakaup sem einkahlutafélag mitt gerði við sparisjóð. Í bankahruninu féll sparisjóðurinn, umrædd hlutabréf urðu verðlaus og rekstrargrundvöllur einkahlutafélags míns hrundi. Einn af viðskiptabönkunum yfirtók kröfur sparisjóðsins og eftir töluverðan tíma, m.a. vegna prófmála um lögmæti samninga í erlendri mynt, gerði bankinn kröfu á mig vegna vanskila á umræddum samningi. Eftir ítrekaðar tilraunir til samninga um niðurfellingu eða lækkun á kröfunni þar sem ég væri eignalaus endaði málið þannig hjá mér var gert árangurslaust fjárnám. Bankinn hefur haldið kröfunni á mig lifandi og sendir mér árlega ítrekun um greiðslu. Spurning mín er hvort bankinn eigi kröfu á erfingja mína þegar ég fell frá. 

Kveðja, spyrjandi. 

Ólafur Garðarsson, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Ólafur Garðarsson, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll spyrjandi.

Stutta svarið er nei. Bankinn öðlast ekki ekki sjálfkrafa kröfur á erfingja þína þegar þú fellur frá.

Ef þú átt eignir við andlát þá vandast málið því erfingjar erfa ekki aðeins eignir heldur einnig skuldir.

Það góða er að erfingjum er ekki skylt að taka við dánarbúi. Þeir gera það vanalega ef eignir eru meiri en skuldir. Ef raunin eru önnur þurfa erfingjar hvorki að gangast við arfi né skuldum dánarbúsins.  Þar með á bankinn ekki kröfu á erfingja þína.

Kveðja, 

Ólafur Garðarsson lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is