Hefurðu heyrt um tilfinningalegt sifjaspell?

Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég rakst á þetta hugtak „tilfinningalegt sifjaspell eða „covert incest“ stundum einnig kallað „emotional incest“ og eða „surrogate mother syndrome“ í grein á netinu og fór að kynna mér málefnið á hinum ýmsu stöðum. Þetta form af sifjaspellum er alls ekki kynferðislegt þó að það sé ekki langt frá því að hafa sömu áhrif á þolandann og getur í sumum tilfellum leitt einnig til þess að hin kynferðislegu myndist í kjölfarið. Það sem einkennir tilfinningalegt sifjaspell er semsagt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér skilgreind þannig að mörkin verða mjög óskýr á milli þess fullorðna og barnsins og koma líklega til með að valda sálrænum erfiðleikum síðar á ævinni hjá barninu, erfiðleikum sem eru jafnvel ekki ósvipuð og þegar kynferðislegt sifjaspell á í hlut. Fyrir þá sem ekki vita hvað sifjaspell er þá könnumst við líklega flest við að þar sé átt við kynferðislegt samband á milli systkina, föður og dóttur eða móður og sonar, en það tilfinningalega er án þessa kynferðislegu tilburða þó að í sumum tilfellum þróist það í þá átt eins og ég sagði hér að framan,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Foreldrið í tilfinningalega sifjaspellunum kemur sem sagt fram við barnið sitt eins og það væri fullorðinn aðili og eða jafnvel maki þess, gerir barnið þannig að trúnaðarvini sínum og jafnvel ábyrgðaraðila á sér. Þarna held ég að margir sem hafa alist upp við vanvirkar aðstæður staldri við og kannist við að hafa þurft að taka ábyrgð allt of snemma á lífsleiðinni. 

Eins og í svo mörgum tilvikum þar sem börn koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum geta þau átt í erfiðleikum á fullorðinsárum en gera sér ekki grein fyrir hvers vegna svo er. Algengt er þó að þessi börn muni eiga í erfiðleikum við að viðhalda viðeigandi mörkum og kunni alls ekki á þau, glími við átraskanir, ýmiskonar sjálfsskaðandi sjúkdóma, sé fullt af óánægju í samböndum sínum og glími við vímuefnaneyslu svo fátt eitt sé nefnt. 

Nokkur algeng einkenni á tilfinningalegu sifjaspelli:

  • Þegar foreldrið biður barnið um ráð varðandi málefni sín eins og til dæmis þegar um hjónabandserfiðleika er að ræða. Ræðir jafnvel kynferðislegar tilfinningar og athafnir ásamt fleiri atriðum sem betur væru rædd við annan fullorðinn aðila sem hefur þroska til að gefa ráð. Þarna geta orðið til mjög óskýr mörk í huga barnsins og það ber það markaleysi áfram fram á fullorðinsárin. Þarna er hlutverkunum snúið við og barnið ber óbeint ábyrgð á þeim fullorðna sem er langt frá því að teljast eðlilegt. dæmi um óskýr mörk eru einnig þegar mörk barnsins eru ekki virt og farið í persónuleg gögn þeirra án þess að til þess sé rík ástæða. 
  • Viðurkenningaþörf. Foreldrarnir sækja sér stöðuglega viðurkenningu á persónu sinni útliti og framkvæmdum frá barni sínu jafnt í einrúmi sem og á almannafæri og ef þeim líður illa eða eru reiðir er það hlutverk barnsins að koma því í lag.
  • Er besti vinur barnsins. Þegar foreldri er besti vinur barns síns koma oft upp markaleysi í samskiptunum og aginn og kennsla hins fullorðna á lífið verður óljós og ómarkviss. Að eiga foreldri sem ekki er fært um eða tilbúið til að vera sá fullorðni í aðstæðunum en setur hinsvegar ábyrgðina yfir á óþroskað barnið hamlar eðlilegum þroskastigum þess og tekur jafnvel frá þeim æskuna og gleðina sem ætti að fylgja því að fá að þroskast með eðlilegum hætti.   
  • Meðferðaraðila-hlutverkið. Að setja barn í bílstjórasætið vegna tilfinningalegrar kreppu eða sambands hins fullorðinna rænir þau eðlilegri félagsmótun. Seinna á ævinni getur barninu fundist best að sjá um tilfinningalegar þarfir einhvers annars en þeirra eigin og líður best þannig. Í sumum tilfellum getur verið erfitt fyrir fullorðið barnið að eiga endingagott og stabílt rómantískt samband og vita sínar eigin þarfir þar, og oft er það þannig að foreldrið gerir sitt ýtrasta til þess að eyðileggja sambönd barnsins síns á fullorðinsárum. Þetta á sérstaklega við þar sem óljós mörk eru á hlutverkaskiptunum og þar sem foreldrið fer jafnvel á „date“ með barni sínu og talar um útlit þess og þokka á svipaðan hátt og gert er í rómantísku sambandi ásamt því að ætlast til dekurs og athafna sem hæfa einungis í makasamböndum. 

Tilfinningalegt sifjaspell er líklegast til að eiga sér stað þegar foreldri er einmana og finnur sig ekki hafa annan fullorðinn einstakling til að ræða málefni sín við. Nýfráskildir foreldrar og þeir sem misst hafa maka sinn geta fundið ákaflega fyrir fjarveru maka síns og sett börnin sín í hlutverk hans á ýmsan hátt og ætlast til þess að börnin fullnægi þörf foreldrisins fyrir nánd og félagsskap. Þar með fá börnin nýjar skyldur og hlutverk sem alls ekki hæfa aldri þeirra né eru viðeigandi (sama hvaða aldur við erum að tala um, jafnvel á fullorðinsárum).

Mér fannst ótrúlega áhugavert að lesa um þetta hugtak sem ég hafði aldrei heyrt talað um áður og sýnist á öllu því sem ég hef lesið að þetta geti þróast upp í að verða að persónuleikaröskun sem er mjög alvarlegt mál. Ekki fann ég tölfræði hvað varðar prósentur og fjölda tilfella þar sem talið er að börn séu að lenda í þessum aðstæðum, en tel þó sjálf að það verði töluverður fjöldi sem kannist við margt sem hér kemur fram og hvet ég þá til að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum og ráðgjöfum til að hægt sé að kortleggja stöðuna og fá aðstoð við lækningu og lausn.

En hér eru nokkur ráð af mörgum sem ég rakst á í þessu grúski mínu sem geta gagnast þér í leitinni að bata ef þú hefur orðið fyrir tilfinningalegu sifjaspelli:

  • Settu upp sterk mörk - það er mjög mikilvægt að þú sýnir fram á þín einstaklingsmörk og haldir þeim þó að líklegt sé að þú hafir það sterkt í eðli þínu að þóknast öðrum alla jafna.
  • Byggðu upp stuðningskerfi heilbrigðra einstaklinga í kringum þig - því heilbrigðari sem samböndin í kringum þig eru, því auðveldara verður fyrir þig að sjá hvað er heilbrigt og hvað er óheilbrigt í samskiptum.
  • Farðu til meðferðaraðila eða taktu þátt í stuðningshópi - að fá samþykki og staðfestingu á upplifun þinni og reynslu færir þig langt í bata þínum.
  • Farðu út úr aðstæðunum ef þú getur - þú berð ekki ábyrgð á foreldri þínu og ef þú getur yfirgefið aðstæðurnar með öruggum hætti gætirðu viljað íhuga þann kost.
  • Það verður sársaukafullt og erfitt að skoða sögu þína en það er þess virði að leggja sig fram við það - foreldri þitt mun kannski aldrei skilja sársaukann sem þú upplifðir, en þú getur og átt skilið að finna sterkara jafnvægi í samböndum þínum í framtíð þinni.

Ég vona að þetta grúsk mitt hafi gagnast einhverjum í sjálfsþekkingarleit sinni og að minnsta kosti var margt þarna sem vakti minn áhuga og jók þekkingu mína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál