Aldrei passað inn – alltaf verið of mikið eða of lítið

Hugrún Britta Kjartansdóttir finnst hún vera öðruvísi en fær útrás …
Hugrún Britta Kjartansdóttir finnst hún vera öðruvísi en fær útrás fyrir líðan og tilfinningar í listinni. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistar- og myndlistarkonan Hugrún Britta Kjartansdóttir fær útrás fyrir tilfinningar sínar í gegnum listsköpun. Hugrún sem er 22 ára og alin upp í Reykjavík stundaði tónlistarnám í Svíþjóð en flúði til Íslands eftir ofbeldissamband. Þegar hún kom aftur heim fékk hún hjálp vegna adhd-greiningar sem hún er með.

Hugrún flutti til Svíþjóðar fyrir nokkrum árum þar sem henni leið ekki vel á Íslandi. „Ég vildi ekki vera á Íslandi af því að manneskjan sem braut á mér andlega alla barnæsku mína var hér og ég var ekki að höndla það. Ég ákvað bara að fara, ég þekkti fólk í Svíþjóð, ég var komin með vinnu í Svíþjóð og svo hitti ég Erik Sjöstedt upptökustjórann minn,” segir Hugrún. Þau unnu saman í skólaverkefni en fljótlega þróaðist það út í að þau byrjuðu að vinna saman að fleiri verkefnum.

Ákvað að koma aftur heim eftir átakanlegt sambandsslit

Ástæðan fyrir því að Hugrún er stödd á Íslandi í dag er sú að hún flúði ofbeldissamband í Svíþjóð. „Ég lenti í erfiðu ofbeldissambandi úti og fór bara heim.“ segir Hugrún. „Ég þurfti bara að fara þó mig langaði ekki til þess að kveðja manneskjuna sem ég elskaði en ég gat ekki meira andlegt ofbeldi. Mig langaði bara ótrúlega að fara heim, fara til sálfræðings, vinna úr þessu sambandi sem var mjög erfitt. Ég þorði ekki að fara úr sambandinu í alveg eitt ár vegna hræðslu við að vera ein,“ segir Hugrún sem þurfti að safna kjarki áður en hún fór heim. Hún stefnir aftur út í haust og var að komast inn í myndlistarskóla í Gautaborg þar sem upptökustjórinn hennar á heima. Þau eru þau að vinna að sinni annarri plötu saman. 

Hugrún er pankynhneigð.
Hugrún er pankynhneigð. Ljósmynd/Aðsend

Hugrún segir að listin hafi hjálpað henni að öðlast betri skilning á sjálfri sér. „Það er svo fyndið að ég var í hljómsveit og bjó til plötu með fyrrverandi kærasta mínum. Hann var ómeðvitaður um þetta en eitt lagið á plötunni fjallar um hvernig ég hélt að við myndum hætta saman og hvernig mér myndi líða, alveg ári áður en ég þorði að hætta með honum. Tónlistin hefur hjálpað mér að koma hlutum í verk og skilja hvernig manneskja mig langar til þess að vera.“

Sambandið sem Hugrún var í úti í Svíþjóð var með manni en hún er pankynhneigð. „Ég kynntist honum í tónlistarskólanum sem ég var í. Þá var ég í ástarsorg yfir stelpu sem ég var mjög skotin í. Hann lét mér líða vel í upphafi jafnvel þó hann hafi beitt mig ofbeldi á einhvern hátt og þetta var ofbeldissamband þá þykir mér ofboðslega vænt um hann og ég myndi aldrei segja að hann væri vondur maður. Honum líður rosalega illa og hann veit ekkert hvernig hann á að takast á við það. Hann vill ekki fá neina hjálp. Ég reyndi að „laga“ vandamálin hans en því miður þá virkar það aldrei Átti í má neysluvanda að stríða, ekki grófu en samt alveg nóg til þess að það bitnaði á mér. Hann var ekki alltaf góður þegar honum leið illa sem varð alltaf verra og verra því hann var of hræddur til að gera eitthvað í því.“

Fannst hún ekki passa inn

Hugrún er kynsegin. „Tilfinningin um kynið mitt breytist eftir aðstæðum og hvernig mér líður. Flestir segja hún við mig. Ég segi oftast hún um mig líka. Ég er „genderfluid female“ í rauninni. Mér hefur alltaf fundist flókið að útskýra þetta. Stór hluti af því að vera flæðandi er að það er ekkert eitt fast. Fer svona fram og til baka. Mér líður alltaf eins og ég sé kona en mér líður líka eiginlega alltaf eins og ég sé ekki kona. Það hefur kannski eitthvað með það að gera að mér hefur aldrei fundist ég passa inn í þessi kynhlutverk sem samfélagið hefur búið til fyrir okkur. Kannski finnst mér ég kynsegin af því ég á erfitt með að setja mig inn í box. Hvernig ég skilgreini mig er eitthvað sem ég er ennþá að reyna að átta mig á og mun kannski aldrei skilja almennilega, og það er bara allt í lagi. Núna finnst mér allavega mjög gaman að vera bæði allt og ekkert. Kannski mun mér líða öðruvísi einhvern tímann seinna og það ætti að vera meira en í lagi finnst mér, það kemur í ljós,“ segir Hugrún og hlær. 

Eftir að Hugrún kom til Íslands byrjaði hún á adhd-lyfjum. Hugrún var ung þegar það varð ljóst að hún væri með athyglisbrest og ofvirkni. Hún byrjaði í greiningarferli vegna adhd þegar hún var að verða sex ára sem telst nokkuð ungt, sérstaklega í tilviki stúlkna. „Það hefur alltaf verið augljóst að ég sé með adhd en það hefur aldrei haft nein neikvæð áhrif á einhvern annan í kringum mig. Það hefur alltaf bara bitnað á mér og kannski allra nánustu. Þegar ég varð fullorðin byrjaði það að bitna á samböndunum sem ég var í. Út af því að ég varð svo meðvirk,“ segir Hugrún og segir meiri hjálp í boði núna fyrir fólk með adhd og fæðist í kvenkynslíkama en þegar hún var krakki. „Í grunnskóla bað ég oft um auka hjálp því ég vissi að ég væri ekki alveg eins og hinir og þurfti oft að reyna meira á mig. En svörin voru alltaf: „við erum ekki með svoleiðis í boði fyrir stelpur, bara stráka“.“

Hugrún ætlar að hefja myndlistarnám í Svíþjóð í haust.
Hugrún ætlar að hefja myndlistarnám í Svíþjóð í haust. Ljósmynd/Aðsend

Hún bendir einnig á að konur séu betri í að setja upp grímu og talar um að í henni leynist tvær manneskjur. Manneskjan sem hefur lært inn á samfélagið og hin útgáfan – sem passar ekki alltaf inn í. „Allt lífið hef ég ótrúlega mikið verið að reyna að skilja af hverju ég er svona öðruvísi og af hverju ég get ekki bara verið venjuleg? Ég hef alltaf verið skrítna manneskjan. Alltaf annað hvort of mikið eða of lítið. Aldrei temmileg. Ég hugsaði alltaf þannig um sjálfa mig. Ég lenti í ofbeldi þegar ég var ung, sem er algengt hjá fólki með adhd. Það vill leyfa fólki að koma inn í líf sitt, það leyfir fólki að vaða yfir sig. Af því það vill vera samþykkt í samfélaginu. Það hefur mikil áhrif á tónlistina sem ég skrifa og alla listina sem ég gef frá mér.“

Þrátt fyrir þessa sterku þörf að passa inn segir Hugrún það hafi ekki verið erfitt að koma út sem kynsegin og pankynhneigð. „Ég er svo heppin með fólkið í kringum mig. Fjölskyldan mín og vinir mínir, ég er svo ótrúlega heppin. Mamma mín, pabbi minn og systir mín Sólrún Mjöll hafa alltaf veitt mér 100 prósent stuðning. Það er bara um það bil ár síðan ég kom út sem kynsegin. Það hefur ekki neitt breyst. Ég er svo glöð og það er enginn sem hefur komið fram við mig öðruvísi. Ég er heppin að vera listamanneskja og reynt að einbeita mér að þessu málefni.“

Leikstjórinn hafði samband 

Hugrún er nýbúin að gefa út myndband við lagið When I Close My Eyes semEmil Christoffer Bager Holm leikstýrði. Í myndbandinu sést Hugrún kyssa aðra konu sem leikin er af Svölu Jóhannsdóttur sem hún segir óalgengt í tónlistarmyndböndum á Íslandi. Þrátt fyrir að myndbandið sýni tvær stelpur má túlka textann hvernig sem er óháð kynjum.

Hugrún og Svala í myndbandinu við lagið When I Close …
Hugrún og Svala í myndbandinu við lagið When I Close My Eyes. Ljósmynd/Aðsend

„Leikstjóri myndbandsins er svo geggjaður og leikkonan í myndbandinu líka. Hann hafði bara samband við mig. Ég hlustaði á þetta lag sagði hann og fékk hugmyndina. Þessi hugmynd var bara nákvæmlega það sem ég vildi. Herbergisfélagi hans, Svala Jóhannsdóttir, er fyrirsæta og er með sjúklega flotta og fagmannlega Onlyfans-síðu. Það var svo skemmtilegt að gera þetta myndband. Ég er feimin, hef átt erfitt með líkama minn. Mér finnst ég ekki sæt en hún hjálpaði mér að komast í gegnum þetta. Ég hélt að ég myndi ekki ná að gera þetta myndband af því ég er geggjað snertifælin vegna atvika sem komu fyrir mig í æsku en þau gerðu þetta sjúklega auðvelt fyrir mig. Þetta var ekkert mál og mjög skemmtilegt. Ég er mjög sátt,“ segir Hugrún sem stefnir á frekari tónlistarútgáfu í framtíðinni auk þess að sinna myndlistinni.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndbandið við When I Close My Eyes. 

mbl.is