Helga og Björn giftu sig á gylltri strönd

Helga Dögg Ólafsdóttir og Björn Þór Björnsson gengu í hjónaband …
Helga Dögg Ólafsdóttir og Björn Þór Björnsson gengu í hjónaband á ströndinni við Patreksfjörð. Ljósmynd/Saga Sig

Grafísku hönnuðirnir Helga Dögg Ólafsdóttir og Björn Þór Björnsson gengu í hjónaband á ströndinni við Patreksfjörð fyrr í sumar. Alma Mjöll Ólafsdóttir, tvíburasystir Helgu, gaf þau Björn saman í fullkominni athöfn. Helga og Björn voru búin að gera tvær tilraunir til að gifta sig en þurftu að fresta vegna veirunnar. 

„Við ákváðum núna í febrúar að gera þetta bara. Við buðum fáum (50 manns) til að vera viss um að vera innan samkomutakmarkana. Við ætluðum upphaflega hafa stórt brúðkaup í sveitinni okkar í Vík í Mýrdal en vildum bara breyta öllu og gera eitthvað alveg nýtt og skapa þannig alveg nýjar minningar á nýjum stað,“ segir Helga í viðtali við mbl.is. 

Patreksfjörður varð fyrir valinu en Helga og Björn höfðu farið á heimildamyndahátíðina Skjaldborg nokkrum árum áður og orðið heilluð af bænum. „Í þeirri ferð eignuðumst við vini sem eiga barinn og veitingastaðinn Flak. Eigendur staðarins, Einar og Gígja, eru svo mikið smekkfólk að við ákváðum að spyrja þau hvort við mættum halda veisluna þar,“ segir Helga. Helga og Björn kynntust árið 2012 og eiga eina dóttur.

Ljósmynd/Saga Sig
Alma Mjöll, tvíburasystir Helgu Daggar, gaf brúðhjónin saman.
Alma Mjöll, tvíburasystir Helgu Daggar, gaf brúðhjónin saman. Ljósmynd/Saga Sig

„Dagurinn var ofar öllum væntingum og draumum. Náðum að vera bara frekar róleg allan daginn og undirbjuggum okkur með góðri hugleiðslu um morguninn. Það var mikið að gera og græja þar sem við vorum með matinn á einum stað og svo ball í félagsheimilinu á Patró. Þannig að það þurfti að klára skreyta tvo staði. Allir vinir og fjölskylda voru svo ótrúlega hjálpsöm að undirbúningurinn var mjög skemmtilegur og við erum ótrúlega þakklát fólkinu okkar,“ segir Helga.

Þau giftu sig á gylltri strönd hinum megin við fjörðinn og fengu sólskin að gjöf einmitt meðan á athöfninni stóð. 

Ljósmynd/Saga Sig
Sólin skein þegar athöfnin fór fram á ströndinni.
Sólin skein þegar athöfnin fór fram á ströndinni. Ljósmynd/Saga Sig

„Tónlistarkonan Lay Low fór með eitt uppáhaldsástarlagið okkar og tvíburasystir mín gaf okkur saman. Athöfnin var mjög einlæg og lágstemmd. Við færðum okkur svo yfir á Flak þar sem Gústi kokkur eldaði handa okkur marokkósk/ísraelska tapasveislu. Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir uppistandari var veislustjóri og hélt gestum hlæjandi alla veisluna. Salka vinkona okkar „roastaði“ okkur og það var því mikið grín og hlátur í veislunni. Eftir mat og ræður skelltum við okkur á ball í félagsheimilinu þar sem Bjartar sveiflur héldu fólki dansandi fram undir morgun. Þetta var algjör draumadagur.“

Lay Low söng við athöfnina.
Lay Low söng við athöfnina. Ljósmynd/Saga Sig

Af hverju báðuð þið systur Helgu að gefa ykkur saman?

„Alma var með okkur þegar við hittumst fyrst. Hún var líka viðstödd þegar dóttir okkar kom í heiminn og býr núna í sama stigagangi og við. Hún þekkir okkur best sem einstaklinga og sem par og foreldra. Það kom eiginlega ekkert annað til greina.“

Athafnarstjórinn.
Athafnarstjórinn. Ljósmynd/Saga Sig

Fékk dóttir ykkar eitthvað hlutverk í athöfninni?

„Við vorum með lítið af hlutverkum í athöfninni. Við vildum bara hafa afslappaða stemningu. En við fengum fjölskyldu og vini til að velja hlut úr samansafni okkar sem við höfum safnað gegnum sambandið, flestallt hlutir úr náttúrunni; skeljar, þurrkuð blóm, fjörugler og steinar. Fólk setti orku í hlutinn fyrir framtíðinni okkar og setti svo í sandinn í kringum okkur. Við fengum alla til að vera með þar sem við vildum hafa það að leiðarljósi hvað þorpið okkar skiptir miklu máli. Að hver og einn skiptir máli og þessi dagur væri ekkert án þeirra og lífið okkar fullt af orku frá þessum einstaklingum.

Dóttir okkar fékk bara að leika sér í sandinum í athöfninni milli þess sem kom til okkar að knúsa okkur og gefa okkur blóm sem hún tíndi á ströndinni.“

Helga og Björn eiga eina dóttur.
Helga og Björn eiga eina dóttur. Ljósmynd/Saga Sig

Hvernig leit draumadagurinn út og stóðst hann væntingarnar?

„Við erum svo lánsöm að þessi dagur gekk eins og í sögu. Bara alveg eins og okkur hafði dreymt um og miklu meira en það. Við höfðum verið að undirbúa og skreyta í hálfgerðri einangrun þarna fyrir vestan en þegar vinir okkar og fjölskylda komu til okkar á ströndina þegar athöfnin var að hefjast, þá lifnaði þetta allt við. Ástin og gleðin í loftinu var alveg mögnuð.“

Hverju klæddist brúðurin?

„Ég klæddist kjól sem var hannaður og saumaður af Sigurbjörgu Stefánsdóttur, klæðskera og fatahönnuði. Hún var eins konar stílisti minn í gegnum þetta ferli og hjálpaði mér með allt frá sokkabuxum til eyrnalokka. Ég klæddist svo skóm frá íslenska tískumerkinu Kalda sem er algjör demantur í Reykjavík. Þórhildur Eyþórsdóttir sá um að mála mig og ég hefði ekki getað fengið betri listamann.“

Kjóll Helgu er hannaður og saumaður af Sigurbjörgu Stefánsdóttur.
Kjóll Helgu er hannaður og saumaður af Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Ljósmynd/Saga Sig
Skórnir eru frá Kalda.
Skórnir eru frá Kalda. Ljósmynd/Saga Sig

Hverju klæddist brúðguminn?

„Ég fór til strákanna hjá Suitup sem gerðu jakkafötin með mér. Ég var með mjög ákveðið lúkk í huga; 90's-snið sem er mun víðara og frjálslegra en gengur og gerist í dag. Þeir voru með mér í þessu alla leið og útkoman var langt umfram væntingar. Ég sleppti því að vera með bindi og var með derhúfuna mína sem ég er alltaf með,“ segir Björn.

Björn var ekki með bindi en var með derhúfuna sína …
Björn var ekki með bindi en var með derhúfuna sína á kollinum líkt og vanalega. Ljósmynd/Saga Sig
Jakkafötin eru hönnuð af Suitup og eru í '90s stíl.
Jakkafötin eru hönnuð af Suitup og eru í '90s stíl. Ljósmynd/Saga Sig
Brúðurin ásamt vinkonum sínum.
Brúðurin ásamt vinkonum sínum. Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
Lifandi blóm voru allsráðandi í skreytingum enda eru Helga og …
Lifandi blóm voru allsráðandi í skreytingum enda eru Helga og Björn mikið blómafólk. Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
Bjartar sveiflur spiluðu fyrir dansi.
Bjartar sveiflur spiluðu fyrir dansi. Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál