Svikakarlar á stefnumótasíðum

Það er auðvelt að þykjast vera einhver annar á netinu.
Það er auðvelt að þykjast vera einhver annar á netinu. mbl.is/Colourbox

Mjög hefur borið á því nýlega að svikakarlar hafa blekkt ungar breskar konur á stefnumótasíðum og haft af þeim mikið fé. Þetta kemur fram í The Times. Svikin ganga út á það að þeir þykjast vera svokallaðir „sykur-pabbar“ í leit að konu sem vill hitta þá reglulega og í staðinn fá þær allt sem þær lystir en fyrirkomulag sem þetta er sagt vera mjög vinsælt meðal ungra kvenna sem stunda kostnaðarsamt háskólanám.

Veiða upp úr þeim bankaupplýsingar

Svikakarlarnir fá upp úr konunum ýmsar persónu- og bankaupplýsingar undir því yfirskini að þeir séu að fara að gefa þeim kreditkort til að nota, stofna sjóði í þeirra nafni og svo framvegis. En þegar upp er staðið hafa þeir annað hvort tæmt alla reikningana þeirra eða þá stofnað aðra í þeirra nafni sem safna bara skuldum.

Finna fyrir skömm

40 tilfelli hafa verið tilkynnt til NatWest bankaþjónustunnar en þeir telja að talan sé í raun mun hærri. Margar konur veigra sér við að tilkynna slíkt og finna fyrir skömm fyrir að hafa látið blekkjast.

Í umfjöllun Times er sagt frá Mary sem lenti í svikum sem þessum. Í gegnum stefnumótasíðu hitti hún Duncan sem sagðist vera að leita að konu sem vildi fara á stefnumót með sér þrisvar til fjórum sinnum í mánuði og í staðinn fengi hún mánaðarlega 2000 pund í framfærslueyri auk þess að fá greidd frí og verslunarferðir. Það tók ekki nema viku fyrir Duncan að fá upp úr henni allar helstu upplýsingar um hana en hann sagðist þurfa þær til þess að geta sett á fót kreditkort handa henni. Hún notaði kortið og stóð í þeirri trú að hann myndi borga reikninginn en þess í stað notaði hann líka kortið fyrir sig og skildi hana eftir með allar skuldirnar. 

„Ég var búin að fletta honum upp á netinu og ekkert athugavert kom í ljós. Svo stofnaði hann hina og þessa reikninga og bjó til eitthvað mjög flókið fyrirkomulag og lét mér líða eins og að ég væri eitthvað vitlaus að skilja ekki hvað hann væri að gera,“ segir Mary. 

„Ég bara trúði honum því hann átti að vera ríkur og hafa vit á fjármálum. Hann myndi aldrei taka mína peninga.“

mbl.is