23 atriði sem segja þér hvort honum sé alvara með samband ykkar

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Jæja þá ætla ég að skrifa pistil til allra sem telja sig hafa fundið ástina en eru kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig ástfangnir menn sem ætla sér að eiga líf sitt með þér hegða sér í sambandinu (og nú ætla ég að tala frekar til kvenna þó að karlmenn geti a.m.k. tekið eitthvað af þessu til að meta gæði sambandsins sem þeir eiga,“ seg­ir Linda Sig­ríður Bald­vins­dótt­ir markþjálfi hjá Mann­gildi í sín­um nýjasta pistli.

Konur og menn eru svolítið ólík í nálgun sinni í sambandsefnum og því er svo nauðsynlegt fyrir okkur konur að komast að því hvort maðurinn sé heill og sé raunverulega okkar ekki satt?

Svo ég fór á veraldravefinn og safnaði saman upplýsingum sem segja okkur svolítið um það hvernig menn sem eru ábyrgir og flottir hegða sér í sambandi sínu við okkur konurnar og merkilegt nokk þá er sama hvort ég leita upplýsinga hjá rannsóknaraðilum eða öðrum sem skrifað hafa um þetta málefni þá hafa þeir komist að svipuðum niðurstöðum og ég sjálf eftir að hafa unnið með einstaklingum og pörum að ástarmálum þeirra (og svo hef ég nú einnig smá reynslu frá mínu eigin persónulega lífi).

Svo nú hefst upptalningin á þeim atriðum sem virðast einkenna raunverulegt ástarsamband þar sem karlmaðurinn er heill í athöfnum sínum og ætlar sér að eiga gott og gefandi samband með þessari gyðju sem hann var svo ákaflega heppninn að finna.

 • Heiðarleiki skiptir hann miklu máli og þú efast aldrei um að hann segi satt og rétt frá hlutum því að þú getur nánast snert á heiðarleikanum, og þú þarf sjaldan eða aldrei að efast um tilfinningar hans því að hann kemur því þannig fyrir að þú ferð aldrei að sofa án þess að vita hversu mikils virði þú ert honum.
 • Hann vinnur að því að mynda traust og nánd ásamt því að hann gefur sig allan í sambandið. Hann veit einnig að traust er áunnið en ekki gefið og leggur sig fram við að sýna fram á að hann sé traustsins verður (ekki bara í byrjun sambandsins)
 • Hann er tilbúinn til að binda sig þessari gyðju sem hann hefur fundið.
 • Hann opnar sig tilfinningalega og felur ekkert. Hann talar um tilfinningar sínar langanir og ótta og ef eitthvað kemur uppá í sambandinu þá vill hann ræða hlutina án ásakana og setninga eins og “hvað með þig” og “þú þú þú” gerir, segir eða hvað það nú er hverju sinni, og hann er alltaf málefnalegur í nálgun sinni. Samræðurnar enda yfirleitt með samkomulagi og í góðu þó að stundum geti kannski hitnað í kolunum í byrjun.
 • Skoðanaskipti eru leyfð og skoðanir þínar eru virtar þó að þær séu á skjön við hans eigin og þú upplifir alltaf að þér sé óhætt að tjá þig heiðarlega og einlæglega.
 • Þér líður vel í návist hans og veist að hann mun grípa þig ef þú þarft á öryggi eða vernd að halda.
 • Hann mun forðast að særa tilfinningar þínar og gerir allt sem í hans valdi stendur til að þér líði vel í sambandinu.
 • Hann tekur ábyrgð á hegðun sinni og viðurkennir mistök sín, biðst fyrirgefningar og sér til þess að þau endurtaki sig ekki.
 • Hann á áhugamál utan sambandsins og á yfirleitt nokkra góða vini sem hann ver tíma með og hann hvetur þig til þess sama.
 • Hann virðir þig sem einstakling og leyfir þér að vera þú en styður þig í því sem þú vilt framkvæma í lífinu og ekkert mál er fyrir þig að elta drauma þína því að hann er þar þér við hlið og eflir þig til dáða.
 • Hann er hjálpsamur og hann kann að forgangsraða (og þú ert númer 1 flesta daga ásamt fjölskyldu ykkar)
 • Hann ber virðingu fyrir tíma þínum og er sjaldan of seinn til að hitta þig. Hann hringir þegar hann segist ætla að hringja og hann stendur við orð sín.
 • Hann er ekki yfirmáta afbrýðisamur þó að hann vilji eiga sína konu einn og hann reynir ekki að stjórna þér né stýra í átt að því sem hann vill.
 • Hann skellir ekki á þig símanum til að taka önnur símtöl og hann lætur þig ekki bíða endalaust eftir því að hann hringi til baka ef svo illilega vill til að hann skelli á þig ef að læknirinn hans hringir eða eitthvað slíkt.
 • Ef honum er alvara með samband ykkar þá talar hann alltaf um framtíð ykkar saman og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að hann ætli sér ekki að vera með þér í framtíðinni.
 • Hann ver miklum tíma með þér og lætur ekki annir dagsins stoppa sig frá því að hafa samband við þig með einhverjum hætti því að þú ert í forgangi hjá honum.
 • Þú óttast aldrei að hann muni skaða þig eða börnin ykkar ef einhver eru því að það er afar langt frá hans hugsun og framkvæmd.
 • Þegar þarf að taka ákvörðun þá gerir hann það fumlaust og af ábyrgð og hann fórnar því sem fórna þarf fyrir ykkar samband og hamingju þess, og hann gerir allt til þess að samband ykkar þrífist hamingjusamlega.
 • Hann er góður hlustandi og þó að karlmenn eigi erfitt með að hlusta án þess að ætla sér að finna lausnir fyrir þig þá gerir hann sitt besta til að heyra þig raunverulega.
 • Hann man hvernig þú vilt hafa kaffið þitt og hvað þér þykir fallegt og hvað gleður þig.
 • Hann mun ferðast um hálfan hnöttinn ef þú þarfnast hans og ekkert mun stoppa hann frá því að koma til þín þegar þú kallar eftir því.
 • Hann er ekki afbrýðisamur út í vinkonurnar þínar og finnst bara frábært að þú eigir tíma með þeim.
 • Og að lokum þá saknar hann þín alltaf þegar hann er ekki í nálægð við þig og enginn er eins glaður og hann þegar þú kemur aftur til hans.
 • Það er nú víst ekki eins og þessir menn vaxi á trjánum og hægt sé að grípa þá af næstu grein en þó má finna þá ef vel er leitað, og þessir menn eru þeir einu sem ættu að fá að komast inn í hjarta okkar því að hjarta okkar er dýrmætt og við verðum að passa það vel.

Og ef þig vantar aðstoð við málefni lífsins þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál