Gerir þú þér upp fullnægingu?

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Hafið þið einhverntíman hugsað út í það hvernig kynlífið ykkar tengist stöðu ykkar í þjóðfélaginu?

Dr. Karen Gurney klínískur sálfræðingur sem aðallega fæst við kynlífsvísindi og við að aðstoða pör í vanda á því sviði talaði um hversu langt við konur værum raunverulega komnar í jafnréttinu þegar kæmi að svefnherberginu í fyrirlestri á Ted.com. Dr. Gurney er einnig höfundur að bókinni MindTheGap,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli: 

Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður og margt sem þar kom fram sem ég held að vert sé að velta fyrir sér og ræða um.

Samkvæmt því sem Dr. Gurney segir þá er karlaveldið og þóknunarhlutverk okkar kvenna enn til staðar í dag og langur vegur virðist í að við náum að  brjóta þetta bil á milli kynjanna þegar um kynlíf er að ræða að minnsta kosti. 

Hér á landi eru þó konur eins og Gerður í Blush sem hvetja konur til að gera ekki þarfir sínar að feimnismáli og mér finnst það frábært innlegg í jafnréttisbaráttu kynjanna og á hún hrós skilið fyrir það.

Þjóðfélagið er duglegt við að segja okkur hvernig við eigum að líta út, hegða okkur og hvað við þurfum að gera til að vera sexý og ég held að við hlustum allt of mikið á þá formúlu.

Samfélagsmiðlarnir eru mjög duglegir við að búa til veröld sem fæstir ná að lifa eftir og því upplifa sig margir sem ekki nóg af einhverju, og við konur sem erum svo duglegar við að setja út á okkur og finnast okkur skorta eitthvað megum bara ekki við þessu glamúrdóti öllu saman sem þolir hvorki hrukkur né smá aukaspik.

Ég man ekki eftir því að hafa fengið konur til mín sem eru fullkomlega ánægðar með útlit sitt eða persónu á einhvern hátt, en flestir karlmenn sem til mín hafa komið halda að þeir séu með þetta og þurfi sko ekki að breyta neinu í útliti eða framkomu sinni. Er þetta ekki einnig sprottið frá karlaveldinu sem við héldum að væri útdautt eða frá samfélagsmiðlum sem stöðugt sýna konum hvernig þær eigi að líta út en láta karlmennina í friði?

En aftur að efni fyrirlestursins á Ted.

Mikil breyting hefur orðið á fimm árum í umræðu um kynlíf og þarfir kvenna og karla en allt of lítið hefur samt breyst í svefnherberginu þar sem konur finna sig enn feimnar við að bera fram þarfir sínar.

Konur í hárri stöðu með sjálfstraustið í lagi segjast oft ekki geta með einhverjum hætti beitt sér af heiðarleika í svefnhverberginu og finna sig í þóknunarhlutverki þar, og rannsóknir sýna að karlmenn fari oft fullnægðari frá borði en konur og að konur upplifi sig oft sem ekki „nóg“ í svefnherberginu.

Rannsóknir sýna einnig að þó að lítill eða enginn munur sé á milli tíðni fullnæginga hjá kynjunum þegar að sjálfsfróun kemur breikkar bilið mikið þegar bólfélagi bætist við.

Í daglegu tali er talað um að fullnæging kvenna sé flókið fyrirbæri og að það taki langan tíma fyrir konur að fá fullnægingar,  en rannsóknir sýna svart á hvítu að þar sem sjálfsfróun á sér stað tekur það jafn langan tíma fyrir konur og karla að ná fullnægingu.

Konur finna sig feimnar við að láta þarfir sínar í ljós og fara inn í sig  þegar þeim tekst ekki að fá fullnægingu með bólfélaganum og taka því uppá að gera sér upp fullnægingu til að þóknast honum og sumar verða bara ansi góðar í því að sögn Dr. Gurney. Hún hvetur konur þó til að láta af þykjustunni og einfaldlega segja bólfélaganum hverjar þarfir þeirra eru í stað þess að fara í þóknunarhlutverkið og eða í það að vilja ekki særa tilfinningar hans (karlmennskan gæti beðið hnekki við það að geta ekki fullnægt konunni).

Enn virðast  konur jafnt sem karlar ekki gera sér grein fyrir því að konur þurfa í flestum tilfellum örvun á sníp til að fullnæging eigi sér stað og ekki er nægjanlegt í flestum tilfellum að karlmaðurinn „tengi sig“ til þess að fullnæging náist .

Mér fannst það ansi áhugavert að heyra að í 95% tilfella fá konur fullnægingu við sjálfsfróun en sú tala datt niður í 65% þegar þær stunduðu kynlíf með öðrum aðila, og það féll enn frekar niður eða í 18% þegar um skyndikynni var að ræða.

Karlmennirnir héldu sinni tölu nokkuð óskertri eða flöktandi þetta frá 95% niður í 85% og þá skipti engu máli hvort um sjálfsfróun,skyndikynni eða fast samband var að ræða. Eins er munurinn ekki svona mikill þegar um samkynhneigð pör er að ræða (konur), þar er kynlífið að sýna svipaða prósentutölu og hjá körlunum.

Konur hvað erum við að gera með því að stunda kynlíf með ókunnugum aðila þegar við fáum ekkert annað út úr því en það að vera í þóknunarhlutverki gagnvart honum?

Og hvernig stendur á því að það skipti meira máli að karlmaðurinn sé fullnægður en konan?

Eru þetta ekki leifar af gamla karlaveldinu og þóknunarhlutverki konunnar?

Við tölum fjálglega um jafnrétti kynjanna á þessu sviði sem og öðrum en þegar að raunveruleikanum hvað kynlífsmálefnin varðar kemur þá erum við enn að láta þarfir kvenna víkja fyrir þörfum karla og því hvort þeim langi í okkur greinilega. „18% stelpur“ – þetta er eins og lottóvinningur að fá fullnægingu við skyndikynni! Förum nú frekar heim og leikum okkur með okkur sjálfum, þar erum við þó 95% öruggar á því að fá fullnægingu.

Gott kynlíf inniheldur auðvitað margt annað en fullnægingar, og atriði eins og nánd, hlátur, kossar og fleira skipta ekki síður máli, en samt sem áður verður það að vera ákvörðun okkar kvenna hvort við látum af hendi fullnægingu okkar vegna feimni okkar eða til að þóknast karlmanninum og tilfinningum hans,og sú ákvörðun ætti að vera vel ákvörðuð í hvert sinn.

Jæja, það er ekki oft sem ég skrifa um kynlíf en mér fannst þessi fyrirlestur bara það áhugaverður og tölurnar sem sýna svart á hvítu hversu stutt við erum komnar þarna varð til þess að ég ákvað að skrifa um kynlíf sem er jú partur af lífinu og vellíðan okkar.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál