Hvað gerist við andlát ef annað hjóna er skráð fyrir skuldlausri fasteign?

Ljósmynd/Unsplash

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá lesanda. 

Sæl Vala. 

Eiginmaður er einn þinglýstur fyrir skuldlausari eign. Við eigum bæði börn frá fyrra hjónabandi en engin saman. Á ég eignina líka? Hvernig verður þegar annað okkar fellur frá eða bæði?

Kveðja, 

GH

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl GH. 

Sá sem er þinglýstur eigandi fyrir eign á hana einn og skiptir ekki máli hvort hann er í hjónabandi eða ekki. Hins vegar kemur slík eign til skipta við skilnað eða andlát og komi til skilnaðar eða andláts, átt þú eða erfingjar þínir tilkall til helmings af andvirði fasteignarinnar.

Það er ágætt að hafa í huga að það hjóna, sem lengur lifir, er heimilt að sitja í óskiptu búi með börnum hins látna, án þess að aflað sé samþykkis ef hjónin hafa mælt fyrir um þann rétt í gagnkvæmri erfðaskrá. Ef slík erfðaskrá er ekki til staðar og stjúpbörnin krefjast skipta þá verður að skipta búinu. Mín ráðlegging er því ávallt sú að ef hjón eiga börn úr fyrri samböndum að þá sé heppilegt að leita til lögmanns í því miði að gera gagnkvæma erfðaskrá um setu langlífari maka í óskiptu búi.

Kveðja, 

Vala Valtýsdóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál