Að finna sína týpu

Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu veit hvaða týpa …
Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu veit hvaða týpa hún er.

Hafið þið ekki öll horft í kringum ykkur á vini eða kunningja sem eru að gera alls konar sniðuga hluti og hugsað: Af hverju get ég ekki verið eins og hann/hún/hán? Þá er ég ekki að tala um neina öfund, heldur frekar löngun til að bæta sig, verða betri manneskja, verða besta útgáfan af sjálfri sér, sem er að sjálfsögðu eitthvað svo klisjukennt. Ég horfi gjarnan á myndir á samfélagsmiðlum af vinum sem eru á fullu í golfi, alltaf uppi á fjöllum eða að hlaupa maraþon. Ég skrolla oft í gegnum slíkar myndir þar sem ég ligg í makindum undir teppi í sófanum og hef það svo gott og hugsa um að fá mér kannski smá blund. Nei, þá kemur innri röddin og vekur mig og spyr: Af hverju getur þú ekki verið svona dugleg eins og allt þetta fólk? Af hverju liggur þú bara eins og skata í sófanum? Drífðu þig upp á fjall, kona!

Málið er að svona yfirhöfuð leiðist mér að labba. Mér leiðist enn meira að labba upp í móti. Það er nefnilega svo drulluerfitt. Finn ég í alvöru bestu útgáfuna af sjálfri mér hjá Steini uppi á Esju? Móð og másandi? Æ, ég veit ekki, svei mér þá. Ég hef prófað, trúið mér. Ég hef líka prófað að hlaupa í maraþoni. Ok, reyndar bara tíu kílómetra, en það eru alls ekkert allir sem geta það og mér finnst það afrek. Ég sló auðvitað engin met enda var það ekki tilgangurinn, en auðvitað var gaman að koma í mark fjórum tímum síðar.

Jæja, smá ýkjur, ég var 90 mínútur. Því fylgdi góð tilfinning sem entist nákvæmlega í þær tíu mínútur sem við systur tókum af okkur sjálfur fyrir samfélagsmiðlana með medalíu um hálsinn. Sko mig, þetta gat ég. Og allir verða að sjálfsögðu að sjá það á samfélagsmiðlunum svo þeir geti líka hugsað: Af hverju er ég ekki eins og hún?

En þá var eftir að ganga að bílnum. Honum var lagt á Snorrabraut en ég enn stödd í Lækjargötu. Ég var mikið að hugsa um að hringja á sjúkrabíl og biðja hann að skutla mér, því það var eins og að klífa Everest að komast þessa vegalengd eftir að hafa hlaupið tíu kílómetra. Hver fruma í vöðvum mínum sagði hingað og ekki lengra. Mér var illt í fótunum í viku á eftir og gat varla gengið. Var þetta þess virði? Kannski, ég er ekki viss.

Ég ætla bara að sætta mig við að ég er ekki göngu-hlaupa-maraþon-týpan. Það þurfa ekki allir að vera það. Ég ætla frekar að vera kaffihúsatýpan sem röltir niður Laugaveginn með bestu vinkonunum, finn mér krúttlegt kaffihús og panta þar eðalkaffi og stóra sneið af köku. Með miklum rjóma. Ég er nefnilega kökutýpan og það er sko ekkert leiðinlegt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál