Fimm merki um stefnumótakulnun

Unsplash/Kinga Howard

Kulnun á sér stað þegar kröfurnar sem eru gerðar til þín fara fram úr getu þinni til að mæta þeim. Kulnun getur átt sér stað í vinnunni, á heimilinu eða í samböndum þínum. Kulnun einkennist almennt af þeirri tilfinningu að sama hvað þú gerir mun ekkert lagast, sem oft leiðir til áhugaleysis. 

Samkvæmt klíníska sálfræðingnum Roxy Zarrabi geta nútímastefnumót oft leitt til stefnumótakulnunar. Stefnumótaforrit geta verið yfirþyrmandi og gefið þá blekkingu að hin fullkomna samsvörun sé handan við hornið ef þú heldur áfram að reyna. Zarrabi fór yfir einkenni stefnumótakulnunar og hvernig hægt er að komast í gegnum hana fyrir Psychology Today.

Fimm merki um stefnumótakulnun

Ef þig grunar að þú sért í stefnumótakulnun skaltu íhuga þessi fimm merki.

  1. Þú lítur á stefnumót sem skylduverk: Þegar þér finnst eins og þér beri skylda til að fara á stefnumót verða þau að of mikilli vinnu og þú hættir að skemmta þér í ferlinu. Ef þú þarft að leggja hart að þér til að sannfæra þig um að fara á stefnumót er það líklega merki um að taka eitt skref aftur á bak og endurhlaða stefnumótabatteríin.

  2. Þú örmagnast við tilhugsunina um að fara á enn eitt stefnumótið eða að halda áfram að fletta á stefnumótaforritum: Í stað þess að finna fyrir spennu við að hitta einhvern nýjan, finnst þér það yfirþyrmandi og þú finnur fyrir örmögnun. Stefnumótakulnun getur komið í veg fyrir að þú getir myndað dýpri tengsl við aðra manneskju vegna þess að þú hefur ekki getu til þess.

  3. Innst inni vonast þú eftir því að hinn aðilinn hætti við: Ef þú finnur fyrir því að þú vonist til þess að hinn aðilinn hætti við stefnumótið getur það verið merki um að þú búir ekki yfir tilfinningalegri getu fyrir stefnumót á þessari stundu.

  4. Þú hefur misst vonina um að tengjast einhverjum sem þér í raun líkar við: Þegar þú missir vonina um að finna einhvern sem þér líkar við í raun og veru glatast yfirleitt hvers kyns hvatning til að fara á stefnumót eða gleðin sem þú gætir upplifað í stefnumótaferlinu lætur ekki sjá sig.

  5. Þú ert viðkvæmari fyrir pirringi eða vonleysi: Þegar þú upplifir stefnumótakulnun geta hlutir sem áður hefðu valdið minni háttar óþægindum verið mjög pirrandi eða látið þér líða eins og þú eigir erfitt með að sleppa takinu. Í þessu ástandi er líklegra að þú takir höfnun sérstaklega illa. Getur það komið fram í hugsunum eins og „ég vissi að ég myndi aldrei finna neinn“ eða „þetta kemur alltaf fyrir mig“.

Hvað er til bragðs að taka?

Stefnumót krefjast ákveðinnar hreinskilni og varnarleysis, svo hægt sé að koma á tengslum við einhvern. Hafðu eftirfarandi ráð í huga ef þú upplifir stefnumótakulnun.

  • Taktu þér hlé frá stefnumótum.
  • Reyndu að vega og meta hvaða þættir stefnumótaferlisins þér finnst tilfinningalega krefjandi.
  • Hugleiddu af hreinskilni þarfir þínar þegar kemur að samböndum og hvað myndi eyðileggja sambandið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál