Má móðir láta dóttur sína hafa 10 milljónir?

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem veltir fyrir sér hvort dóttir hennar þurfi að borga skatt ef hún lætur hana hafa 10 milljónir. 

Sæl Þyrí.

Dóttir mín og tengdasonur eru að kaupa sér íbúð og ég ætla að aðstoða þau með því að greiða útborgunina, sem er 10 milljónir. Spurning mín er hvort að dóttir mín og tengdasonur þurfi að borga skatt af þessum peningum?

Kveðja, MB 

Hvað má foreldri láta afkvæmi sitt hafa mikla peninga?
Hvað má foreldri láta afkvæmi sitt hafa mikla peninga? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl MB

Það er alkunna að fasteignaverð er hátt og erfiðleikar eru hjá ungu fólki við að fjármagna fasteignakaup. Þá er gott (og jafnvel nauðsynlegt) að eiga góða að til að mögulegt sé að kaupa fyrstu íbúð. Þannig verður það æ algengara að foreldrar láti börnum sínum í té fjármuni sem þarf til að greiða útborgun í fasteign, en unga fólkið getur e.t.v. sjálft staðist greiðslumat og fengið húsnæðislán til að fjármagna kaupin að öðru leyti. En þá vakna álitamál um með hvaða hætti þetta fé fer á milli aðilanna og hvort það sé skattskylt.

Fyrst er vert að taka fram að ef einstaklingur gefur öðrum gjöf er sú gjöf skattskyld skv. tekjuskattslögum og það á einnig við um foreldra og börn og aðra sem tengdir eru fjölskylduböndum. Þannig bera bæði gefandinn og þiggjandinn skyldu til að telja gjöfina fram á skattframtali sínu og þiggjandinn á að greiða tekjuskatt af gjöfinni, sem er í á bilinu u.þ.b. 31 – 46% sem fer eftir því í hvaða skattþrepi þiggjandinn er í.

Í tekjuskattslögunum er reyndar tekið fram að undanskildar skattskyldu séu tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Hvað felst í því sem almennt gerist um slíkar gjafir getur undirrituð ekki svarað til um, en nýlega féll dómur í héraðsdómi sem var nokkuð fjallað um í fjölmiðlum þar sem þiggjandi gjafar taldi gjöfina ekki fram og þar sem um háar fjárhæðir var að ræða þurfti viðkomandi að greiða háa sekt fyrir að telja ekki réttilega fram, auk þess að greiða tekjuskattinn.

Foreldri getur einnig veitt barni sínu fyrirframgreiddan arf. Það er tiltölulega einfalt að gera það og einvörðungu þarf að fylla út erfðafjárskýrslu og skila inn til sýslumanns samhliða millifærslu fjármuna. Greiða þarf 10% erfðafjárskatt af fjárhæðinni.

Þriðja leiðin er að foreldri láni barni sínu fjármunina. Ekki er skylt að útbúa (pappírs)skuldabréf við þessar aðstæður, en undirrituð myndi ávallt mæla með því. Greiðsluskyldan, greiðslukjör og greiðsluleiðir eru þá tilteknar í skuldabréfinu og eftir atvikum er skuldabréfinu þinglýst á fasteignina. Barnið greiðir svo foreldrinu tilbaka til samræmis við ákvæði skuldabréfsins. Skylt er að telja slíka skuld fram á skattframtali sínu, rétt eins og aðrar skuldir eða eignir.

Kveðja,

Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þyrí og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.  

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál