„Ég þekki enga alkóhólista sem láta verðið á vodkaflöskunni stoppa sig í að drekka“

Sigmar Guðmundsson situr á þingi fyrir Viðreisn.
Sigmar Guðmundsson situr á þingi fyrir Viðreisn. Ljósmynd/Sterk saman

Sigmar Guðmundsson, alþingismaður berst fyrir hópi jaðarsettra í okkar samfélagi. Hann er gestur Tinnu Barkardóttur sem heldur úti hlaðvarpinu Sterk saman. 

Sigmar er í bata frá fíknisjúkdómi og skilur því vel þjáningu þeirra sem enn eru úti og þjást af fíkn. Sigmar fór í sína fyrstu meðferð árið 1996. Hann segist vera þakklátur fyrir fólkið sitt sem hefur staðið með honum í gegnum brekkur og skafla Bakkusar. 

„Það eru ekki allir jafn heppnir og ég. Sumir hafa ekkert bakland,“ segir Sigmar í viðtalinu.

„Heilinn í okkur alkóhólistunum virkar öðruvísi en hjá öðrum þegar við erum veik af sjúkdómnum,“ segir hann. 

Sigmar segir að bráðavandi fólk sem glímir við fíknisjúkdóma sé mikill. Hann segir að við missum allt upp í hundrað manns á ári úr fíknisjúkdómum. 

„Ég hef talað mikið fyrir því á þinginu að það þurfi stefnu í þessum málaflokki eins og öðrum en við höfum ekki unnið eftir neinni stefnu síðan sú síðasta rann út árið 2020,“ segir hann. 

Lítill skilningur á fíknivanda

Aðspurður hvort eitthvað hræðilegt þyrfti að koma fyrir háttsetta einstaklinga í samfélaginu, eða þeirra nánustu, til þess að eitthvað verði gert segir hann að það sé lítill skilningur á fíknisjúkdómum hjá fólki sem þekki þá ekki.

„Það er spurning sko, auðvitað fer það oft eftir einkalífi manna hvað þeir taka fyrir hverju sinni en menn skilja ekki þessi mál ef þeir hafa ekki upplifað þetta á eigin skinni,“ segir Sigmar. 

Það að eyða peningum í þennan hóp fólks sparar háar fjárhæðir til lengri tíma litið en í pólitíkinni er bara horft á útgjöld, aldrei langtíma áhrif og það sem vinnst fyrir samfélagið. 

Það sem stjórnarmenn eða þeir sem fara með peningavöldin skilja ekki er að ef við aðstoðum þennan hóp fólks munum við einnig aðstoða aðstandendur hópsins, þar eru börn, foreldrar, systkini og fleiri sem oft eru í sárum, jafnvel óvirkir samfélagsþegnar vegna veika einstaklingsins.

„Það er ofboðslega dýrt fyrir samfélagið að missa fólk út úr samfélaginu í fíkn, við missum ekki einungis virka þegna, þessir einstaklingar verða líka mikill kostnaður fyrir samfélagið í formi bóta, stundum afbrota, löggæslu, fangelsismála, kostnaðar fyrir aðstandendur þeirra í formi sálfræðikostnaðar, jafnvel bóta þar líka og svo mætti lengi telja. Þetta er mjög flókinn vandi. Oft eru þessi dauðsföll falin. Við sjáum andlit og nöfn þeirra sem deyja í bílslysum og af mörgum öðrum ástæðum, þetta er oft falið,“ segir Sigmar. 

Hann bendir á að þetta sé vandi alls samfélagsins og að við þekkjum öll einhvern sem hefur farið út af sporinu og flúið í neyslu á áfengi eða vímuefnum. Hann bendir á að boð og bönn hafi litlu skilað. 

„Ég þekki enga alkóhólista sem láta verðið á vodkaflöskunni stoppa sig í að drekka.“

Ekki bjartsýnn á að eitthvað gerist

Tinna og Sigmar tala um að neysla unglinga hafi harðnað mikið og það þurfi að grípa í taumana. 

„Ég hef einblínt á bráðavandann og vil að við nýtum þau úrræði sem til eru nú þegar og svo þarf að bæta við fleiri meðferðarúrræðum. Ég held því miður að það muni ekki neitt róttækt gerast í þessum málaflokki á næstunni,“ segir hann. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál