Meyjan: Þú ert að fara að gera eitthvað stórbrotið í lífinu

Elsku Meyjan mín,

svo merkilega staðföst og heillandi sem þú ert þá læturðu litlu hlutina fara allt of mikið í taugarnar á þér. En hindranir sem skipta engu máli eru bara sveigja á vegi þínum sem þú getur svo auðveldlega sparkað í burtu. 

Hættu að vera reið út í það sem skiptir ekki máli því þá finnurðu hvernig hugurinn hreinsast og þú sérð hvað allt er dásamlegt. Þú hefur áorkað svo mörgu í gegnum tíðina, skoðaðu það og klappaðu þér á bakið. Lífið er langhlaup, en þú átt að taka það í stuttum sprettum. Þú getur ráðið ferðinni og haft stjórn á því sem þú vilt, svo skoðaðu aðalatriðin.

Leggðu meira traust í hendur Almættisins og leitastu eftir að magna þessa skemmtilegu orðheppnu persónu sem þú ert. Því það er bara þannig að ef þú ert í góðu stuði ertu hrókur alls fagnaðar og heillar alla upp úr skónum. Þú þarft á þessu tímabili að temja þér meira jafnvægi á milli þeirrar gegnheilu manneskju sem þú ert og löngunar þinnar til að upplifa ævintýri.

Þú ert að fara að gera eitthvað stórbrotið í lífinu, svo leyfðu þér að njóta. Þú ert ástríðufull og tilfinningarík, en temdu ástríður þínar betur og farðu milliveginn.

Ég dreg eitt spil fyrir þig úr töfrabunkanum mínum og þar er mynd af manni og konu sem setja hendur sínar saman og horfa í augun á hvort öðru.  Þetta spil táknar jafnvægi og það er akkúrat það sem skiptir þig mestu máli á næstunni. Þú þarft sjálf að vinna í þessu því þú ert skipstjórinn í þessari ferð.

Þér dettur í hug þú getir ekki framkvæmt eða klárað þínar hugmyndir eða það sem þú vilt gera. En þegar þú segir sjálfri þér þú getir ekki eitthvað er það staðhæfing sem virkar og þá geturðu það ekki elskan mín.

Þannig skaltu frekar segja við þig oft á dag að þú getir það sem þú vilt, því orð eru álög og þú ert fædd til að gera góðverk það er þinn grunnur og þú getur!

Knús og kossar, Sigga Kling

Frægir í Meyjunni: 

Manuela Ósk, áhrifavaldur og fyrirsæta, 29. ágúst

Edda Björgvinsdóttir, leikkona, 13. september

Beyoncé Knowles, söngkona, 4. september

Gylfi Þór Sigurðsson, fótboltamaður, 8. september

Eiður Smári Guðjohnsen, fótboltamaður, 15. september

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, sjónvarpskona, 7. september

Annie Mist, crossfittari, 18. september

Logi Pedro Stefánsson, tónlistarmaður, 29. ágúst 

mbl.is