Stelpan sem kærði Gillz segir sögu sína

Guðný Rós Vilhjálmsdóttir segir sögu sína í Nýju lífi.
Guðný Rós Vilhjálmsdóttir segir sögu sína í Nýju lífi.

Guðný Rós Vilhjálmsdóttir kærði Egil Einarsson, Gillzenegger, og kærustu hans, Guðríði Jónsdóttur fyrir nauðgun. Hún segir sögu sína í Nýju lífi.

„Mér líður eins og þetta geti hvort eð er ekki orðið verra. Fólk hefur allstaðar tekið undir með honum. Ég hef setið undir lygum og tali um mína persónu í fjölmiðlum, án þess að hafa viljað vera þar sjálf. Þá get ég kannski prófað að segja mína sögu,“ segir Guðný Rós og bætir við:

„Líkaminn minn fraus, hann dó og ég gerði gjörsamlega allt sem þau báðu um. Jafnvel þótt ég gréti á meðan. Þegar ég fæ myndir af þessu upp í hugann þá var ég eins og vélmenni. Það var ekki eins og ég lýsti af vellíðan, ég var sviplaus, ég var bara leidd á milli staða og mér sagt að vera svona og hinsegin,“ segir hún í samtali við Nýtt líf.

Guðný Rós hitti Egil og Guðríði á skemmtistaðnum Austur og þau hafi stungið upp á því að þau færu öll saman á skemmtistaðinn Players í Kópavogi ásamt vinkonum Guðnýjar Rósar. Þegar í leigubílinn kom sögðu þau Egill og Guðríður að ekki væri pláss fyrir vinkonur hennar í bílnum. Þegar Guðný tók eftir því að leigubíllinn væri ekki á leið til Players sögðust Guðríður og Egill ætla fyrst heim til sín að skipta um föt. Á heimili Egils og Guðríður hafi parið stungið upp á þríleik við Guðnýju.

Henni leið ekki vel þegar hún kom á heimili Egils og Guðríðar og fljótlega áttaði hún sig á því að þau ætluðu að stjórna ferðinni.

„Og tárin héldu áfram að streyma. Hann sussaði stundum svona lágt á mig. Og kallaði mig dúlluna sína eða krúttið eða eitthvað svoleiðis. Þetta tal, þessi orð sátu í mér svo lengi, mér fannst þetta svo skepnulegt að segja svona á meðan hann gerði eitthvað sem hann hlaut að vita að ég vildi ekki,“ segir Guðný.

Aðspurð að því hvers vegna hún ákvað að stíga fram segist Guðný Rós vera komin með fjarlægð á málið en tvö ár eru síðan þetta gerðist.  „Vegna þess að það eru liðin tvö ár síðan þetta gerðist. Ég er orðin ótrúlega sterk kona í dag og mig langar til að geta lagt þetta að baki mér. Það er ekkert meira sem hann getur gert mér,“sagði hún í samtali við Nýtt líf.

Forsíða nýjasta hefti Nýs lífs.
Forsíða nýjasta hefti Nýs lífs.
mbl.is