Brjóstakrabbameinið breytti lífinu

Nadia Katrín Banine.
Nadia Katrín Banine. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Landsmenn þekkja Nadiu Katrínu Banine. Hún varð fastagestur á heimilum landsmanna þegar hún var með sjónvarpsþáttinn Innlit/Útlit á Skjáeinum ásamt Arnari Gauta og Þórunni Högna. Í dag starfar hún á Landmark fasteignasölu og er í hlutastarfi sem flugfreyja hjá Icelandair. Auk þess er hún að læra að verða löggiltur fasteignasali og vinnur við innanhússráðgjöf. Nadia Katrín gekk í hjónaband í sumar þegar hún giftist ástinni í lífi sínu, Gunnari Sturlusyni lögmanni.

Á ferli sínum hefur hún komið víða við. Sköpunarkrafturinn hefur alltaf verið í forgrunni og eftir að hafa lent í erfiðri lífsreynslu hefur hún lagt mikla áherslu á heilsuna. Áður en Nadia hóf störf í Innlit/Útlit starfaði hún sem dansari. Hún vann erlendis í 11 ár og eftir að hún flutti heim dansaði hún með Íslenska dansflokknum. Hún var því ekki óvön sviðsljósinu þegar hún hóf störf í Innlit/Útlit. Hún segir þó að það hafi verið svolítið öðruvísi að dansa á sviði en að starfa í sjónvarpi. Þegar hún er spurð að því hvernig hafi verið að verða skyndilega landsþekkt segir hún að það hafi aðallega verið skemmtilegt.
Nadia Katrín Banine.
Nadia Katrín Banine. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér fannst starfið í sjónvarpinu alveg svakalega skemmtilegt. Það var aldrei eins, alltaf eitthvað nýtt að gerast. Þar fékk ég líka útrás fyrir listamanninn og hönnuðinn í mér með öllum fyrir- og eftir-innslögunum sem ég var að vinna fyrir þættina. Hin hliðin á því að verða þjóðþekkt manneskja sem var kannski miður skemmtileg er allt umtalið sem maður fékk sem var bæði gott og slæmt. Maður er undir stöðugri gagnrýni og fólki finnst það eiga svolítið í manni. Það er kannski það sem mér fannst leiðinlegast við þá stöðu sem ég var komin í. Ég hef samt oft leitt hugann að því hvort það væri ekki kominn tími til að fara og gera eitthvað aftur í sjónvarpi því það átti svo vel við mig,“ segir hún.

Nadia hefur alltaf haft þörf fyrir að fegra heiminn í kringum sig eða frá því hún var krakki. Þegar hún er spurð að því hvaðan áhuginn á fallegum hlutum, húsgögnum og heimilum kemur segir hún pabba sinn hafa verið áhrifavald í lífi sínu.

„Ætli ég hafi ekki fengið eitthvað af smíðagenunum frá pabba mínum, en hann er lærður húsgagna- og trésmíðameistari. Ég hef verið svona frá því ég man eftir mér, alltaf að búa eitthvað til. Ég man þegar ég var að fara á menntaskólaböllin, þá saumaði ég mér stundum kjól fyrir kvöldið, en það var kannski ekki eitthvað sem var saumað til að endast,“ segir hún og hlær.

Hefur smekkurinn eitthvað breyst?

„Já, alveg örugglega. Maður fer í gegnum svo mörg tímabil á ævinni. Einu sinni átti til dæmis allt að vera með herðapúðum og allir áttu svona rassskelltar Hondur. Ég hef hinsvegar alltaf farið svolítið mínar eigin leiðir og á mínum yngri árum var ég mikið á móti því að elta fjöldann. Það var einhver sjálfstæðisbarátta í unglingnum.“

Nú hefur þú alltaf geislað af heilbrigði. Hefur þú þurft að hafa mikið fyrir því að líta vel út?

„Haha, já finnst þér það? Að hreyfa sig mikið gefur manni auðvitað meiri orku og úthald og þar sem ég hef verið í dansi frá því ég var fimm ára þar til fyrir nokkrum árum, þá er það kannski auðveldara að halda sé í formi. Ég held að flestar konur þurfi að eiga við það þegar kílóin bætast á og aðdráttarafl jarðar fer að toga allt til sín, en ég veit að þetta er alger klisja að segja að fegurðin komi innan frá, en mér finnst hún bara vera dagsönn. Þegar manni líður vel innra með sér þá er orkan sem við gefum frá okkur svo jákvæð og hún er bara falleg,“ segir Nadia.

Allar kvenskyns verur sem komnar eru yfir þrítugt vita að það er ekkert gefið þegar heilsufarið er annars vegar. Nadia segir að jákvæðnin hafi fleytt sér langt í öllu í lífinu – líka á erfiðari stundum. „Ég reyni alltaf að finna lausnir og leita leiða til að leysa vandamál. Ég held að jákvætt hugarfar sé lykillinn að svo mörgu í okkar lífi. Að koma blóðinu á hreyfingu og ná sér í svolítinn extra skammt af súrefni er held ég frábært gleðilyf.“

Jákvæðni ein og sér dugar þó ekki til. Það þarf eitthvað meira að koma til. Nadia segir mér frá því að hún hafi hætt að borða nautakjöt þegar hún bjó í Bretlandi eða þegar kúariða gekk yfir landið.

„Ég reyni að sneiða eins mikið og ég get hjá unninni matvöru. Borða ekki mikið af mjólkurvörum en leyfi mér þó góða osta stöku sinnum. Síðan ég komst að því að svín hafa ekkert sogæðakerfi og geta ekki losað sig við óhreinindi úr líkamanum þá borða ég ekki svínakjöt, en það kemur þó fyrir að ég fái mér egg og beikon. Eins og þú sérð þá er gífurlega erfitt að vera alveg heilagur í þessum málum. Ég held að það sé mikilvægast að vera meðvitaður um mataræði og hollustu, en leyfa sér þó stöku sinnum og njóta þess í botn sem manni þykir gott,“ segir hún. Spurð út í hreyfingu segist hún ekki enn vera búin að finna sig eftir að hún hætti að dansa með Íslenska dansflokknum. „Mér finnst mjög gaman í jóga og svo er heilmikil brennsla að vera í hestamennsku.“

Gunnar Sturluson og Nadia Katrín Banine á brúðkaupsdaginn sinn í …
Gunnar Sturluson og Nadia Katrín Banine á brúðkaupsdaginn sinn í sumar.

Brjóstakrabbameinið breytti lífinu

Þótt Nadia sé jákvæð og ánægð með líf sitt þá hefur það ekki alltaf verið auðvelt. Árið 2010 fékk hún brjóstakrabbamein. Hún segist hafa gengið í gegnum býsna erfitt tímabil þá og hafi áttað sig á því að hún verði ekki eilíf.

„Það var auðvitað svakalegur skellur að uppgvötva að maður væri ekki ódauðlegur. Sjá kannski ekki börnin sín vaxa úr grasi og verða fullorðnar manneskjur. Það fékk mig helst til þess að fara í heilmikla sjálfsskoðun. Af hverju ég en ekki næsti maður?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að skoða hvað má betur fara bæði líkamlega og andlega og athuga hvort maður geti ekki gert einhverjar jákvæðar breytingar á sínum lífsstíl.“

Það er alltaf verið að tönglast á því að það sé mikið álag á nútímakonum. Tengir þú við það?

„Já, í mínu tilfelli tengi ég algerlega við það. Það er mikilvægt að sinna vel varnarkerfi líkamans og passa vel upp á ónæmiskerfið.

Þegar álagið og streitan er mikil þá bitnar það á því. Við getum víst ekki framleitt samtímis drápsfrumur sem eru hluti af ónæmiskerfinu og til dæmis ráðast gegn krabbameinsfrumum og stresstengd hormón. Ég ræddi þetta heilmikið við krabbameinslækninn minn og hann talaði um að það væri frekar kvíði og áhyggjur sem maður ætti að forðast frekar en bara stress. Stress þarf ekkert endilega að vera alltaf neikvætt.

Álagið sem er á nútímakonunni er mikið til líka tilkomið af henni sjálfri. Við verðum að taka stjórnina og stoppa af þetta rugl að reyna að vera endalaust fullkomnar. Heimurinn ferst ekki þótt ekki sé allt hundrað prósent. Ég var mikið þannig en þetta kenndi manni aðeins að slaka á kröfunum til sjálfs sín.“

Gerir þú eitthvað sérstakt til að forðast álag og of mikið stress?

„Ég er búin að læra að segja nei,“ segir hún og hlær og bætir við:

„Oft kom ég mér í þannig aðstöðu að ég hreinlega gat ekki gert allt hundrað prósent á sama tíma og það skapaði bæði stress og kvíða. Áhyggjur af því að bregðast einhverjum. Núna reyni ég að hafa betri stjórn á tímanum og ætla mér ekki of mikið sama daginn.“

Þegar Nadia er spurð að því hvað hún geri á hverjum degi til að gera líf sitt betra stendur ekki á svarinu:

„Kyssa manninn minn,“ segir hún og hlær.

„Það allavega hjálpar. Ég held að öll þessi umræða um núvitund sé alveg gífurlega mikilvæg. Vera í núinu, njóta líðandi stundar. Við erum alltof oft einhvers staðar allt annars staðar en akkúrat þar sem við erum stödd. Þú ert með vinum og þá er farið í símann að sjá hvað aðrir vinir eru að gera, eða senda þeim eitthvað svo þeir viti alveg örugglega hvað þú ert að gera. Allt þetta áreiti sem er í kringum okkur er svolítið að drepa stemninguna finnst mér. Fólk á bara að vera í núinu og njóta.“

Í sumar giftist Nadia manninum sínum við hátíðlega athöfn á Snæfellsnesi. Þegar ég spyr hana út í ástina og þeirra kynni kemur í ljós að vinnan sameinaði þau tvö.

„Við kynntumst eiginlega í gegnum vinnuna mína sem sölufulltrúi á fasteignasölunni. Ég vissi hver hann var en við þekktumst ekki neitt. Hann var í leyfi frá vinnu og bjó fyrir vestan í Hrísdal þar sem hann er með hrossaræktarbú, en var að leita sér að íbúð fyrir sig og hundinn sinn. Við töluðum heilmikið saman í símann og kynntumst raunverulega þannig. Það sem heillaði mig við Gunnar var hvað hann er skemmtilegur og hlýr. Ég hló mikið í þessum samtölum okkar og það er alveg ótrúlega gott fyrir sálina.“

Ertu að upplifa það í fyrsta skipti að vera raunverulega ástfangin?

„Veistu, það mætti alveg segja það. Þetta er allavega allt öðruvísi en þau sambönd sem ég hef verið í áður. Við Gunnar eigum bara svo margt sameiginlegt og með líkar skoðanir og húmor. Stundum geng ég fram af honum í fíflaskap, en svona lögmenn eins og hann hafa bara gott af því.“

Talið berst að lífinu, aldrinum sem færist yfir og þroskanum. Þegar ég spyr hana hvernig tilfinning það sé að þroskast segir hún hana góða.

„Það er sorglegt að sjá og heyra þegar fólk er að bölva Elli kerlingu og fattar ekki hvað það eru mikil forréttindi að fá að eldast og eiga afmæli.“

Hvað finnst þér þú helst vera búin að læra af lífinu?

„Það er sem er, reyndu að njóta þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »