Stjörnuþema í veislu Magnúsar Breka

Magnús Breki Þórinsson.
Magnús Breki Þórinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Breki Þórarinsson er í 8. bekk í Sjálandsskóla og fermist í Garðakirkju 17. mars. Magnús er mikill körfuboltastrákur og var með körfuboltaþema í fermingarveislunni sinni. 

„Ég valdi að fermast í Garðakirkju af því að ég og bróðir minn vorum skírðir í kirkjunni, mamma og pabbi giftu sig þar og pabbi er fermdur í Garðakirkju,“ segir Magnús Breki.

Hvernig hefur fermingafræðslan verið í vetur?

„Fermingarfræðslan var mjög skemmtileg og fræðandi. Við vorum að fræðast um Guð, Jesú og kristna trú. Mér fannst áhugavert að fræðast betur um trúna og vita betur af hverju ég er að fara að fermast og til hvers. Í fermingarfræðslunni horfðum við á myndbönd um tíma Jesú Krists, heyrðum sögur, horfðum á leikrit og spjölluðum um tilfinningar og samskipti.

Svo áttum við að fara reglulega í messu, a.m.k. átta sinnum yfir veturinn. Það var gaman að fara í messu, eiginlega skemmtilegra en ég hélt þar sem dagskráin var mjög fjölbreytt og áhugaverð fyrir ungt fólk eða bara alla. Stundum voru tónleikar í miðri messu eða ýmsir gestir komu, t.d. kom erlendur prestur og sagði okkur hvernig guðsþjónustur færu fram í heimalandi hans. Í byrjun vetrar fórum við í fermingarferðalag í Vatnaskóg og vorum tvær nætur, þar lásum við sögur um Jesú, fórum í leiki og skemmtum okkur.“

Með Stjörnuþema í veislunni

Magnús Breki segir það hvað hann hafi lært margt um lífið og Jesú í fermingarfræðslunni í vetur hafa vakið hvað helst áhuga hans. En spurður um þema í fermingarveislunni segir hann: „Ég æfi körfubolta með Stjörnunni. Er búinn að æfa síðan ég var fjögurra ára þannig að körfuboltaþema NBA og Stjarnan var það eina sem kom til greina. Litirnir sem ég valdi eru Stjörnulitirnir blár og hvítur.“

Hvar var fermingarveislan haldin?

„Frændi minn á Mathús Garðabæjar og þar sem það er uppáhaldsveitingastaðurinn minn valdi ég hann til að halda veisluna í.“

Magnús Breki bauð upp á hlaðborð með alls konar smáréttum og svo var körfuboltakaka í eftirrétt.

Óskalisti fermingarbarnsins

Spurður um óskalista fermingarbarnsins fyrir fermingargjafir verður Magnús Breki hógvær og segir að aðalgjöfin hafi verið að fá gestina til að gleðjast með honum þennan dag.

En ef þú ættir að nefna eitthvað sem hann telur vinsælt um þessar mundir segir hann:  „Fartölva í skólann, helst MacBook Air, síðan finnst mér Tommy Hilfiger-úrin mjög falleg, Beats-heyrnartól eru nokkuð sem ég væri alveg til í að eignast, svo getur maður alltaf bætt við sig nýjum körfuboltaskóm, t.d. Jordan 4 Retro „Royalty“ og Bape X Adidas Dame 4,“ segir Magnús Breki og ítrekar að í raun hafi hann áhuga á öllu sem tengist körfubolta. „Svo finnst öllum fermingabörnum gaman að fá pening.“

Ertu trúaður?

„Já, ég hef alltaf verið trúaður.“

Áttu mottó í lífinu?

„Ég nota mikið: Æfingin skapar meistarann, bæði í skólanum og í körfuboltanum. Síðan er gott að hafa í huga: „Einn fyrir alla – allir fyrir einn,“ þegar maður er að stunda hópíþróttir.“

Með skýra sýn á framtíðina

Hvað ætlarðu að verða í framtíðinni?

„Ég stefni á að verða kokkur og eiga veitingastað eins og frændi minn. Mér finnst mjög gaman að elda og hjálpa til í eldhúsinu þegar ég get. Uppáhaldsmaturinn er sushi og nautasteik.

Svo langar mig að verða enn betri í körfubolta og draumurinn er að spila í NBA.“

Hver er uppáhaldskörfuboltamaðurinn þinn og liðið?

„Kyrie Irving sem spilar með Boston Celtics, og uppáhalds NBA-liðið mitt er Cleveland Cavaliers. Ég stefni að því í framtíðinni að fara til Bandaríkjanna og sjá Irving spila,“ segir hann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál