„Er eiginlega algert jólaskrímsli“

Selma Hreggviðsdóttir.
Selma Hreggviðsdóttir. Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Selma Hreggviðsdóttir myndlistarmaður þekkir alla bestu staðina til að heimsækja um jólin. Hér deilir hún upplifun sinni og dýrðlegu sérrítriffli sem er uppskrift frá móður hennar. 

Selma situr í stjórn Kling & Bang gallerís. Hún flutti nýverið til landsins frá Glasgow eftir fimm ára dvöl þar sem hún bjó með syni sínum og stundaði meistaranám við Glasgow School of Art. Selma starfar við myndlist og myndlistarkennslu og sinnir ýmsum verkefnum tengdum faginu.

„Listin er alls staðar og umlykjandi í samfélaginu öllu. Ég er að fara að sýna í Berg Contemporary á Klapparstíg í janúar ásamt Sirru, Sigrúnu Sigurðardóttur, við erum einnig að vinna í bók sem kemur út samhliða.“

Selma á Hreggvið sem er níu ára og búa þau í Vesturbænum með besta vini hans og bekkjarfélaga og mömmu hans sem er ein af hennar bestu vinkonum ásamt kanínunni Sóleyju.

„Við kynntumst í gegnum strákana okkar og erum orðin að hálfgerðri fjölskyldu, sem ég er afar þakklát fyrir. Ég er úr mjög náinni fjölskyldu og finnst eiginlega alltaf skemmtilegra að upplifa hluti og deila með öðrum.“

Hvernig eru dæmigerð jól hjá þér?

„Það má segja að ég eigi tvenns konar jól. Annars vegar á ég æskujólin mín í faðmi fjölskyldunnar með strákinn minn á Eskifirði í foreldrahúsum en þegar hann er hjá hinni fjölskyldunni sinni held ég jólin í Glasgow með vinum og Perlu systur minni. Það er pínu erfitt að halda hefðbundin fjölskyldujól án hans.“

Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Heldur aftur af sér fyrir jólin

Ertu mikið fyrir jólin?

„Ég er eiginlega algert jólaskrímsli og á erfitt með að byrja ekki að spila jólatónlist og baka jólakökur í október. Ég veit að ég á ekki að segja þetta nokkrum manni en nú er það opinberað.“

Selma er á því að vinir og fjölskylda séu númer eitt um jólin.

„Ég verð alger kærleiksbangsi á þessum tíma. Ég held mitt árlega jólaglöggsboð og býð fólki sem mér þykir vænt um. Þetta geri ég hvort sem ég er í Glasgow eða á Íslandi. Annars er myndlist, bækur, tónlist og leikhús ómissandi í jólatíðinni. Sem og kertaljós, greniilmur, mandarínur og góður matur og nóg af súkkulaði auðvitað.“

Hún segir að það sé ekkert betra en að deila upplifunum með fólkinu sínu og eiga innihaldsríkar samræður í notalegheitum jólanna.

„Svo eru listir og upplifanir bestar í jólapakkann. Ég reyni eftir fremsta megni að taka ekki þátt í jólastressinu og finnst áhersla á neyslu í samfélaginu í kringum jólin frekar þreytandi.

Það er svo ótalmargt í boði og það fer eftir því hvað höfðar til hvers og eins. Ef maður er að taka sín fyrstu skref í að njóta myndlistar mæli ég með að nýta sér þær fjölmörgu leiðsagnir sem eru í boði í listasöfnum borgarinnar. Leiðsagnir eru frábær leið til að byrja að kynna sér heim myndlistarinnar. Góð leiðsögn getur virkað sem dyr að leyndardómi. Að verða fyrir fagurfræðilegri upplifun á myndlist er svolítið eins og að finna sannleikann. Maður tengist alheiminum í augnablikinu og skilur á annan hátt, dýpri. Sú upplifun er ómetanleg og gefur innblástur í alla þætti lífsins. Svo mæli ég með að gera sér ferð niður á Granda í Marshall-húsið en þar er auðvelt að eyða góðum hluta úr degi. Húsið er menningarhús þar sem Nýlistasafnið, Kling & Bang og Stúdíó Ólafs Elíassonar eiga heima og á jarðhæð er veitingastaðurinn La Primavera sem er með langbesta fisk dagsins að mínu mati. Að koma inn í bygginguna er upplifun í sjálfu sér; hún hýsti áður síldarbrennslu en hefur nú verið aðlöguð nýju hlutverki.“

Selma segir íslenska samtímalist áhugaverðan kost.

„Mér finnst gaman að fara í Ásmundarsal fyrir jólin til að kaupa íslenska samtímalist á viðráðanlegu verði en þar stýrir Tvíeykið Prent og Vinir hinni árlegu Le Grand salon de noel-sýningu. Á sýningunni eru verk yfir 100 listamanna sett upp í salon-upphengi þar sem gestum gefst kostur á að eignast verk og pakka þeim inn á staðnum og taka með sér.“

Hvað einkennir jólin í Glasgow?

„Í Glasgow borðar fólk mikið af „mince pie“ og hægt er að fá heitt jólaglögg á öllum börum og veitingastöðum í aðdraganda jólanna. Þar eru líka útijólamarkaðir sem er svo gaman að rölta um og þar er hægt að kaupa alls konar indverskan, pakistanskan og suðuramerískan mat. Glasgow er mjög fjölmenningarleg sem er svo frábært fyrir matarmenninguna, já og menninguna yfir höfuð. Mér finnst nauðsynlegt að fara á „pantomime“, sem er sérstök leikhúshefð sem kemur frá Bretlandi. Flest leikhús setja upp sína „pantomime“-sýningu og er rosaleg samkeppni hvaða leikhús er með bestu sýninguna. Þessar sýningar eru sambland af gamni, söngleik, dragi og „slapstick“ og eru skrifaðar í kringum klassísk ævintýri. Maður lærir að vera „pantomime“- áhorfandi þar sem margir brandaranna eru minni sem áhorfendur kunna og bregðast við með að kalla fram setningar og púa á vissum stöðum. Þannig eru áhorfendurnir virkir þátttakendur.“

Hvernig gengur að aðlaga gamlar hefðir og nýjar?

„Ég er ekkert svo mikið fyrir hefðir þau jól sem ég er ekki á Eskifirði. Glasgow-jólin eru aldrei eins, ég hef haldið jól þar sem allur matur og drykkir eru í mexíkósku þema og önnur með indversku. Ég er skapandi og finnst alltaf gaman að prófa, smakka og gera alls konar nýtt og búa til nýjar aðstæður.“

Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Einfaldleikinn er bestur

Áttu áhugaverða uppskrift aðs kemmtilegu jólakvöldi?

„Einfaldleikinn er bestur er klisja því það er nú bara satt. Draumakvöldið er að elda góðan mat í rólegheitum með vinum og fjölskyldu með rauðvín og kertaljós. Njóta þess að vera saman og taka kannski í spil. Sérstaklega finnst mér gaman að spila við bróður minn því hann er svo tapsár þótt hann viðurkenni það ekki.“

Hvaða áhrif hefur tónlist á þig um jólin?

„Tónlist er ómissandi allt árið um kring en um jólin getur hún látið mér líða eins og barni að bíða eftir jólunum. Ég á minningar við lög eins og „Ég hlakka svo til“ þar sem við bjuggum í blokk á Eskifirði og ég var svo spennt fyrir jólunum að ég gat ekki sofið. Ég kveikti á sjónvarpinu til að bíða eftir „Með afa“ en klukkan var fjögur um nóttina. Ég man svo vel að lagið spilaðist við gömlu skjámyndina í sjónvarpinu og ég stóð í stofunni innan um jólaljósin í myrkrinu og horfði á stór snjókorn falla rosalega hægt út um gluggann. Svona minningar, þar sem ekkert gerist í sjálfu sér, eru meira eins og upplifanir á augnablikum og þeim aðstæðum sem þú getur ekki upplifað eins í dag því maður er ekki barn. Tónlist er svo mögnuð og það sama má segja um lykt. Hvort tveggja getur virkað eins og andleg tímavél.“

Bakarðu mikið eða eldar?

„Ég elska að elda en baka einmitt mest fyrir jólin. Ég er ekkert sérstaklega góð í að baka, ég held að ég sé of skapandi fyrir bakstur því þar þarf maður að fylgja alls konar reglum sem ég er ekki góð í. Ég fer alltaf að breyta og bæta eða það held ég alla vega en það endar svo oft með ósköpum. Ég elska hins vegar að elda og mér finnst það eiginlega andleg upplifun. Það róar mig og er skapandi á annan hátt en myndlistin er. Mér finnst líka rosalega gaman að gefa fólki að borða.“

Hvað með jólagjafir, hvaða merkingu hafa þær?

„Ég hlakka nú alltaf meira til að fá trifflið hennar mömmu en gjafir. Það er árlegur brandari heima að senda mig ekki fram í eldhús til að ná í trifflið því þegar ég var lítil missti ég skálina á eldhúsflísarnar og því var enginn eftirréttur þau jólin. Systir mín fór að gráta og mér hefur ekki enn verið fyrirgefið fyllilega held ég. En ég elska að gefa og þiggja bækur og myndlist því hún er svo miklu þýðingarmeiri en hlutir og hún hættir aldrei að gefa. Annars finnst mér mikilvægt að hugsa til umhverfisins þegar við kaupum jólagjafir og það er sem betur fer mikil vitundarvakning í þeim málum. Ég reyni að passa mig og elska að versla í búðum eins Fisher í Grjótaþorpinu; fyrir utan hvað það er mikil upplifun að koma þarna inn þá er áhersla lögð á umhverfisvæna framleiðslu og umbúðalitlar vörur sem unnar eru úr íslenskum jurtum og hráefni. Sonur minn kallar þessa búð galdrabúðina og það er frekar nákvæmt – það eru einhverjir galdrar við hana.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál