Ætlar að vera há, grönn og ljóshærð 2020!

Anna Þóra Björnsdóttir eða Ungfrú Gin & Tonic.
Anna Þóra Björnsdóttir eða Ungfrú Gin & Tonic.

Anna Þóra Björnsdóttir, eigandi gleraugnaverslunarinnar Sjáðu, er hluti af uppistandshópnum Bara góðar sem frumsýndi uppistandssýningu sína á dögunum. Hópurinn kynntist á uppistandsnámskeiði hjá Þorsteini Guðmundssyni og þá var ekki aftur snúið. Anna Þóra segist vera að upplifa draum sem hún hélt að hún myndi aldrei upplifa og árið 2020 leggst stjarnfræðilega vel í hana.

„Árið leggst alveg ótrúlega vel í mig. Ég held þetta verði árið sem ég tek stökkbreytingum og verði há, grönn og ljóshærð,“ segir Anna Þóra og hlær. 

Hvernig fer miðaldra kona sem rekur gleraugnaverslun í það að vera uppistandari?

„Ég er í grunninn djammari og grínisti í eðli mínu. Hef alltaf elskað að segja sögur og brandara þannig að þegar þetta tækifæri birtist mér þá stökk ég á það. Það er eins og ég sé að uppfylla draum sem ég vissi ekki að ég ætti,“ segir hún. 

Kemur þú alltaf auga á hið spaugilega í lífinu?

„Já, en ég hef líka verið á þeim stað í lífinu þar sem ekkert er fyndið. Það er ekki gott og þangað ætla ég ekki aftur. Þess vegna finnst mér mikilvægt fyrir mig og alla aðra að líta á það skemmtilega og spaugilega í lífinu, það gerir allt miklu auðveldara.“

Hvernig myndir þú lýsa húmornum þínum?

„Hann er svartur og kvikindislegur og sjokkerar marga. Þannig vil ég hafa það. Maður á að gera grín að öllu en mest þó að sjálfum sér. Þetta er allt saman svo fíflalegt í raun, maður þarf bara að sjá það með gríngleraugum.“

Finnst þér húmor fólks vera að breytast?

„Heldur betur. Mér finnst húmor fólks vera að verða miklu alvarlegri og viðkvæmari. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er jákvætt að taka tillit til náungans og bera virðingu fyrir hlutum en kommon. Slökum aðeins á.“

Hverjar eru þínar vonir og væntingar fyrir 2020?

„Ég ætla mér að komast á samning hjá Warner Brothers og langar að starfa sem barnapía fyrir Harry og Megan, ef þau eiga efni á því greyin.“

Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Sterkt kaffi og strákarnir mínir fyrir hádegi. Gin og tónik og eiginmaðurinn minn seinni partinn. Síðan fæ ég alltaf gott orkuboozt í Port 9 sem er minn heimavöllur.“

Hvað ætlar þú að gera öðruvísi í ár en í fyrra?

„Liggja meira í sólbaði og kannski skella mér í ljós. Þetta er bara bull með húðkrabbameinið, allir eru sætari smá brúnir og ég er búin að panta mér til Tenerife með fyrrverandi tengdamömmu minni í lok febrúar. En henni finnst líka gott Gin og tónik þannig að við höfum haldið vinskapinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál