Ætlaði til Ísafjarðar en ætlar að vera heima að baka

Guðrún Ýr gerir einstaklega gómsætar kökur. Hún ætlar ekki að …
Guðrún Ýr gerir einstaklega gómsætar kökur. Hún ætlar ekki að láta sitt eftir liggja á páskunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari ætlaði á Aldrei fór ég suður-hátíðina um páskana.
Vegna breyttra aðstæðna hefur hún ákveðið að fara í bústað. Páskaborðið verður fullt af kræsingum þar sem hún hefur meiri tíma en vanalega til að baka.

Guðrún Ýr segist hafa það nokkuð gott þessa dagana. Hún er farin að hlakka til páskanna, enda segir hún þá einstaklega ljúfa og góða hátíð.
„Það er vanalega lítið stress um páskana og markmiðið alltaf að vera með þeim sem eru mér nánir. Og að borða eitthvað gott.“

Að baka róar taugarnar

Hún segir að ástandið í landinu í dag komi við sig eins og aðra en þakklæti sé sér ofarlega í huga í dag.

„Ég er þakklát fyrir heilsuna, fjölskylduna og nálægðina við náttúruna. Eins er ég afar ánægð með það að hafa aukatíma til að baka þessa dagana. Mér hefur alltaf þótt það að baka róa taugarnar.“

Hvað ætlar þú að gera um páskana að þessu sinni?

„Planið var að ég og Gulli, maðurinn minn, ætluðum á Aldrei fór ég suður, en það verður lítið úr því að þessu sinni. Við erum samsett fjölskylda. Sonur minn Karel Hafsteinn og dóttir Gulla, Ísabella Ósk, verða bæði hjá hinum foreldrum sínum. Svo ætli við förum ekki bara í bústaðinn, eldum eitthvað gott, ég ætla að baka og svo ætlum við að njóta samvista hvort við annað.“

Hún bendir á girnilega marengstertu sem fallegt er að skreyta á páskalegan hátt sem dæmi um skemmtilega hluti að gera á páskunum. 

Ferðalög á fjarlæga staði ekki aðalatriðið

Það sem Guðrún Ýr leyfir sér á hverjum páskum er að fá sér páskaegg eins og svo margir aðrir landsmenn. Eins býr hún til fallegar kökur sem henta bæði fyrir hina fullorðnu, en einnig fyrir börnin. 

„Eins þykir mér svo mikilvægt að nota tímann vel í að gera eitthvað sem gleður mann. Svo er bara að muna að njóta páskanna í botn. Það ætla ég að hafa í huga.“

Hún segir hægt að horfa á ástandið með alls konar augum og sér detti í hug páskar sem hún átti fyrir nokkrum árum.

„Fyrir fáeinum árum fór ég á hátíðina Aldrei fór ég suður og eftir að hafa keyrt á Ísafjörð að vetri til eyddum við vinahópurinn kvöldinu saman í húsi við hliðina á hátíðarhúsinu, þar sem við horfðum á tónleikana í stað þess að rölta yfir í næsta hús á skemmtunina. Þetta gerðum við af því það var svo leiðinlegt veður úti.

Svo kannski eru ferðalög á fjarlæga staði ekki aðalatriðið í dag.“

Veit fátt skemmtilegra en að baka

Ertu að vinna heima þessa dagana?

„Já ég starfa sem forstöðumaður Klifsins – skapandi seturs í Garðabæ og er matarbloggari fyrir heimasíðuna mína Döðlur & smjör í hjáverkum. Vinnan fer að mestu leyti fram heima þessa dagana, með maka, börn og hundinn á hliðarlínunni. Starf mitt fer að miklu leyti fram í
gegnum netið og auðveldar það vinnuna á þessum dögum þar sem ekki skiptir öllu máli hvar starfið er unnið. 

Fyrir mig skiptir mestu máli að brjóta daginn upp með því að fara í göngutúr eða baka eitthvað gott með vinnunni. Mér finnst fátt skemmtilegra en að baka og deila uppskriftum áfram til þeirra sem hafa áhuga á hinu sama.

Fyrir þessa páska mæli ég sérstaklega með páskakökunni minni sem er karamellu- og perukaka. Hún er dásamlega falleg og bragðgóð og upplýsingar um hana má finna á blogginu mínu.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál