Þríeykið „mætti“ í brúðkaup Árna og Sigríðar

Árni Helgason og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir gengu í hjónaband á …
Árni Helgason og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir gengu í hjónaband á laugardaginn. Þríeykið; Víðir, Alma og Þórólfur, voru næstum því búin að eyðileggja stóra daginn og fengu því að vera með í pappaformi.

Árni Helgason lögmaður og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá Íslandsstofu gengu í hjónaband um helgina. Brúðkaupið sjálft fór fram í Seltjarnarneskirkju og á eftir héldu brúðhjónin veglega veislu í Félagsheimili Seltjarnarness. Árni og Sigríður Dögg voru búin að vera saman í 13 ár þegar þau gengu í hjónaband. Árni mælir með þessari íslensku leið. 

„Við tókum íslensku leiðina á þetta þar sem við höfum verið saman í þrettán ár og eigum saman þrjú börn og endum svo á að gifta okkur. Alveg öfugt við t.d. bandarísku leiðina þar sem fólk byrjar á að giftast og fer svo á fyrsta stefnumótið. Ég er hrifnari af íslensku leiðinni, þá hefur fólk verið lengi saman og það er búið að álagsprófa sambandið fram og til baka. Ef þetta væru viðskipti þá hefðu báðir aðilar lokið mjög ítarlegri áreiðanleikakönnun þannig að það kemur ekkert á óvart lengur,“ segir Árni í samtali við Smartland. 

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir og Árni Helgason voru gefin saman í …
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir og Árni Helgason voru gefin saman í Seltjarnarneskirkju.

Voruð þið lengi að skipuleggja brúðkaupið?

„Við byrjuðum að huga að þessu í fyrra, pöntuðum kirkju og tókum daginn frá. Annars hefur aðdragandinn að þessu verið svolítið ævintýri, við sendum út boðskort í byrjun árs en þau voru ekki fyrr farin út en að kórónaveiran skall á með tilheyrandi samkomubanni og 2 metra reglu.

Lengi vel leit út fyrir að við myndum þurfa að fresta þessu og að sama skapi var allur undirbúningur á ís á meðan. Við ákváðum þó að halda í vonina, ekki síst vegna hvatningar frá okkar vinum og gestum sem sögðu okkur að vera ekki að ana að neinu, taka bara ákvörðun þegar þar að kæmi. Svo fór að rofa til, fyrst var samkomubannið hækkað í 50 manns og síðan í 200 manns og 2 metra reglan gerð valkvæð og þá vissum við að þetta myndi ganga upp. En til að heiðra þríeykið okkar þá settum við upp lítið spritt-altari þeim til heiðurs í veislunni. Þau eru náttúrulega fyrir löngu orðin þjóðhetjur og okkur fannst við hæfi að sýna þeim virðingarvott fyrir þeirra þjónustu og hafa þau með okkur í veislunni,“ segir hann. 

Árni Helgason og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir.
Árni Helgason og Sigríður Dögg Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Facebook

Voruð þið sammála um hvernig stóri dagurinn ætti að vera?

„Já, vorum merkilega mikið sammála um þetta. Aðalatriðið í okkar huga var að fagna með nánustu fjölskyldu og vinum okkar. Dagsetningin var hins vegar valin út frá því að foreldrar brúðarinnar giftu sig á þessum degi fyrir 45 árum. Þau upplifðu veisluna því ekki síður sem sitt brúðkaupsafmæli.“

Hvar var brúðkaupsveislan og hvað var boðið upp á?

„Veislan var haldin í Félagsheimili Seltjarnarness og seltirnska fyrirtækið Veislan ehf. sá um veitingarnar. Þar var boðið upp á þríréttaðan kvöldverð, í forrétt var platti með humarsúpu, andabringu, carpaccio og lax og í aðalrétt stóð valið á milli innbakaðrar nautalundar (Beef Wellington), lambalæris og appelsínugljáðrar kalkúnabringu og svo kaka í eftirrétt, sem hét því lýsandi og mikla nafni Tvöföld ástarjátning. Mjög ljúffengt allt saman.“

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður var plötusnúður í brúðkaupinu.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður var plötusnúður í brúðkaupinu.

Hvernig var brúðkaupsveislan?

„Frábær. Við áttum frábæran dag og dásamlegt kvöld með okkar vinum og fjölskyldu, með ræðuhöldum og skemmtiatriðum. María Rúnarsdóttir sá um að taka myndir fyrir okkur, okkar allra besta söngkona Sigríður Thorlacuis söng í kirkjunni við undirleik Guðmundar Óskars, Marína og Mikael sáu um tónlist í fordrykknum og svo steig sjálfur Stefán Hilmarsson á stokk um kvöldið, ásamt Þóri Úlfarssyni á hljómborðinu og tók nokkur lög fyrir okkur af sinni alkunnu snilld. Mér fannst mjög lýsandi fyrir hvað Stefán kom sterkur inn að einn vinur minn, sem hefur lengi strögglað við að vera einhvers konar indí-hipster í tónlist með tilheyrandi týpuálagi og óhamingju, kom til mín og sagði: Jæja, fjandinn hafi það, ég er orðinn Stebba-fan. Nema hvað?

Svo tók einn gesta brúðkaupsins, hinn eini sanni Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður og plötusnúður, að sér að halda uppi stuðinu langt frameftir á dansgólfinu eins og honum einum er lagið.“

Hvað mælir þú með að að fólk geri sem langar að ganga í hjónaband en finnst það vera of mikið vesen?

„Það finnur hver sína leið. Það eru alls konar útfærslur mögulegar, hvort sem fólk vill brúðkaup í kirkju, hjá sýslumanni eða lífsskoðunarfélagi. Að sama skapi eru alls konar veislur og fagnaður til, stórar, smáar og allt þar á milli. Aðalatriðið er að hugurinn gildir, fólk er auðvitað fyrst og fremst að staðfesta skuldbindingu sína við hvort annað og fagna því. Það er stærsta málið.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir komandi brúðhjón?

„Við erum auðvitað enn sem komið er bara á öðrum degi hjónabandsins. Sá fyrsti fór að mestu í svefn og afslöppun en við gerðum okkur ferð á KFC. Ég mæli með því fyrir öll sambönd, að dýpka tengslin af og til með því að næra sig hjá ofurstanum.

Ef maður ætti að gefa einhver ráð varðandi undirbúning fyrir brúðkaup þá er þetta auðvitað svolítið fyrirtæki. En það hefst alltaf. Einn vinur minn gaf mér gott ráð í byrjun, þegar hann spurði mig – hefurðu einhvern tímann farið í leiðinlegt brúðkaup? Og þegar maður hugsar þá er það einmitt málið, á endanum skiptir ekki máli hvort lýsingin í salnum hafi verið óaðfinnanleg eða hvort rauðvínið með matnum hafi verið frá Spáni eða Argentínu, heldur að það er stór og frábær hópur að koma saman að skemmta sér og gleðjast. Mér fannst þetta góður boðskapur og það sem maður finnur svo sterkt er hvað fólkið manns, ættingjar og vinir, standa þétt við bakið á manni í þessu, allir boðnir og búnir að hjálpa til og taka þátt og finnst gaman.“

Hvað stóð upp úr á stóra deginum?

„Að þessi gullfallega kona hafi sagt já við mig!“

Stefán Hilmarsson söng í veislunni.
Stefán Hilmarsson söng í veislunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál