„Ég fæ mínar bestu hugmyndir í baði“

Rakel Halldórsdóttir og Helgi Þorgils, eiginmaður hennar.
Rakel Halldórsdóttir og Helgi Þorgils, eiginmaður hennar. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Rakel Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Matís, er einstaklega mikill fagurkeri og elskar allt sem viðkemur blómum, görðum, fallegri hönnun og hugmyndum. 

Hvað gerir þú til að dekra við þig?

„Ég fer í langt og gott, vel heitt bað. Fyrir mig er það hugleiðsla, því ég læsi að mér og er í algjöru einrúmi með sjálfri mér í kyrrð og ró og leyfi huganum að hvílast. Það er ekki síður sköpunarstund, því þegar hugurinn er kominn í hugleiðsluástand opnast fyrir eitthvað og hugmynda- og sköpunarkrafturinn fer á flug. Ég fæ mínar bestu hugmyndir í baði og ef ég þarf að finna lausn á einhverju þá finn ég hana í baði. Þar eru mín „EUREKA“-augnablik.“

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

„Allir litir eru fallegir í mínum huga og ég á föt í öllum litum. Ég raða þeim eftir lit í fataskápnum mínum þannig að þegar ég opna skápinn blasir allur litaskalinn við.“

Áttu góðan garð?

„Ég á yndislegar svalir, þar sem ég hengi potta á handriðin þannig að blómin snúa inn á svalirnar og pottana fylli ég af fallegum hengiblómum sem hanga eins og blómahaf niður á svalagólfið. Þar er líka ofurlítið gróðurhús með kryddjurtum og græðlingum en græðlingana mun ég fara með vestur í Dali þar sem við erum einnig með yndislegan garð. Sá garður er náttúran sjálf í sinni fegurstu mynd. Þar eru móar og lyng, lækir og brekkur, fjara þar sem hægt er að ganga nokkra kílómetra út á leirur þegar fjarar. Þar tínum við hjartaskeljar, sandskeljar og bláskeljar og gerum „risotto di mare“. Svo er þar skógur þar sem við tínum villta sveppi, rauðhettusveppi, kóngasveppi, kantarellur, lerkisveppi, furusveppi og kúalubba, sem við notum í alla matargerð. Þar tínum við líka krækiber, bláber, aðalbláber, villt jarðarber, hrútaber og einiber til matar og veiðum silung, bleikju og lax, auk þess sem maðurinn minn veiðir fugl til matar. Þar er nægtabrunnur náttúrunnar og nærumhverfisneyslan í algleymi eins og best gerist í nánast fullkominni sjálfbærni.“

Ertu hrifin af blómum?

„Ég elska blóm, allan ársins hring. Mínar uppáhaldstegundir á þeim árstíma sem er að ganga í garð eru hortensíur, bergfléttur sem skríða fallega niður í grænan foss yfir sumarið og roðna svo fallega að hausti, snædrífur, tóbakshorn sem geta orðið dásamlega þétt og falleg blómabreiða, skógarmalva sem blómstrar eins og hún búi á Havaí og vex upp í hálfgert tré á stuttum tíma, og margar fleiri tegundir.“

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Ætli það sé ekki minnisbók og skrautskriftarpenni. Ég hripa reglulega niður hugleiðingar mínar, mínar uppáhaldsuppskriftir, ráð og aðferðir sem gagnast hafa mér vel í lífinu, t.a.m. sem fimm barna móður, ljóðabrot sem mér koma til hugar, stundum geri ég myndskissur og fleira. Ég skrifa þetta með skrautskriftarpenna því það verður svo fallegt og mér þykir gaman að gera lykkjur og slaufur á stafina svo að allt verði myndrænna og stundum verður eins og abstraktteikning úr. Kannski geri ég einhvern tíma bók úr þessu.“

Hver er mest notaða snyrtivaran í snyrtitöskunni?

„Varaliturinn minn. Ég á bara einn, því fullkomnari getur hann ekki orðið. Hann er frá Clinique, bjartur og rauður eins og valmúi í sumarsól og heitir Poppy pop.“

Hver er uppáhaldsverslunin þín?

„Á Íslandi get ég gleymt mér inni í fallegum búðum sem lögð hefur verið alúð við. Þessa stundina er nýja keramikbúðin hennar Ingu Elínar, leirkerasmiðs og vinkonu minnar, við Skólavörðustíg í uppáhaldi. Hún er svo dásamlegur fagurkeri.“

Hvar er best að versla?

„Ef um er að ræða mat er best að kaupa íslenskt, hvaðan sem það kemur. Grænmetið, kjötmetið, fiskurinn, mjölið, eggin, allar afurðirnar – það jafnast ekkert í ferskleika og bragðeiginleikum á við íslenskan mat.“

Hver er uppáhaldsmorgunmaturinn?

„Hafragrautur með lifrarpylsu og hunangsdreitli, og cappuccino og einn 70% súkkulaðimoli.“

Instagram er í miklu uppáhaldi hjá Rakel.
Instagram er í miklu uppáhaldi hjá Rakel. AFP

Áttu uppáhaldssmáforrit?

„Mér finnst alltaf gaman að skoða hönnuði, tískumerki, fallegar verslanir og myndir frá vinum mínum, ættingjum og fjölskyldu á Instagram.“

Hvað ætlarðu að gera í sumar?

„Njóta þess að spranga um fallegu Reykjavík með fjölskyldunni, fara með nestiskörfu og teppi og jafnvel flugdreka á Klambratún og í Hljómskálagarðinn og sleppa fram af mér beislinu, taka nokkur handahlaup og kraftstökk og finna grasið undir tánum, fara í fjöruferðir og vaða í sjónum og tína skeljar, synda í sundlaugunum okkar og standa á höndum í kafi þegar enginn sér til, njóta náttúrunnar í Dölunum og á Núpi í Dýrafirði þar sem fjölskyldan á einnig rætur og hús – og finna fram í fingurgóma hvað lífið er fallegt og tilveran dásamleg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »