„Á meðan leikskólarnir eru opnir þá heldur maður geðheilsunni“

Fannar Sveinsson leikstjóri að störfum.
Fannar Sveinsson leikstjóri að störfum. Ljósmynd/Venjulegt fólk

Þriðja sería af þáttunum Venjulegt fólk kom inn á Sjónvarp Símans í gær, miðvikudag. Fannar Sveinsson, einn handritshöfunda og leikstjóri þáttanna segir að framleiðsla þáttanna hafi gengið vel og að heimsfaraldurinn hafi ekki sett stórt strik í reikninginn. 

Þættirnir voru teknir upp í júlí síðastliðinn og náðu þau rétt svo að klára tökur áður en hert samkomubann tók gildi. Ásamt Fannari skrifuðu þau Vala Kristín Eiríksdóttir, Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Halldór Laxness Halldórsson handritið að þáttunum líkt og í fyrstu tveimur seríunum. 

Með aðalhlutverk í þáttunum fara þær Vala og Júlíana ásamt Hilmar Guðjónssyni, Arnmundi Ernst Backman, Sigurði Þór Óskarssyni og Hildi Völu Björnsdóttur. 

Tökum lauk í júlí áður en samkomubann var aftur hert.
Tökum lauk í júlí áður en samkomubann var aftur hert. Ljósmynd/Venjulegt fólk

Kvikmynda- og þáttagerð hefur blómstrað hér á Íslandi í sumar og nokkrar stórar kvikmyndir verið teknar upp hér í sumar, bæði erlendar og innlendar. Þáttagerðin blómstraði sömuleiðis. 

„Það fóru rosa mörg verkefni af stað í sumar. Einhvernvegin hitti það þannig á að það fóru fjórar eða fimm stórar seríur af stað í sumar og kannski var það sem var erfiðast að skipuleggja. Ég veit ekki hvort það var Covid að þakka eða ekki,“ segir Fannar. 

„Ég er bara búinn að hafa það ágætt. Ég er með tvö lítil börn og það er bara búið að ganga vel. Á meðan leikskólarnir eru opnir þá heldur maður geðheilsunni,“ segir Fannar þegar hann er spurður hvernig hann hafi haft það á meðan heimsfaraldurinn geisar.

„Ég reyndar hélt að maður yrði eitthvað meira kreatífur í þessu ástandi. Maður gæti bara lokað sig inni og skrifað á fullu en mér finnst það bara oft hafa öfug áhrif. Í þessu ástandi er maður einhvernvegin bara minna frjór,“ segir Fannar og bætir við að hann hafi verið með hnút í maganum yfir að hafa ekki nýtt tímann til að skrifa meira nýtt.

Hann er þó á fullu í öðrum verkefnum sem snúa að handritsgerð um þessar mundir. Fannar hefur einnig stýrt þáttunum Framkoma á Stöð 2 þar sem hann fylgist baksviðs með listamönnum koma fram. Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á framleiðslu þáttanna enda sárafáir listamenn að koma fram um þessar mundir. Þá þurfti að auki að fresta tökum sem fara áttu fram erlendis.

Þriðja sería af Venjulegt fólk er aðgengileg á Sjónvarpi Símans Premium. Þættirnir eru framleiddir af Glassriver.

Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir eru handritshöfundar og …
Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir eru handritshöfundar og fara með aðalhlutverk. Ljósmynd/Venjulegt fólk
mbl.is