„Ég held að ég sé dauður fyrir lífstíð“

Sigmundur Ernir Rúnarsson er gestur Sölva Tryggvasonar þessa vikuna.
Sigmundur Ernir Rúnarsson er gestur Sölva Tryggvasonar þessa vikuna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sigmundur Ernir Rúnarsson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Sigmundur, sem er einn reyndasti sjónvarpsmaður Íslandssögunnar, segir í þættinum meðal annars sögur af samstarfi sínu með Ómari Ragnarssyni og alræmdum flugferðum hans.

„Við fórum einu sinni upp á Skaga í vinnuferð og við flugum frá Reykjavík vegna þess að það var svo mikið rigningarveður og ég spurði hann hvort það væri í alvöru flugbraut á Akranesi og hann sagðist nú heldur betur viss um það. En þegar við vorum komnir fyrir Hvalfjarðarmynnið var gamla flugbrautin orðin of blaut og ég var því fenginn til að henda út misjafnlega þungum steinum til að sjá hvað þeir sykkju djúpt hjá Innnesi, en þar kvaðst hann hafa heimild til að lenda á túninu, og þegar við lentum gjörsamlega plægðum við upp akurinn.“

Sigmundur segist geta sagt endalausar sögur af Ómari, en rifjar upp flugferðina sem var sú allra eftirminnilegasta.

„Eftirminnilegasta ferðin var ferð með stjörnuliði Ómars til Vestmannaeyja til að vígja það sem núna er Shellmótið í Eyjum. Það var alltaf farið á tveimur flugvélum og allir reyndu að komast í stærri vélina svo þeir þyrftu ekki að fljúga með Ómari, en ég var of seinn eins og stundum ásamt Bubba Morthens og Rúnari heitnum Júlíussyni. Við förum fjórir saman í vélinni og ferðin byrjar á því að Bubbi segir áður en við leggjum af stað:

„Strákar, vá ef vélin krassar, þvílík fyrirsögn á Mogganum!“

Þannig byrjar þessi ferð og næst tók við uppstreymi hjá Henglinum þar sem Ómar byrjar að blaka vængjunum, þannig að vélin nánast stoppaði í loftinu, allt svo að við gætum séð einhvern bæ sem hann hafði skrifað um. Svo héldum við áfram yfir Hellisheiðina og tökum þar svakalega dýfu eins og herflugvél niður í Kaldaðarnes vegna þess að Ómar ætlaði að sýna okkur hvernig herflugvélar Breta hefðu hagað sér til þess að lenda á Kaldaðarnesi í stríðinu með því að nota niðurstreymið af kambinum. Þarna voru þrír næpuhvítir menn um borð og svo rauðflekkóttur Ómar Ragnarsson við stýrið. Svo komum við út að ströndinni þar sem Víkartindur var strandaður og þegar Ómar er að taka einhverja slaufu þar í kring, þá sér hann seli í sjónum og skutlar sér út úr slaufunni, þannig að við hendumst allir út í kant á flugvélinni og það var þá sem Bubbi segir þessa frægu setningu yfir hafinu:

„Ómar, láttu mig út hérna!“

Svo fljúgum við til Vestmannaeyja og rétt áður en við komum þangað stoppar hann aftur vélina þar og vingsar til hægri og vinstri á víxl til að sýna okkur hvar hvalurinn Keikó eigi að vera í víkinni fyrir neðan. Svo förum við aftur af stað í átt að Sæfelli og Rúnar spyr hvort við eigum ekki að lenda annars staðar, en Ómar var ekkert á því og segist ætla að sýna okkur hvernig eigi að lenda flugvél eins og þyrlu og finnur eitthvert uppstreymi, þar sem vélin hnígur niður eins og þyrla og þegar vélin lendir hrekkur upp úr Rúnari:

„Vá maður, ég held að ég sé dauður fyrir lífstíð!“

Þetta var hefðbundið flug með Ómari Ragnarssyni, sem er auðvitað snillingur á öllum sviðum.“

Sigmundur Ernir, sem hefur verið nær sleitulaust á skjá landsmanna síðan á upphafsárum Stöðvar 2, segir í þættinum frá eftirminnilegustu viðmælendunum, ferðum í aðrar heimsálfur og mörgu mörgu fleiru.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál