Þetta gjörbreytti jólaundirbúningi Laufeyjar

Laufey Sif með fallegar jólarósir í gróðurhúsi í Hveragerði.
Laufey Sif með fallegar jólarósir í gróðurhúsi í Hveragerði. mbl.is/Árni Sæberg

Laufey Sif Lárusdóttir, athafnakona, framkvæmdastjóri og einn eigenda Ölverks pítsu- & brugghúss er fædd og uppalin í Hveragerði og býr í bænum ásamt unnusta sínum Elvari Þrastarsyni sem flutti þangað frá Seltjarnarnesi. 

Þau eiga tvo syni, Harald Fróða og Steingrím Darra, og glænýjan fjölskyldumeðlim sem kom með kórónubylgjunni eins og hún segir sjálf, hundinn Loka Laufeyjarson. 

„Hann er æðislegur og ég kalla hann litla gula ljónið mitt.“

Hvernig verða jólin?

„Með árunum hef ég tileinkað mér það að hafa jólin og þau verkefni sem þeim fylgja bak við eyrað allt árið um kring. Svo ef ég er sem dæmi stödd á skemmtilegum götumarkaði erlendis í febrúar þá á þeirri stundu renni ég yfir jólagjafalistann í huganum og hugsa um hvað gæti glatt hvern og einn og því geta jólagjafirnar stundum verið frekar skemmtilegar og framandi. Ég er líka ein af þeim sem senda jólakort til vina og vandamanna og hef gert það síðan ég var lítil. Ég ákveð þemað og fer yfir ljósmyndir sem hafa verið teknar þetta árið.  

Við byrjum líklegast að skreyta í byrjun desember en jólaseríurnar fara upp einhvern góðan sunnudag í nóvember svona til þess að lýsa upp skammdegið. Við munum samt ekki ná að setja tærnar þar sem sumir jólasérfræðingar bæjarins hafa hælana og dettur mér þá einna helst í hug jólahúsið í Réttarheiðinni hérna í Hveragerði. Þar er jólametnaður í gangi sem mér finnst að allir ættu að taka sér til fyrirmyndar!“

Hvað er svona heillandi við jólin að þínu mati?

„Allar hefðirnar heilla; það að skera út laufabrauð með fjölskyldunni og hlæja saman að því hversu hræðilega óhæfileikarík ég er með laufabrauðsjárnið. Fara með stórfjölskyldunni í jólapakkaleik og vera í marga daga að sleikja sárin eftir hræðilegt pakka-stuldar-einelti. Keyra út jólakort, skoða jólin hjá öðrum og smakka á hinum ýmsu smákökum. Fá góða bók í jólagjöf og hámlesa hana langt fram á jólanótt.“

Hún segir góð samskipti skipta miklu máli fyrir gott fjölskyldulíf á aðventunni. 

„Á aðventunni er áhugavert að tala saman um það sem er fram undan, skipta með sér verkefnum svo að í byrjun desember sé sem mest búið og hægt að njóta aðventunnar í faðmi fjölskyldunnar og vina í sem minnstu stressi.“

Hvað gerir þú alltaf á jólunum?

„Ég fór um árið á jólakransanámskeið í Blómaborg hérna í Hveragerði og hef síðan þá alltaf reynt að gera annaðhvort hurðarkrans eða aðventukrans. Svo förum við alltaf og veljum og höggvum okkar eigið jólatré en allar helgar í desember og fram að jólum er Skógræktarfélag Árnesinga með jólatrjásölu og yndislegan lítinn jólamarkað á Snæfoksstöðum í Grímsnesi. Það gerist fátt jólalegra en að þramma þar um skóginn í brakandi snjónum í leit að hinu fullkomna jólatré sem á hverju ári reynist svo alltof stórt þegar heim er komið. Hingað til hefur það verið algerlega ómissandi partur af aðventunni að sækja hina og þessa jólabasara og mæta í hin fjölmörgu aðventuboð fjölskyldna okkar Elvars og krossa ég fingur og bið til guðs að það verði einnig mögulegt í ár. Ef ekki, þá verða þetta bara frekar rafræn jólaboð og minni tíma eytt í bílnum í að keyra á milli staða og yfir Hellisheiðina.“

Hvað hefurðu aldrei gert á aðventunni?

„Ég hef aldrei gert konfekt en mér finnst það afar heillandi jólahefð og gæti alveg hugsað mér að prófa það fyrir ein jólin eða kannski bara láta verða af því þetta árið þar sem takturinn er heldur rólegri en hann hefur verið áður.“

Áttu þér uppáhaldsjólabjór?

„Það er hún Grýla sem hét áður Furuhlynur; möltuð með ávöxtum og furu. Fyrsti handverksbjórinn af mörgum sem fáanlegur er í helstu vínbúðum landsins sem og auðvitað á Ölverki.“

Áttu þér uppáhaldsjólalag?

„Já, það er Jólakveðja með Prins Póló og Nú líða fer að jólum, með Ragnari Bjarnasyni.“

Hvað með jólamat?

„Þegar klukkur Dómkirkjunnar hringja inn jólin í útvarpinu eða á slaginu sex hefst kvöldverðurinn sem er alltaf þriggja rétta sem reyndar getur reynt frekar mikið á þolinmæði drengjanna en þeim er alltaf leyft að opna einn jólapakka fyrir kvöldmat til þess að létta aðeins á pakkaspennunni. Svo er það þannig að þar sem Elvar er yfirmatreiðslumeistari heimilisins þá er jólamaturinn og allt er honum viðkemur svolítið mikið á hans herðum og aldrei það sama á matseðlinum milli ára. Við hin í fjölskyldunni hendum nú samt stundum hinum og þessum hugmyndum í hattinn til þess að vera með. Möndlugrautinn höfum við haft í hádeginu og má þá sjá stórkostlega leikræna tilburði í hinum árlega leikþætti; hver er með möndluna?“

Hvað er besta ráðið fyrir jólin?

„Bara að vera með lista yfir það sem þarf að gera. Um hvað þarf að kaupa af jólagjöfum fyrir hvern, hvert þarf að senda hvaða jólakort, hvað þarf að þrífa, baka og svo framvegis. Það allra sniðugasta er svo að muna eftir þessum blessuðu listum og ekki týna þeim milli ára eins og ég hef svo oft lent í. Núna eru þessir listar mínir sem betur fer komnir á tölvutækt form og í heimilisskýið okkar, það ætti að breyta öllu!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál