Baðaði sig í Vesturbæjarlauginni fyrir jólin

Eva Lind Weywadt Oliversdóttir var vön jólabaði sem barn. Þegar þau fluttu og ekkert bað var á heimilinu fór mamma hennar með börnin sín í Vesturbæjarlaugina. Hún setti baðbombu í heita pottinn og gerði froðubað fyrir þau þar. 

Eva Lind byrjaði að hita upp fyrir jólin um leið og dag tók að stytta í sumar. Hún leggur áherslu á góða jólastemningu með fjölskyldu sinni og heldur fast í hefðir eins og að klæðast náttfötum, fá í skóinn og fara í froðubað.

Í október var Eva Lind búin að horfa á allar jólamyndirnar á Netflix, búin að kaupa jólagjafir, Harry Potter-maraþon var á dagskrá og hún var byrjuð að njóta undir teppi með arineld á í sjónvarpinu. Eva Lind kláraði jólagjafainnkaupin sérstaklega snemma í ár vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ég pantaði þær allar á netinu en vanalega geri ég það ekki. Mér finnst mjög gaman að eiga eina eða tvær jólagjafir eftir á Þorláksmessu og fara niður í bæ og vera með einhvern tilgang þar. Ég fer alltaf niður í bæ á Þorláksmessu,“ segir Eva Lind.

Evu Lind finnst betra að gefa en að þiggja. Eva á mörg systkini úti um allan heim og úti á landi. Systkini hennar eru á öllum aldri og hún hefur fengið skammir frá þeim sem eiga börn fyrir að vera of gjafmild. Í fyrra eignaðist einn bróðir hennar barn og þá var hún sérstaklega beðin um að gefa bara barninu. Eva Lind segir misjafnt hversu dýrar og stórar gjafi hún gefur enda snúast jólin alls ekki um gjafirnar. Það er samveran með fjölskyldunni sem er ómissandi í huga Evu Lindar.

„Mig vantar aldrei neitt, jólin snúast um að njóta,“ segir Eva Lind sem ljóstrar þó upp að fyrir nokkrum árum hafi hún fengið eftirminnilega gjöf frá manninum sínum. Jólagjöfin snerist einmitt um að njóta en á aðfangadagskvöld kom í ljós að hann gaf henni, mömmu hennar og nokkrum systrum þyrluferð.

„Ein jólin var ég alveg uppiskroppa með hugmyndir þannig að maðurinn minn ákvað að hjálpa mér að kaupa jólagjafir fyrir systkini mín. Ég átti að fá hana líka og ég fékk því ekki að vita hvað ég væri að gefa systkinum mínum í jólagjöf. Hann kom okkur algjörlega á óvart og þyrluferðin var æði. Það voru ég og systur mínar og mamma sem fengum þessa gjöf.“

Er maðurinn þinn jafnmikið jólabarn og þú?

„Hann var það ekki og ég held að hann sé alveg feginn að ég sé ekki að missa mig í einhverju föndri eða skrauti. Hann er sammála mér. Honum finnst ofboðslega fallegar svona glærar seríur og finnst þær birta til og svona. Ég eiginlega neyddi hann til að gefa mér í skóinn. Ég mútaði honum auðvitað með að hann fengi líka í skóinn. Við höfum einstaka sinnum tekið alla þrettán jólasveinana og stundum tökum við bara Kertasníki. Við höldum yfirleitt jólin heima hjá mömmu minni þannig að ef okkur langar að gefa persónulegar gjafir þá gerum við það í skóinn. Þá þurfum við ekki að drösla þeim til mömmu og vera vandræðaleg þegar við opnum þær.“

Hlutir verða að hafa tilgang

Þrátt fyrir að vera svona mikið jólabarn segist Eva Lind ekki skreyta mikið fyrir jólin.

„Ég þoli ekki skraut, ef dótið mitt hefur ekki tilgang finnst mér það bara safna ryki. Ég skreyti með seríum af því mér finnst þær hafa mikinn tilgang, þær gefa frá sér birtu. Ég set glærar seríur í alla glugga. Ég kaupi líka mikið af kertum með jólailmi og er með arineld í sjónvarpinu, segir Eva sem á nokkrar kúlur og gervijólatré, annað á hún ekki. Best finnst henni auðvitað að fá alvörujólatré frá pabba sínum sem er með skógrækt í Borgarfirðinum. Eini ókosturinn við það er reyndar sá að tréð getur ekki verið uppi jafn lengi og gervitréð.

Um leið og það fer að dimma fara seríurnar upp og þær fá að vera í sambandi frá október fram í febrúar. Eva lítur ekki síður á seríurnar sem skammdegisljós en jólaljós.

„Það er svo gaman að vera í jólastuði. Kannski myndi maður kalla þetta hauststuð eða hrekkjavökustemningu ef það væri haldið upp á slíkt hér. Að koma sér í gírinn, fara í náttföt, undir teppi, þetta er svo notalegt.“

Eva Lind hlustar líka mikið á tónlist til þess að koma sér í jólastuð og þegar hún vill hafa það notalegt fyrir jólin.

„Ég á tvo plötuspilara og slatta af jólahljómplötum en Frank Sinatra og jólatónlist frá um 1949 er í miklu uppáhaldi. Tónlist gerir stemninguna alveg ómótstæðilega kósí.“

Systkini Evu Lindar eru líka mikil jólabörn og segir Eva Lind sögu af systur sinni sem hún segir vera enn meira jólabarn en hún sjálf. Systir hennar fór sem au pair til Sevilla á Spáni eitt árið. Þegar hún ætlaði að skreyta fyrir jólin leist fjölskyldunni ekki á það. Benti fjölskyldan henni á að seríur væru bara settar í hóruhús. Eina skrautið sem var til voru svo svínasystur og eitt Betlehem-þorp en Jesúbarnið fékk ekki að fara upp fyrr en 21. desember.

Hefðir með fjölskyldunni

Jólunum fylgja margar hefðir sem fjölskyldan heldur fast í. Nokkur kríli eru komin í hópinn sem Eva Lind segir bara skemmtilegra. Heima hjá mömmu hennar fá til dæmis allir í skóinn á aðfangadagsmorgun.

„Í skóinn fáum við yfirleitt einhverja DVD-mynd svo við getum horft á með krílunum á meðan mamma neitar að hleypa okkur inn í eldhús,“ segir Eva Lind.

Ein þeirra sterku hefða í fjölskyldu Evu Lindar er að vera í náttfötunum í jólafríinu.

„Við systkinin fórum í náttfötin og neituðum að fara úr þeim allt jólafríið alveg í heila viku. Með árunum endaði maður á því að þurfa að vinna á milli jóla og nýárs. Ég hugsaði bara: „Nei, ég ætla að vera í náttfötum.“ Þannig að ég fór yfirleitt í vinnufötin yfir náttfötin bara til þess að halda í þessa hefð.

Amma mannsins míns á afmæli á aðfangadag þannig að hún hélt alltaf boð á aðfangadag svo fjölskyldan gæti hist og deilt út pökkum. Ég mætti alltaf bara á náttfötunum. Fyrst fannst þeim ég alveg stórundarleg en svo byrjaði þeim að finnast ég ótrúlega flott á því og þau byrjuðu að mæta líka í náttfötum.“

Á æskuheimili Evu Lindar var hefð fyrir því að jólabaðið væri froðubað. Þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur var ekki bað á heimilinu og fljótlega varð sturtubotninn of lítill fyrir froðubað.

„Þegar við vorum orðin of stór og feit þá fór mamma með okkur í Vesturbæjarlaugina. Hún setti bara baðbombu í nuddpottinn og gerði fyrir okkur froðubað. Gamla fólkinu í lauginni fannst þetta bara skemmtilegt.“

Eva segir mismarga vera hjá mömmu sinni á aðfangadag, sérstaklega eftir að það komu börn í fjölskylduna. Hún reynir þó alltaf að vera hjá mömmu sinni með sem flestum enda samveran sem gerir jólin góð.

„Ef það er lítið að gerast hjá mömmu þá hef ég alveg boðið vinum. Eitt skipti bauð ég útlenskum vinum sem komu hingað yfir jólin og í annað skipti vini okkar sem er utan af landi. Hann var að vinna svo mikið að hann komst ekki til fjölskyldu sinnar yfir jólin. Þá bara tókum við hann með í jólastemninguna til mömmu. Mömmu fannst það bara æðislegt að fá gesti yfir jólin.“

Eva Lind hefur eitt sinn verið í útlöndum yfir jólin og stefnir ekki á að gera það aftur nema fjölskylda hennar sé með í för. Eva Lind var stödd í Afríku með íslenskri vinkonu sinni og segir þær tvær hafa verið þær einu í 20 manna hópi sem héldu upp á jólin þann 24. desember.

„Við fórum út um kvöldið og stálum lítilli hríslu. Kveiktum eld og bjuggum til músastiga úr pappír og skreyttum hrísluna. Við vorum búnar að kaupa gjafir fyrir hvor aðra. Svo ætluðum við að syngja jólalög á íslensku en það var ekki eitt einasta jólalag sem ég kunni frá a til ö. Það voru þrjú lög sem ég gat sungið við jólaeldinn minn. Vögguvísan úr Dýrunum í Hálsaskógi var eina lagið sem ég gat sungið á íslensku frá upphafi til enda. Hinum fannst þetta alveg svakalega krúttlegt. Þetta var mjög skrítin jólahátíð.“

Áður en kórónuveiran kollvarpaði daglegu lífi fólks kom mamma Evu Lindar með þá hugmynd að verja jólunum á Tenerife enda sum barna og barnabarna sem búa í útlöndum. Evu Lind fannst það ekki alveg galin hugmynd.

„Ég sjálf myndi ekki skreppa til útlanda til að sleppa við jólin. En það skiptir ekki máli hvar ég er svo lengi sem ég er með þeim,“ segir Eva Lind að lokum um það sem skiptir máli um jólin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál