Andlitið er feik en persónuleikinn ekki

Viktor Andersen er hjúkrunarfræðinemi.
Viktor Andersen er hjúkrunarfræðinemi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Heiðdal Andersen segist vera íhaldsöm steingeit en þrátt fyrir það er hann duglegur að brjóta niður múra og hefðbundnar staðalímyndir. Viktor stundar nám í hjúkrunarfræði, elskar fegrunaraðgerðir, málar sig og kemur til dyranna eins og hann er klæddur á samfélagsmiðlum. 

„Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég sé eitthvað endilega vinsæll á samfélagsmiðlum, kannski er ég með marga draugafylgjendur þar sem Instagramið mitt er opið,“ segir Viktor um hvernig hann varð vinsæll á samfélagsmiðlum. „Annars bara fyrir það að vera ég sjálfur. Ég er allt öðruvísi en flestir og fer mínar eigin leiðir og kannski finnst fólki það áhugavert við mig en ég held líka að margir elski að hata mig, alla vega miðað við sum skilaboðin og kommentin sem ég fæ. En það er bara allt í lagi, ég er þá að gera eitthvað rétt.“

Óhræddur við að sýna hver hann er

Viktor er 31 árs og því hluti af Myspace-kynslóðinni. Hann varð fljótlega vinsæll þar en hann segir að aðgangur hans hafi gengið á milli manna. Ástæðuna segir hann vera umdeildar skoðanir og hvernig hann lýsti sjálfum sér. Hann segir að með tilkomu Myspace fékk hann vettvang til að sýna hver hann var. 

„Það sem spilaði mest inn í þá var örugglega hvað ég opinberaði samkynhneigð mína mikið sem fólk var ekki vant á þeim tíma þótt það sé stutt síðan. Ég var og er alltaf mjög „in your face“ og svo er ég líka kvenlegur sem var oft litið á sem galla. Ég held að það hafi farið í taugarnar á fólki hvað mér var drullusama um skoðanir fólks og gerði bara það sem ég vildi.“

Viktor sýnir hver hann er á Instagram.
Viktor sýnir hver hann er á Instagram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú er Instagram aðalmiðill Viktors en þar hefur hann verið óhræddur að sýna hver persónuleiki hans er og finnst gaman að sýna það. „Annaðhvort elskarðu það eða hatarðu það, mér er drull,“ segir hann um Instagram-síðu sína. 

Viktor er er ekkert að skafa utan af hlutunum á samfélagsmiðlum. Hann er meðal annars opinn með þær fegrunaraðgerðir sem hann hefur farið í. Honum finnst best þegar hann kemur hreint fram. 

„Ég elska að ögra fólki. Ég hef alltaf verið þannig, alveg síðan ég var barn. Ég er með stóran kjaft sem hefur oft komið mér í vandræði. Ég er alls ekki allra og ég elska það. Eins og með mitt útlit og að ég fer í fegrunaraðgerðir. Hvað þetta er að hafa ógeðslega mikil áhrif á sumt fólk finnst mér bara sprenghlægilegt og ég fæ alveg „kick“ út úr því að fá viðbrögð frá fólki.

Hvað varðar að koma hreint fram, þá er ég versti lygari í heimi, það sést alltaf langar leiðir ef ég lýg og er ekki með neitt pókerfeis. Hreinskilni er alltaf vel metin og ég á mjög erfitt með að þola lygar og falskt fólk. Þótt ég sé feik í framan, þá er persónuleikinn minn það svo sannarlega ekki.

Ég hef svo sem ekkert svar við af hverju mér finnst það mikilvægt. Mér líður alla vega best að segja hlutina eins og þeir eru. Það gerir bara allt auðveldara. Ég þarf samt oft að bíta í tunguna á mér því stundum er betra að láta hlutina kyrra liggja. Ég kann líka að velja mínar orrustur. Ég hef alltaf verið opinn með hver ég er því það er bara svo skemmtilegt og ég hef húmor fyrir sjálfum mér því ég veit að ég er mjög spes.“

Taka allir þér með jákvæðni eða finnur þú fyrir einhverjum neikvæðum straumum á samfélagsmiðlum?

„Ég held að meirihlutinn sé jákvæður gagnvart mér en maður finnur fyrir þessum neikvæðu straumum líka. Eins og þegar fólk er að áframsenda myndirnar mínar á Instagram. Ég held að fólk sé oft ekki að gera það út frá jákvæðum forsendum en mér fannst bara gaman að fylgjast með því þegar það var hægt, áður en nýju persónuverndarlögin tóku í gildi í Evrópu. Ég fæ mörg jákvæð skilaboð og komment en líka neikvæð og það er alltaf tengt útlitinu mínu og það að ég stundi fegrunaraðgerðir.“

Búinn að vera á lausu í tæp tíu ár

Ertu í sambandi? 

„Nei ég er ekki í sambandi, en það er einn líklegur kandídat en hann býr ekki á Íslandi svo það er enn þá svolítið í land hvað það varðar og ekki öll kurl komin til grafar. Annars er ég búinn að vera á lausu í næstum því tíu ár og finnst það geggjað. Það þarf mikið til að ég fari í samband því ég hef háa standarda og ég er ekki að fara að sætta mig við eitthvað af því bara, frekar vil ég vera einn.

Það sem mér finnst mikilvægt varðandi maka er að koma hreint fram og aldrei ljúga að mér sama hvað það er. Annars get ég fyrirgefið margt annað ef þú getur „ownað“ mistök þín sem ég sjálfur reyni eftir bestu getu að gera og bæta upp fyrir misgjörðir mínar sem ég hef gert áður fyrr. Einnig finnst mér mikilvægt að einstaklingar hafi metnað fyrir sjálfum sér, mér finnst það mjög mikið „turn on“.“

Viktor hefur alltaf verið opinn og með stóran kjaft.
Viktor hefur alltaf verið opinn og með stóran kjaft. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjúkrunarfræðin kallaði á Viktor

„Ég hef unnið við umönnunarstörf á elliheimili síðan ég var 17 ára, með pásum inn á milli. Ég hef alltaf elskað það og ég elska gamalt fólk. Þetta er eiginlega eina vinnan sem ég hef haldist í, ég fæ leið á öllu öðru eftir stuttan tíma, þar kviknaði áhuginn fyrir hjúkrunarfræði. En ég hef prófað mig mikið áfram í námi. Ég fór fyrst í lögfræði því mér finnst svo gaman að rífast við fólk, það var alltaf stefnan frá því ég var krakki. Ég entist í þrjár vikur þar því þetta var leiðinlegra en helvíti. Þetta var árið 2009. Svo árið 2010 fór ég í hjúkrunarfræði en hætti aftur á fyrstu önninni en að þessu sinni af persónulegum ástæðum.

Ég tók mér smá pásu frá skóla og fór svo á Bifröst árið 2015 og kláraði BA-gráðu í miðlun og almannatengslum. Eftir að hafa unnið við það í svolítinn tíma fór ég að sjá meira og meira hvað ég vildi fara aftur í hjúkrunarfræði og það var orðið kristaltært fyrir mér að þetta er það eina sem ég hef áhuga á þótt það tæki mig smá tíma að sjá það. Það kemur fólki sem þekkir mig lítið sem ekkert alltaf á óvart að ég sé í hjúkrunarfræði og að ég hafi unnið í umönnunarstörfum því þau halda að ég sé allt önnur „týpa“. En ég elska að koma fólki á óvart. Að starfa líka sem heilbrigðisstarfsmaður er rosalega gefandi. Núna er ég að vinna á Landspítalanum og það er ótrúlega skemmtilegt. Þetta starf er líka svo ótrúlega fjölbreytt að allir sem hafa áhuga á að fara í hjúkrunarfræði gætu fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Hvernig er að vera strákur í hjúkrunarfræði?

„Síðast þegar ég vissi vorum við fimm strákar á mínu ári á móti um það bil 125 stelpum. Svo við erum enn þá í miklum minnihluta ótrúlegt en satt því að þetta er ekkert frekar kvennastarf heldur en önnur störf. Það væri skemmtilegra að sjá fleiri stráka fara í hjúkrunarfræði en ég held að staðalímyndir samfélagsins haldi svo fast í þetta norm sem er algjörlega barn síns tíma.“

„Lífið er geggjað“

Viktor segir að það sé honum eðlislægt að brjóta niður gamaldags staðalímyndir. Hann segist vera mjög þrjóskur og neitar vera einhver sem syndir bara með straumnum. „Ég elska að tjá mig útlitslega séð á fjölbreytilegan hátt, ég er til dæmis mjög „flúid“ í fatavali. Stundum vil ég vera kafmálaður og stundum vera náttúrulegri, ótrúlegt en satt. Stundum vil ég vera strákalegri og stundum kvenlegri. En stundum geri ég eitthvað bara til þess að sjá hver viðbrögð fólks verða.“

Viktor stefnir á að útskrifast úr hjúkrunarfræðináminu árið 2023. Hann hlakkar til að starfa sem útskrifaður hjúkrunarfræðingur og segir mörg svið innan greinarinnar áhugaverð. „Svo er bara svo margt spennandi að gera, mögulega langar mig að stofna fyrirtæki, kannski flytja eitthvað út, fara í hjálparstarf út í heim og fleira,“ segir Viktor sem setti niður á blað framtíðarsýn sína sem hann notar sem áttavita. „Annars lifi ég mest í núinu því lífið er geggjað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál