Kransakakan var í ár í frysti

Berglind og Lukka eru góðar vinkonur.
Berglind og Lukka eru góðar vinkonur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind Hreiðarsdóttir, matarbloggari og matreiðslubókahöfundur, segir það hafa verið ánægjulegt að aðstoða Lukku Berglindi Brynjarsdóttur vinkonu sína með haustfermingu í fyrra. Vegna kórónuveirunnar þurfti að geyma kransakökuna í frysti lengi, sem skapaði óvissu sem þær vinkonur fundu út að var óþarfa áhyggjur. 

Berglind Hreiðarsdóttir hjá Gotteríi og gersemum hefur sinnt verkefnum fyrirtækisins og haldið úti bloggi frá árinu 2012. Í upphafi einungis í hjáverkum en nú síðustu tvö ár í fullu starfi. Þar sem hún tók stökkið og fylgdi hjarta sínu.

„Ég bakaði fermingartertu og kransaköku fyrir Lukku. Þetta var ein af kórónuveirufermingunum sem áttu að fara fram um vorið, en var frestað og frestað. Fermingin fór svo fram með breyttu sniði á haustmánuðum og heppnaðist svona einstaklega vel.

Lukka er ein skemmtilegasta manneskja sem ég þekki svo ég ætla að aðstoða hana við veisluhöld að eilífu!“

Það má hringja í vin

Berglind segir Lukku einstakan fagurkera og það verði allt að gulli sem hún snertir.

„Lukka gerir oft grín að sér fyrir veislur því henni finnst alls ekki gaman að elda né baka og má ég til með að vitna í orðin sem hún skrifaði í bókina mína Saumaklúbbinn þar sem hún á nokkrar blaðsíður. Þar segir hún: „Ég elska það að hitta góða vini, spjalla og borða góðan mat. Gallinn er hins vegar sá að ég er alls ekki góður kokkur og enn síður bakari. En ég er nokkuð lagin við punt og pjátur og þar reyni ég frekar að láta ljós mitt skína.“

Þetta segir það sem segja þarf og afsannar klárlega þá kenningu að það þurfi að gera alla hluti sjálfur fyrir veislu til að hún verði glæsileg. Það má nefnilega hringja í vin, bakarí, veisluþjónustu eða hvað sem fólki dettur í hug. Ég er síðan svo heppin að fá að lauma mér í stöku veislur hjá vinafólki með myndavélina áður en gestir mæta, með leyfi að sjálfsögðu, til að geta deilt gleðinni með fylgjendum Gotterís.“

Blóm, makkarónur og páskaegg voru notuð í skreytingar á fermingakökuna.
Blóm, makkarónur og páskaegg voru notuð í skreytingar á fermingakökuna. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Berglind segir söguna á bak við kökurnar í veislunni skemmtilega.

„Lukka var mjög snemma í skipulagi á þessari veislu. Litaþema var því klárt með góðum fyrirvara og fermingardrengurinn vildi súkkulaðiköku með Oreo-kremi í veisluna. Ég hafði því litina í huga og hannaði kökuna í rólegheitum og svo tókst svona ansi vel til.

Kransakakan læddi sér hins vegar óvænt með þar sem ég var beðin að gera kransaköku fyrir fermingarblað Morgunblaðsins í fyrra, sem var nokkrum vikum áður en Gunnar átti upphaflega að fermast og áður en kórónuveiran skall á af fullum þunga. Ég notaði því litaþemað hennar Lukku og skreytti kökuna með það í huga að hún gæti sett hana í frysti og nýtt hana í fermingunni. Ég sendi henni mynd og spurði hvort hún vildi kökuna. Hún dreif sig því inn í skúr og fórnaði slatta af löxum úr kistunni til að koma henni vel fyrir, umvafinni í plast og ofan í plastkassa. Ég passaði mig að festa hana ekki á öllum stöðum svo hægt var að taka hana í sundur í þremur pörtum, raða í kassann svo það fór virkilega vel um hana. Síðan var auðvitað öllum fermingum aflýst og kakan fína beið og beið í kistunni, í marga mánuði! Þegar september rann upp og nýr fermingardagur var ákveðinn hugsaði ég hvort það væri nú ekki betra að gera bara nýja en við ákváðum að taka áhættuna. Í versta falli yrði engin kransakaka; enda veislan mun minni í sniðum en áður hafði verið ákveðið. En viti menn! Kakan var eins og ný og alveg hrikalega góð svo fólk getur sannarlega gert kransaköku og fryst hana í marga mánuði.“

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar kemur að fermingum?

„Skipulag skiptir mestu máli að mínu mati. Að lista allt upp sem þarf að gera og raða því í tímaröð. Að vinna sér í haginn eins og hægt er bæði varðandi veitingar, skraut og allt þar á milli. Ég er mikil tékklistakona og elska að geta merkt við þá þætti sem hafa verið kláraðir. Gott er að úthýsa því sem hægt er því það þarf ekki að gera allt sjálfur og njóta þannig dagsins betur. Í Veislubókinni minni er einmitt að finna ítarlega gátlista um allt sem tengist fermingum sem og fleiri veislum.“

Berglind bakaði tvær fermingarkökur. Önnur var 3x 15 cm að …
Berglind bakaði tvær fermingarkökur. Önnur var 3x 15 cm að stærð og hin var 3x20 cm að stærð. Báðar voru með súkkulaðibotnum. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Fjölskyldan tekur þátt í öllum verkefnum

Hvernig þjónustu býður þú upp á í Gotteríi og gersemum?

„Heimasíðan er matar- og ævintýrasíða og teygir verkefni sín út um allt. Upphaflega byrjaði ég með síðuna til að hafa vettvang fyrir kökuskreytinga-námskeiðin mín, síðan hefur ýmislegt breyst og er síðan nú alhliða uppskriftablogg, veislublogg, ævintýrablogg, netverslun og fleira skemmtilegt. Ég er alltaf að reyna að betrumbæta eitt og annað og er síðan því í sífelldri þróun. Ég hef skrifað tvær uppskriftabækur og tekið þátt í þeirri þriðju með öðrum matarbloggurum og það eru klárlega verkefni sem eru skemmtileg þrátt fyrir að þau séu líka ansi krefjandi. Í fyrra ákvað ég til dæmis að læra grafíska hönnun til þess að geta sjálf séð um hönnun og umbrot á bókinni minni Saumaklúbburinn sem kom út síðastliðið haust. Það má því segja að allt síðasta ár hafi ég lært eitthvað nýtt í hverri viku.“

Berglind segir fjölskyldu sína taka þátt í verkefnum hennar.

„Enda ekki annað hægt þar sem allt sem ég er að gera á sér stað á heimilinu okkar.

Ég er að reyna hvað ég get að smita dætur mínar af þessu öllu saman og sýnist mér vera að takast ágætlega til. Þær eru í það minnsta alltaf tilbúnar að elda, baka, hendast með mér á fjöll og út um allar trissur sem og eiginmaðurinn. Síðan er afar gott að hafa manninn minn í slagtogi með mér þar sem hann er einstaklega rólegur og yfirvegaður og kippir mér niður á jörðina þegar ég er komin á algjöran yfirsnúning.“

Kransakakan var einstaklega ljúffengt þó hún hafi staðið í eitt …
Kransakakan var einstaklega ljúffengt þó hún hafi staðið í eitt ár í frysti. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Gyllt, brúnt og grænt eru fallegir litir á kransakökuna.
Gyllt, brúnt og grænt eru fallegir litir á kransakökuna. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál