Viðbrögð konungsfjölskyldunnar

Guðný Ósk Laxdal skrifaði lokaritgerð um bresku konungsfjölskylduna.
Guðný Ósk Laxdal skrifaði lokaritgerð um bresku konungsfjölskylduna. mb.is/Eggert Jóhannesson

„Filippus prins lést síðastliðin föstudag. Í tilkynningu frá Buckinghamhöll lýsti Elísabet yfir missi sínum og sagði að hann hefði dáið friðsamlega. Við tekur átta daga sorgartími fyrir drottninguna og Bretland allt, engin ný lög geta fengið konunglegt samþykki á þessum tíma og hafa stjórnmálamenn um allt konungsríkið dregið sig í hlé. Konungsfjölskyldan sjálf virðir 30 daga sorgartíma, þar sem þau klæðast einungis svörtum klæðnaði þegar þau koma fram opinberlega og sinna bara allra nauðsynlegustu skyldum. Við munum sjá lítið af þeim næsta mánuðinn,“ segir Guðný Ósk Laxdal sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni í nýjum pistli á Smartlandi: 

Allir samfélagsmiðlar konungsfjölskyldunnar hafa verið teknir í gegn, og er svart þemað. Mynd af Filippusi er opnumyndin, og viðeigandi skjaldarmerki notað í stað mynda af meðlimum konungsfjölskyldunnar sem forsíðumynd. Opnuð hefur verið minningarbók á vef konungsfjölskyldunnar sem allir geta skrifað í. Starfsfólk mun velja kveðjur sem verða sýndar meðlimum fjölskyldunnar. 

Vefsíður góðgerðarsjóða hertogahjónanna af Cambridge og einnig vefur hertogahjónanna af Sussex, Archewell, hafa sett upp minningarkveðju um prinsinn. Á vefsíðu Archewell er bara kveðjan, búið er að fjarlæga allar aðrar upplýsingar tímabundið.

Síðan Filippus lést á föstudaginn virðast börn Elísabetar taka vaktir með móður sinni. Karl sást fara frá Windsor-kastala á föstudaginn, Edward og Sophie voru þar á laugardagsmorgun, Andrew seinnipart laugardags og Anna prinsessa eyddi laugardagskvöldinu í Windsor-kastala ásamt eiginmanni sínum, Timothy Lawrence.

Ekki hefur mikið heyrst frá þeim opinberlega; Karl hélt ræðu þar sem hann minntist föður síns og birti á samfélagsmiðlum á laugardag. Talaði hann þá um föður sinn sem „my dear papa“. Andrew, Edward og Sophie hafa öll talað um að drottningin standi sig vel þegar þau hafa hitt almenning eða fjölmiðla yfir helgina, en nefna að andlát Filippusar skilji eftir mikið tómarúm í lífi hennar. Sophie, eiginkona Edwards, nefndi í samtali að Filippus hefði dáið mjög friðsamlega.

Viðtöl hafa verið sýnd hjá BBC og ITV þar sem börn Filippusar minnast föður síns. Flestir taka eflaust eftir því að í viðtölunum tala þau um föður sinn í þátíð, en viðtölin hafa verið tekin upp fyrirfram, sumir hlutar af viðtölunum virðast vera allt frá 2011. 

Elísabet drottning er stóísk, og eins og Filippus leggur hún mikla áherslu á skyldu framar einstaklingshagsmunum. Um leið og átta daga sorgartími hennar er liðinn á fólk von á að hún taki aftur upp sín venjulegu störf og sinni hlutverki sínu sem drottning. Við munum þó lítið sjá hana opinberlega á næstu mánuðum, og ekki í sínum venjulega litríka klæðnaði. Jafnvel gætum við séð hana klæðast svörtu í lengri tíma en ætlast er til, ekki ólíkt því sem Viktoría drottning gerði eftir að hún missti eiginmann sinn, en hún klæddist einungis svörtu í þau 40 ár sem hún var ekkja.

 

 

mbl.is