Felldi tár þegar andlátið var tilkynnt

Guðný Ósk Laxdal felldi tár þegar tilkynnt var um andlát …
Guðný Ósk Laxdal felldi tár þegar tilkynnt var um andlát Elísabetar drottningar. mb.is/Eggert Jóhannesson

Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni, viðurkennir að hún hafi fellt tár þegar tilkynnt var að Elísabet II. Bretadrottning væri látin. Guðný hefur fylgst með bresku konungsfjölskyldunni um árabil og meðal annars skrifað pistla hér á Smartland um fjölskylduna. 

Guðný segir andlátið auðvitað ekki hafa komið á óvart, allir hafi vitað í hvað stefndi, en að það hafi kannski komið á óvart hversu fljótt hún fór. „Hún virtist alveg þannig séð hress á myndunum sem komu á þriðjudaginn. Hún vann sinn fulla vinnudag á þriðjudag, sinnti sínum skyldum og tók nokkra fundi,“ bendir Guðný á en drottningin tók á móti nýskipuðum forsætisráðherra Liz Truss í Balmoral-kastala á þriðjudag.

„Tilkynningin sem kom snemma í gær var svo óvenjuleg af því hún var svo alvarleg. Það er strax búið að segja að þetta sé mjög alvarleg staða, þegar búið sé að láta nánustu fjölskyldu vita af stöðunni,“ segir Guðný og bendir á að viðbrögð fjölskyldunnar hafi undirstrikað það. Kamilla eiginkona Karls hafi til að mynda farið úr miðju sjónvarpsviðtali til Balmoral-kastala. 

Guðný bendir á að drottningin hafi verið nokkuð hress á …
Guðný bendir á að drottningin hafi verið nokkuð hress á myndunum á þriðjudag. AFP

Tilviljun að Harry og Meghan voru í Evrópu

Um miðjan dag í gær var öll fjölskyldan komin norður til Skotlands en Guðný segir allt hafa bent til þess að drottningin hafi fallið frá á milli tvö og þrjú að staðartíma. Vilhjálmur, Andrés, Játvarður og Sophie hafi ekki náð að kveðja hana. Harry var ekki heldur kominn norður.

„Það er náttúrulega tilviljun að Meghan og Harry séu í Bretlandi. Þau voru í Þýskalandi daginn áður,“ segir Guðný. 

Felldir þú tár?

„Já já, þetta er náttúrulega sorgarviðburður. Amma Bretlands var að falla frá, maður hefur alltaf vitað hver hún er og hún hefur alltaf verið ríkur hluti af Bretlandi og breskri menningu,“ segir Guðný. Hún segir það hafa verið mjög sorglegt að fylgjast með viðbrögðum fólks í fjölmiðlum í gær þar sem fólk felldi tár í beinni útsendingu. 

Tilkynnt var um andlát drottningarinnar um klukkan hálf sex að …
Tilkynnt var um andlát drottningarinnar um klukkan hálf sex að íslenskum tíma í gær. AFP

„Hann er enginn nýliði“

Karl er þegar tekinn við og hefur tekið sér titilinn Karl III. Bretakonungur. „Hann er náttúrulega búinn að vera í þjálfun hjá mömmu sinni frá því að hann var barn. Hann hefur alltaf vitað að þetta myndi koma fyrir hann, annað en Elísabet, það var ekki alltaf víst að hún yrði drottning. Ef hún hefði eignast bróður hefði hún ekki orðið drottning,“ segir Guðný. 

Hún segir Karl vera væntanlega vera búinn að hugsa vandlega um það hvernig konungur hann ætli sér vera. „Hann er enginn nýliði. Undanfarin ár hefur hann líka verið að hjálpa henni og stigið inn fyrir hana. Hann veit alveg hvað á að gera,“ segir Guðný. 

Karl er enginn nýliði.
Karl er enginn nýliði. CHRIS JACKSON

Framundan eru samt breytingar en líkt og Guðný bendir á hefur Karl talað um að nútímavæða konungsveldið. 

„Hann hefur til dæmis talað fyrir því að fækka þeim sem lifa á skattpeningum í konungsfjölskyldunni og breyta störfum konungsfjölskyldunnar þannig að hún verði líkari konungsfjölskyldunum í Skandinavíu,“ segir Guðný sem sér ekki fyrir sér að hann muni útdeila mörgum titlum í tíð sinni.

„Ég held samt að hann muni gera Játvarð litla bróður sinn að hertoganum af Edinborg. Það var einlæg ósk Elísabetar að hann myndi fá þann titil,“ segir Guðný en eiginmaður Elísabetar, Filippus heitinn, bar þann titil þegar hann lést. 

Karl hefur fylgt móður sinni eftir í starfi undanfarin ár.
Karl hefur fylgt móður sinni eftir í starfi undanfarin ár. AFP

Lætur hann Andrés hverfa?

Það er engum blöðum um það að fletta að Andrés prins hefur valdið hvað mestum vandræðum innan konungsfjölskyldunnar í seinni tíð. Tengsl hans við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein og samverkakonu hans Ghislaine Maxwell hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og verði svartur blettur á krúnunni.  

Guðný segir spennandi að sjá hvað gerist. „Það er spurning hvort það hafi bara verið Elísabet sem hélt Andrési í sviðsljósinu. Það hefur alltaf verið talað um að Vilhjálmur og Karl hafi kallað eftir því að meira yrði gert en Elísabet hafi stoppað það því hún var alltaf svo mikill diplómati,“ segir Guðný og veltir fyrir sér hvort hann muni missa alla sína titla. 

Hvað veit maður nema hún hafi óskað eftir því að eitthvað annað gerist? Ég bíð allavega spennt eftir ræðu Karls í kvöld og þar sem mun hann setja tóninn fyrir sína valdatíð,“ segir Guðný.

Guðný veltir því fyrir sér hvort Karl muni svipta Andrés …
Guðný veltir því fyrir sér hvort Karl muni svipta Andrés af titlum sínum. AFP

Erfiður vetur framundan

Staðan er ekki beint frábær í Bretlandi um þessar mundir og margir sem eiga erfitt með að láta enda ná saman í lok mánaðar vegna hækkandi orkuverðs sem orsakast af stríðinu í Úkraínu. Guðný telur líklegt að krýningarathöfn Karls verði allt öðruvísi en krýningarathöfn móður hans. 

Viðburðir konungsfjölskyldunnar eru gríðarlega dýrir og þó að útför Elísabetar verði að öllum líkindum stærsta athöfn í sögu Bretlands þá mun Karl ekki baða sig í dýrðarljómanum á krýningardeginum, hvenær sem hann verður. 

Ekki er búið að gefa út hvenær útförin verður né hvenær Karl verður formlega krýndur. Guðný stefnir eins og er ekki á að fara í útförina í Lundúnum, en mun að sjálfsögðu fylgjast með henni heima. 

mbl.is
Loka