Bakaði köku í leyni og bað hennar

Athöfnin var einstaklega falleg í Laugarneskirkju.
Athöfnin var einstaklega falleg í Laugarneskirkju. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Sólveig Ásta Sigurðardóttir og Magnús Örn Agnesar Sigurðssonáttu dásamlegan brúðkaupsdag í fyrra. Vinirnir fengu ljósmyndara á staðinn enda gátu fáir verið viðstaddir vegna veirunnar. 

Sólveig doktorsnemi og kennari í enskum bókmenntum við Rice-háskólann í Houston í Texas og Magnús doktorsnemi í mannfræði við sama skóla giftu sig hinn 20. ágúst í fyrra í Laugarneskirkju í Reykjavík.

„Við eins og svo margir aðrir höfðum boðið í brúðkaupsveislu síðasta sumar. Brúðkaupið átti að fara fram í sveitinni minni í Suður-Þingeyjarsýslu og höfðum við skipulagt alls konar skemmtilegt í því fallega umhverfi og hlökkuðum til að fagna með vinum og fjölskyldu. Við höfðum ekki hitt marga eða séð lengi þar sem við erum búin að vera erlendis lengi.

Við vorum svo bæði erlendis þegar heimsfaraldurinn skall á í febrúar í fyrra. Þá áttuðum við okkur fljótt á því að sveitabrúðkaupsplön okkar um sumarið yrðu ekki að veruleika.

Við sendum þá strax skilaboð til vina okkar og fjölskyldu.

Það var svolítið sérstakt að fá allar fallegu kveðjurnar til baka frá fólki sem sendi hlýju og stuðning mitt í heimsfaraldrinum. Stuttu seinna komumst við að því að við áttum von á barni og ákváðum þá að flytja heim til Íslands,“ segir Sólveig.

Ákváðu að láta brúðkaupið verða að veruleika

Sólveig ákvað að panta nótt á Hótel Búðum hinn 20. ágúst, um það bil mánuði fyrir settan dag í september.

„Hljómsveitin GÓSS átti að halda tónleika á hótelinu og við hugsuðum þetta sem algjört sumartrít og góða nýtingu á ferðagjöfinni. Þegar nær dró þessari ferð byrjaði að örla á löngun hjá okkur að gera hana að sárabótarbrúðkaupsferð og standa við giftingarhluta sumarsins fyrr þennan dag þó svo að veislan hafi runnið út í sandinn um sinn,“ segir Magnús.

„Við töluðum því við Hjalta Jón prest í Laugarneskirkju sem fékk okkur á sinn fund og úr varð agnarsmátt brúðkaup með bara foreldrum okkar vegna kórónuveirutakmarkana. Einn af okkar eftirlætistónlistarmönnum, Ólöf Arnalds, var viðstödd og spilaði fyrir okkur auk þess sem systir Sólveigar, Anna Elísabet víóluleikari, sendi upptöku frá Kaupmannahöfn sem spiluð var í athöfninni. Vinir okkar sem fréttu af uppátækinu slógu saman í ljósmyndara, Laimonas Dom Baranauskas frá Sunday & White Studio, sem tók myndir í athöfninni og tók stuttan brúðkaupsþátt með okkur í Grasagarðinum eftir á þar sem við settumst síðan niður á Flórunni hjá Marentzu í freyðivín, kaffi, smurbrauð og franska súkkulaðiköku. Það voru nú veitingarnar í þessu brúðkaupi, fyrir utan dýrindismatinn sem við fengum tvö á Hótel Búðum um kvöldið,“ segja þau.

Hjalti Jón prestur í Laugarneskirkju gaf Sólveigu Ástu Sigurðardóttur og …
Hjalti Jón prestur í Laugarneskirkju gaf Sólveigu Ástu Sigurðardóttur og Magnús Örn Agnesar Sigurðsson saman þann 20. ágúst í fyrra. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Gleði og hamingja ríkti yfir athöfninni

Hvað stendur upp úr frá stóra deginum?

„Það sem stendur upp úr er hvað dagurinn færði okkur mikla hamingju. Við höfðum verið á miklum þeytingi mánuðina áður og heimsfaraldurinn krafist mikils af okkur öllum. Því var það svo dýrmætt að koma saman og hugleiða þann tíma sem við höfum átt og fagna hvort öðru og litla barninu okkar sem nú er orðið sex mánaða. Athöfnin var full af gleðitárum og við hlógum mikið yfir því að þrátt fyrir að við værum svona fá þá gáfum við ekkert eftir hvað varðaði lengd athafnarinnar. Ólöf Arnalds og Hjalti prestur leiddu okkur í fjöldasöng en við höfðum fengið mæður okkar, þær Agnesi Agnarsdóttur og Kristjönu Gunni Hlöðversdóttur, til að velja lög sem þeim þótti vænt um og svo sungum við þau öll saman,“ segja þau.

Hamingjusamlega nýgift hjón í Laugarneskirkju.
Hamingjusamlega nýgift hjón í Laugarneskirkju. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Hvað með fatnaðinn ykkar?

„Magnús var í hefðbundnum svarbláum jakkafötum með vínrautt bindi en það er lengri saga að segja frá kjólamálum mínum. Mamma mín, Kristjana Gunnur, hafði heimsótt mig í Houston og skemmtum við okkur vel við að skoða dýru og fínu brúðarkjólabúðirnir þar í borg en svo fór ég að grúska á netinu og fann þar fína kjólinn sem mér leist best á.

Það var hvítur kjóll með síðum ermum og opnu baki. Sá kjóll var á miklu lægra verði enda var hann til sölu á síðu með notuðum brúðarkjólum.

Konan sem hafði átt hann sendi mér fallegt kort með heillaóskum. Það var mjög skemmtilegt að fá svona aukatengingu við kjólinn og vita að hann hafði verið hluti af fallegum degi hjá öðrum. Ég var alveg hæstánægð með þennan kjól en hann varð eftir í Houston þegar við fórum heim, enda var búið að fresta brúðkaupinu á þeim tímapunkti um óákveðinn tíma. Þegar við síðan ákváðum í snatri að láta athöfnina verða að veruleika voru góð ráð dýr. Þegar ég sagði Hafdísi Helgu Helgadóttur vinkonu minni frá plönunum spurði hún hvort hún ætti ekki að lána mér fyrir stóra daginn hvítan hnésíðan kjól með smáum hvítum dúskum. Kjól sem ég hafði reyndar gefið henni þegar hún var ólétt.

Umhverfið í Laugarneskirkju er einstaklega fallegt.
Umhverfið í Laugarneskirkju er einstaklega fallegt. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Hann kom alveg ótrúlega vel út og mér þótti vænt um að vera í kjól sem átti vináttusögu í ljósi þess að við gátum ekki verið fleiri í athöfninni. Kjóllinn í geymslunni í Houston bíður eftir partíinu góða sem við stefnum á að halda einhvern daginn. Ég skellti síðan hárinu í tagl og fann skó inni í skáp sem voru í stíl við bindið hans Magnúsar og var með skartgripi sem Anna Elísabet systir mín hafði gefið mér,“ segir Sólveig.

Hver er sagan á bak við bónorðið?

„Við vorum búin að vera saman í mörg ár en á árunum 2018 til 2019 vorum við mikið í fjarbúð því Magnús var við rannsóknir og störf í Bonn í Þýskalandi. Rétt áður en hann lagði upp í síðustu og reyndar óvænta ferð til Þýskalands haustið 2019 skipulagði hann heilan dag í listasafnahverfinu í Houston. Þegar við settumst niður í lautarferð í brakandi sól og fjörutíu stiga hita, í uppáhaldsalmenningsgarðinum okkar, dró Magnús fram hjartalaga súkkulaðiköku sem honum hafði tekist að baka í litlu íbúðinni okkar kvöldið áður án þess að ég tæki eftir því, kampavín og hring,“ segir Sólveig.

Sólveig Ásta og Magnús Örn voru búsett í Houston í …
Sólveig Ásta og Magnús Örn voru búsett í Houston í Texas. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Þegar þau rifja upp brúðkaupsdaginn er eitt sem kemur upp í hugann sem þeim þótti sérstklega vænt um.

„Um kvöldið settumst við niður að borða í hólfaskiptum salnum á Hótel Búðum þar sem einungis voru ein önnur hjón í salnum. Þá kemur í ljós að þau voru að halda upp á 50 ára brúðkaupsafmæli! Úr varð að yfir kvöldmatnum fengum við hlýjar hamingjuóskir og tillögur inn í næstu 50 ár okkar saman. Svo skemmtilega vildi til að þau höfðu verið á markaði fyrr um daginn og síðar um kvöldið, þegar við vorum á yndislegum tónleikum hljómsveitarinnar GÓSS sem haldnir voru undir berum himni við hliðina á hótelinu og með Snæfellsjökul í baksýn, færðu þau okkur þríarma kertastjaka í brúðargjöf sem þau höfðu keypt á markaðinum en fannst eins og væri ætlaður okkur. Okkur þótti mjög vænt um það. Allt var þetta mjög sætt, óvænt og viðeigandi fyrir okkur og litla barnið sem var á leiðinni.

Morguninn eftir biðu okkar skilaboð frá vinum og fjölskyldu auk þess sem við vorum eindregið hvött af Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur vinkonu okkar að koma við á kaffihúsinu Rjúkandi á leiðinni heim af Snæfellsnesinu. Við þorðum ekki annað en að gera það og þegar við ætluðum að fara að panta okkur kaffi og með því tók starfsfólkið á móti okkur og tilkynnti að okkar biði glaðningur og fyrirliggjandi pöntun á kaffi og hjónabandssælu frá Guðrúnu Sóleyju. Algjör töfrastund að sitja í sólinni og fara yfir ævintýri síðasta sólarhrings. Þegar heim var komið voru vinkonur okkar Helen Inga, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Kristjana Gunnur móðir Sólveigar búnar að skreyta íbúðina okkar undurfallega. Svo þrátt fyrir að vinirnir væru ekki á svæðinu tóku þau þátt í að gera daginn sérstakan,“ segja þau.

Vinir brúðhjónanna slógu saman í ljósmyndara svo hægt væri að …
Vinir brúðhjónanna slógu saman í ljósmyndara svo hægt væri að eiga fallegar minningar um daginn. Laimonas Dom hjá Sunday & White Wedding Studio var fenginn í verkefnið. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio

Þakklát fyrir vini sína

Þótt þau stefni að því að halda brúðkaupsveislu síðar með vinum og fjölskyldu vona þau að hægt verði að halda í einlægnina og hlýjuna sem þau upplifðu í fyrra. Í bland við stemninguna og stuðið.

„Við erum svo þakklát fyrir að vinir okkar höfðu vit fyrir okkur og sendu ljósmyndara á staðinn. Þegar þau stungu upp á því höfðum við fyrst maldað í móinn og haldið því fram að við ættum að spara ljósmyndara fyrir stóru veisluna en í dag erum við í skýjunum með að eiga minningar frá þessum dýrmæta degi.“

Hamingjan skein úr andliti brúðhjónananna á brúðkaupsdaginn.
Hamingjan skein úr andliti brúðhjónananna á brúðkaupsdaginn. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio
Hafdís Helga Helgadóttir vinkona Sólveigar Ástu lánaði henni kjól fyrir …
Hafdís Helga Helgadóttir vinkona Sólveigar Ástu lánaði henni kjól fyrir brúðkaupið enda varð brúðarkjóllinn sem hún ætlaði að vera í upphaflega eftir í Bandaríkjunum. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio
Samrýnd fjölskylda á brúðkaupsdaginn.
Samrýnd fjölskylda á brúðkaupsdaginn. mbl.is/Laimonas Sunday & White Wedding Studio
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »