Sigríður kvíðir mest fyrir viðtölum við fjölmiðla

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk Guðjónsdóttir sinnir starfi ríkislögreglustjóra; starfi sem fæst okkar myndum nokkurn tímann vilja taka að okkur. Hún hefur þó aldrei farið í lögreglunám heldur kemur að starfinu í gegnum lögfræðinám og starf skattastjóra. Sigríður er fyrrum sýslumaður á Ísafirði sem nýtur þess að rýna í erfið mál í samfélaginu og leita leiða til að bæta það sem betur má fara. Það er þó ekki einfalt að vera ríkislögreglustjóri á tímum heimsfaraldurs og á Sigríður ekki auðvelt með hvers konar athygli sem starfi hennar fylgir. En drifkrafturinn er ávallt að reyna að finna betri leiðir innan réttarkerfisins, sérstaklega hvað við kemur ofbeldi. Þegar vinnudeginum lýkur er hún svo bara miðaldra kona á hjóli í Reykjavík sem trúir því að allir séu að gera sitt besta.

Varðandi breytingar á meðhöndlun kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis á Íslandi.

„Það er helmingur af morðum á Íslandi. Um það bil helmingur, það eru heimilisofbeldismál. [...] Heimilisofbeldi var einhvers konar skömm held ég, sem hvíldi yfir því. Það þurfti að opna umræðuna, og þurfti að styrkja þá sem eru þolendur. Þeir átti sig á því að þetta er ekki þeim að kenna eða þeirra sök. Þetta er svona ofbeldishringur – byrjar með spennu, síðan kemur þetta ofbeldi. Síðan kemur sáttatímabilið og síðan kemur góða tímabilið. Og fólk var bara í þessum hring og þetta gat farið yfir kynslóðir, þannig að þú ert alinn upp við þennan hring. Þá ferðu sjálfur í ofbeldissamband, annað hvort sem gerandi eða þolandi. Og við þurftum að breyta okkar nálgun og okkar skilninginn, og þolendur höfðu ekki rödd. Þeir eru bara rétt núna að fá rödd.“
 
Í dag er til að mynda mögulegt fyrir kynferðisbrotaþola að fletta upp hvar þeirra mál er „statt í kerfinu“ – það er að segja hvort það sé í rannsókn eða í ákærumeðferð, og eiga að geta séð hversu mörg mál sambærileg þeirra eigin eru núna í kerfinu svo þau upplifi sig vonandi síður ein.

„Þetta er bara raunverulega þannig að fyrir svo fáum árum síðan að þá var það þannig að þú varðst fyrir kynferðisbroti og þú bara beiðst við lúguna í ár. Tvö ár. Og svo kom bréf sem þú skildir ekki. Þetta er bara ekki boðlegt og við höfum verið að reyna að laga þetta. Eða ekkert reyna, við höfum lagað þetta mjög mikið.“

Sigríður fer stundum með í útköll svo hún sé meðvituð um hver staðan er í raun fyrir hinn almenna lögregluþjón sem hittir almenning.

„Ég fer einstaka sinnum út og það er bara mjög gott fyrir mig að fara með í útköllin og sjá hvernig þetta raunverulega er. Og það er ótrúlegt að fara til dæmis í bæinn þegar skemmtanalífið stendur sem hæst og upplifa þetta á eigin skinni. Og útköllin – fara í heimilisofbeldisútköllin og finna bara sorgina sem að er þar. Það eru allir sorgmæddir.“

Fjölskylda Sigríðar á misauðvelt með að takast á við persónulega gagnrýni sem Sigríður fær á sig sökum vinnunnar sinnar, en allavega eitt barnabarn verður ávallt glatt þegar amma sést á skjánum – hvort sem að umtalið er jákvætt eða neikvætt.

Við eigum að skipta okkur af því þegar fólk er beitt ofbeldi

„Ég held að það sem við þurfum að gera fyrr núna er að grípa fyrr inn í þegar krakkar eru að villast af leið. [...] þau verða að upplifa að [...] það sé eitthvað rangt á ferðinni og þau fái aðstoð við að snúa af [...] þeim vegi. Af því að bara þegar þú ert ungmenni þá er þetta bara ákveðinn misþroski stundum. [...] Þetta er bara eins og á bíl, það byrjar allt í einu bensíngjöfin að virka en bremsurnar eru bara ekki farnar að virka ennþá. Við verðum að grípa krakkana.“

Snæbjörn spyr hvort við eigum að vera að skipta okkur af, við séum alin upp við að skipta okkur ekki af.

„Við eigum að skipta okkur af því þegar börn eru beitt ofbeldi. Við eigum að skipta okkur af því þegar að börn eru í erfiðum aðstæðum. Bara hver sem er, ekki bara börn. Við eigum að skipta okkur af því þegar verið er að beita annað fólk ofbeldi eða níðast á þeim með einhverjum hætti, eða hagnýta sér það. Við eigum að skipta okkur af því. Við viljum ekki svoleiðis samfélag, það eru leikreglurnar sem við höfum samið um samfélagið okkar. Þetta er bannað og þetta á ekki að lýðast. Við eigum að geta farið örugg út að skemmta okkur.“

Sigríður var ekki vön að tala við fjölmiðla þegar hún tók við starfi ríkislögreglustjóra. Þar lenti hún í miklu fjölmiðlafári varðandi ýmiskonar breytingar og uppstokkun í starfsemi embættisins og réði að lokum til sín ráðgjafa til að aðstoða sig við samskipti við fjölmiðla. Eftir að það var yfirstaðið hafði einhver á orði við Sigríði að hún gæti ekki sinnt starfi sínu nema hún tæki sig á í því hvernig hún talaði við fjölmiðla – svo hún gerði það. Hún þjálfaði sig gagngert í hvernig hún kæmi fram í viðtölum og eru viðtöl það sem Sigríður kvíðir mest fyrir í sínu starfi.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Snæbjörn Ragnarsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Snæbjörn Ragnarsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál