Áhrifavaldar verði fleiri og tekjuhærri

Linda Benediktsdóttir, Sólrún Díego, Guðmundur Birkir Pálmason og Lína Birgitta …
Linda Benediktsdóttir, Sólrún Díego, Guðmundur Birkir Pálmason og Lína Birgitta Sigurðardóttir eru öll áhrifavaldar. Samsett mynd

„Áhrifavaldar eru fólk sem er með ákveðið fylgi á samfélagsmiðlum og með ákveðinn trúverðugleika og áreiðanleika gagnvart sínum fylgjendum,“ segir Gunnar Birgisson hjá Swipe Media. Swipe Media stofnaði Gunnar árið 2018 með Nökkva Fjalari Orrasyni en þeir vinna með áhrifavöldum og fyrirtækjum.

Áhrifavaldar fengu sérflokk í tekjublöðum bæði DV og Frjálsrar verslunar í síðustu viku. Ekki er til nein ein skilgreining á orðinu áhrifavaldur og ekki margir sem gera sér fyllilega grein fyrir hvað áhrifavaldar eru og hvað þeir gera.

Hið launaða starf áhrifavaldsins er að auglýsa vörur og segja fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum frá þeim. Flestir nota Instagram sem sinn aðalvettvang en nokkrir hafa einnig fært sig yfir á TikTok. Mikil vinna liggur þó að baki því að geta fengið vörur frá fyrirtækjum sendar og fjalla um þær. Áhrifavaldurinn verður að hafa byggt upp fylgjendahóp og traust verður að hafa myndast á milli áhrifavaldsins og þeirra sem hann hefur áhrif á.

„Það þarf að vera einhver ástæða fyrir því að fólk velur að fylgja þessum tiltekna áhrifavaldi,“ segir Gunnar. Áhrifavaldar sýna frá sínu daglega lífi, deila ráðum, ræða við fylgjendur sína um ýmis málefni, fá ráð frá þeim og hleypa þeim bókstaflega inn í stofu heima hjá sér.

Áhrifavaldar vinna með fyrirtækjum og eru eins konar framlenging á markaðsdeild fyrirtækisins. Gunnar og samstarfsfólk hann hjá Swipe Media vinna að því að koma á sambandi milli einstaklinga og fyrirtækja. Í gegnum samstarf við fyrirtæki afla áhrifavaldar svo tekna og þessar tekjur þarf að gefa upp til skatts. Þar undir falla vörur sem fyrirtæki senda áhrifavöldum til umfjöllunar, gjafir og afnot af vörum eins og til dæmis bifreiðum.

Flestir áhrifavaldar á snærum Swipe eru aðeins áhrifavaldar og vinna ekki aðra launaða vinnu. Hins vegar hafa þeir haft tækifæri til að nýta vettvang sinn í að skapa eigin vörumerki. Áhrifavaldurinn Lína Birgitta Sigurðardóttir hefur til dæmis stofnað sitt eigið íþróttavörumerki, Define The Line Sport. Lína er með um 24 þúsund fylgjendur á Instagram.

Meira en bara auglýsing

Flestir eru sammála um að áhrifavaldar séu meira en bara auglýsendur á samfélagsmiðlum því þeir deila stórum hluta af sínu persónulega lífi á samfélagsmiðlinum. Og það er lykillinn að velgengni á samfélagsmiðlum. „Að mínu mati er góður áhrifavaldur einhver sem hefur byggt upp traust fylgjenda sinna í gegnum tíðina, til dæmis með því að vera hreinskilinn og persónulegur. Þannig hefur einstaklingurinn byggt upp gott orðspor meðal fylgjendanna um að hann segi sína raunverulegu skoðun og fólk treystir því,“ segir Hafdís Rós Jóhannesdóttir, ráðgjafi í almannatengslum hjá Góðum samskiptum.

Hafdís bendir á að áhrifavaldar hafi lengi verið til og vörumerki nýtt sér samstarf við þá, eins og til dæmis íþróttafólk, leikara og fyrirsætur. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur fólk hins vegar sinn eigin vettvang þar sem það getur aukið fylgi sitt.

„Það er ekki aðalatriðið hversu marga fylgjendur áhrifavaldur er með heldur skiptir meira máli hversu mikils trausts hann nýtur hjá fylgjendum sínum og hvort þetta traust sé auðveldlega yfirfæranlegt á viðkomandi vöru eða vörumerki. Eins og öll samskipti á opinberum vettvangi byggist þetta á trausti og trúverðugleika og áhrifin sem áhrifavaldarnir geta haft á kauphegðun er í beinu sambandi við hversu trúverðugir þeir eru í augum fylgjenda sinna og í framsetningu á samstarfi við vörumerki,“ segir Hafdís.

Hafdís segir að fyrirtæki, áhrifavaldar og neytendur séu komnir með ágæta reynslu af starfseminni. Áhrifavaldar hafa lært að verðleggja sig hærra og takmarka fjölda vörumerkja sem þeir vinna með.

„Okkar reynsla er að íslensk vörumerki velji oftast að vinna með áhrifavöldum sem hafa færri en dyggari fylgjendur og þeim sem eru mjög afkastamiklir í sinni efnisframleiðslu. Til dæmis eru áhrifavaldar sem deila uppskriftum eða heimilisráðum mjög vinsælir hjá framleiðendum og heildsölum. Fyrirtækin kynnast þessum áhrifavöldum í gegnum samfélagsmiðla og sjá tengingarmöguleika við sín vörumerki eða viðskiptavinahópa,“ segir Hafdís.

Á meðal vinsælustu áhrifavalda í þeim flokki eru til dæmis Sólrún Diego og Linda Benediktsdóttir. Sólrún hefur sýnt frá þrifum á heimili sínu í nokkur ár og gefið fylgjendum sínum góð ráð. Þá hefur hún einnig gefið út bók um skipulag heimilisins. Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar var hún með 525 þúsund á mánuði á síðasta ári og er með 44 þúsund fylgjendur á Instagram.

Linda er fyrst og fremst í eldhúsinu og gefur út fjölda uppskrifta á mánuði. Hún heldur einnig úti uppskriftasíðu, er í samstarfi við stærstu heildsala hér á landi og vinnur nú að því að gefa út uppskriftabók. Hún var með 802 þúsund í tekjur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar og er með 27 þúsund fylgjendur á Instagram.

Ekki á útleið

Þetta er ekki fyrsta skipti sem áhrifavaldarnir komast á blað í tekjublöðum og ekki í síðasta skipti að mati Hafdísar. Í tekjublaði DV var Guðmundur Birkir Pálsson, kírópraktor og áhrifavaldur tekjuhæstur með 1,2 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári. Í tekjublaði Frjálsrar verslunar var klámstjarnan Klara Sif Magnúsdóttir tekjuhæst með rúma milljón á mánuði.

„Ég held að þessi flokkur sé kominn til að vera og muni jafnvel stækka á næstu árum. Stafræn markaðssetning er framtíðin og áhrifavaldar eru stór hluti af henni. Ég hugsa að það verði fleiri með hærri laun og fólk á fleiri sviðum að búa til efni. Við sjáum efnisframleiðslu-efnahaginn (e. creator economy) stækka í sífellu og það verða stöðugt til nýir miðlar sem gera fólki kleift að fá tekjur fyrir efni sem það framleiðir,“ segir Hafdís.

Áhrifavaldar munu þó að hennar mati ekki taka yfir auglýsingamarkaðinn og valda því að fyrirtæki hætti að auglýsa með hefðbundnum hætti í fjölmiðlum til dæmis. Hún sér frekar fyrir sér að fyrirtæki muni halda áfram að nýta áhrifavalda í bland við aðrar aðferðir. „Ég held að athyglin muni halda áfram að dreifast á fleiri aðila, bæði minni fjölmiðla og áhrifavalda. Við sjáum að það er strax orðið þannig að youtubestjörnur eru að segja okkur hvernig staðan er í Afganistan. Fólk treystir þeim sem það fylgist með hverju sinni,“ segir Hafdís.

Áhrifavaldarnir gætu hins vegar farið að taka stærri sneið af kökunni af auglýsingastofum því þeir eru í beinu sambandi við fyrirtækin og framleiða sjálfir efni sem gæti flokkast sem sjónvarpsauglýsingar. „Áhrifavaldar hafa ákveðinn trúverðugleika sem þriðji aðili, eins og almannatengsl hafa haft í gegnum tíðina. Þar sem upplýsingarnar koma frá þriðja aðila, en ekki fyrirtækinu sjálfu, finnst neytendum þær oft trúverðugri. Ef fyrirtæki fær í lið með sér áhrifavald sem hefur unnið sér inn traustan fylgjendahóp þá trúi ég að það geti haft góð áhrif á vörumerkið og aukið sölu,“ segir Hafdís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál