Ætlar að horfa á alla leikina um páskana

Hjörvar Hafliðason fór alltaf í Eden.
Hjörvar Hafliðason fór alltaf í Eden.

Hjörvar Hafliðason, fjölmiðlamaður, álitsgjafi og íþróttastjóri Viaplay, heldur fast í páskahefðirnar og heldur gjarnan upp á páskahátíðina með grilluðu lambalæri. Hann segir frá sínum páskum í páskablaði Nettó. 

„Ég held fast í hefðir og horfi nánast á alla leiki sem eru í sjónvarpinu um páskana,“ segir Hjörvar. „Í gamla daga var alltaf farið í Hveragerði á páskadag. Við fórum í Eden og svo í blómabúð og brunuðum síðan beint heim.“ Hjörvar nýtur frítímans með fjölskyldunni. „Við reynum að fara kannski eitthvað í burtu til útlanda því páskafríið býr til flesta frídaga.“

Grillað lambalæri með beini

„Þú setur brennara á fullt á grillinu en hefur slökkt í miðjunni. Síðan setur þú lambalærið í miðjuna þar sem er slökkt en passar að nota ekki álpappír. Það er best að snúa lærinu reglulega. Þegar kjöthitamælirinn sýnir 58 gráður ferðu með lærið inn í eldhús og lætur standa í 7 mínútur,“ segir Hjörvar og bætir við: 

„Sósan fer eftir smekk en ég er hrifinn af öllum brúnum sósum. Ég mæli með að krydda lambið með óreganó og kaupa tilbúið kartöflusalat sem meðlæti.“

mbl.is