„Pabbi hafði borið hringinn sinn í 57 ár“

Einar Örn Einarsson og Margrét Rós Sigurjónsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.
Einar Örn Einarsson og Margrét Rós Sigurjónsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.

Það getur verið sárt að týna hlutum sem hafa tilfinningalegt gildi. Einar Örn  þekkir tilfinninguna af eigin raun en hann týndi giftingarhringnum sínum fyrir ári, aðeins nokkrum vikum fyrir 10 ára brúðkaupsafmælið. 

„Ég varð algjörlega miður mín og fékk vægt taugaáfall. Þetta var mjög óþægileg tilfinning,“ segir Einar Örn um augnablikið þegar hann áttaði sig á því að hann hafði týnt giftingarhringnum sem hann hafði borið upp á dag í næstum 10 ár. „Ég hafði borið þennan hring síðan við Margrét Rós giftum okkur og nánast aldrei tekið hann af mér fyrir utan þegar ég fór á lyftingaæfingar, og alltaf þegar ég tók hann af mér leið mér hálffurðulega, segir Einar Örn, sem hafði verið á tveggja daga „kite-surf“-námskeiði á Gotlandi í Svíþjóð þegar hann týndi hringnum.

„Seinni daginn hefði ég verið úti á sjó allan daginn en það var mjög kalt, rok og rigning. Þegar ég var að keyra heim eftir námskeiðið áttaði ég mig á því að ég var hringlaus. Hringurinn hafði hreinlega runnið af í Eystrasaltið án þess að ég tæki eftir því, enda var ég mjög kaldur á höndunum þennan dag.“

Daginn eftir fór öll fjölskyldan í fjöruna þar sem Einar hafði verið og gekk þar um og leitaði að hringnum.

„Ég vissi að þetta var alveg vonlaust en mér leið betur að hafa farið og leitað, ég var þá a.m.k. búinn að láta reyna á það.“

Fékk giftingarhring pabba síns

Einar Örn og eiginkona hans, Margrét Rós Sigurjónsdóttir, trúlofuðu sig í ágúst árið 2010 og giftu sig ári síðar hinn 23. júlí. Trúlofunarhringinn keypti Einar Örn hjá Orr gullsmiðum, hring úr hvítagulli með sex demöntum, og ber Margrét Rós hringinn enn þann dag í dag. Þar sem Margrét var mjög ánægð með trúlofunarhringinn ákváðu þau að láta Orr líka smíða giftingarhringana enda heilluðust þau af gamalli aðferð sem Orr notar við smíðina en þá eru hringarnir steyptir í sama mót og síðan brotnir í tvennt.

Þegar Einar Örn sagði móður sinni, Ólöfu Októsdóttur, frá óheppni sinni og týnda hringnum kom hún með þá hugmynd að Einar Örn fengi giftingarhring föður síns heitins, Einars Friðriks Kristinssonar, og að hann yrði bræddur saman við giftingarhring Margrétar. Þannig fengjust nýir giftingarhringir handa þeim báðum. Einar Örn segir að sér hafi strax litist vel á hugmyndina en faðir hans lést fjórum áður áður.

„Pabbi hafði borið hringinn sinn í 57 ár,“ segir Einar Örn og bætir við að faðir hans hafi þurft að sækja um undanþágu hjá forsetanum til þess að geta kvænst móður hans, enda var hann aðeins 19 ára þegar þau gengu í hjónaband og hún tvítug. „Ég hélt að pabbi hefði verið jarðaður með hringinn en mamma átti hann enn og mér þótti mjög vænt um að hún skyldi gefa mér hann og koma með þessa tillögu.“

Nýir hringar á 10 ára brúðkaupsafmælinu

Þetta gerðist aðeins nokkrum dögum fyrir tíu ára brúðkaupsafmælið þeirra, en Orr smíðaði nýja hringa í snatri og náðu hjónin að setja þá upp á 10 ára brúðkaupsafmælinu. „Þetta var mjög góð lending. Hringarnir eru alveg eins og gömlu hringarnir nema pabba hringur var úr rósagulli svo nýju hringarnir eru rauðari en fyrri hringarnir,“ segir Einar Örn, ánægður með útkomuna.

„Mér finnst fullkomið að hafa hringinn hans pabba í mínum og hringurinn er góð minning um hann. Það er líka gaman að segja frá því að við Margrét Rós trúlofuðum okkur á sínum tíma á afmælisdegi pabba. Það var ekki alveg skipulagt en við vorum á ferðalagi í Róm og trúlofunardagurinn lenti á afmælisdegi hans, sem gerir tenginguna enn sterkari.“

Einar Friðrik Kristinsson og Einar Örn Einarsson.
Einar Friðrik Kristinsson og Einar Örn Einarsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál