Kona ársins gifti sig aftur ári eftir aðgerðina

Rúna Sif Rafnsdóttir og Jónatan Guðbrandsson giftu sig 26. ágúst.
Rúna Sif Rafnsdóttir og Jónatan Guðbrandsson giftu sig 26. ágúst. Ljósmynd/Egill Tómasson

Rúna Sif Rafnsdóttir og eiginmaður hennar Jónatan Guðbrandsson giftu sig þann 26. ágúst síðastliðinn á Tálknafirði. Dagsetning skipar stóran sess í hjörtum þeirra og margra annarra en akkúrat ári fyrr gaf Rúna Eldi Elí, syni vinkonu sinnar, hluta af lifrinni úr sér. Rúna var valin kona ársins 2021 af lesendum Smartlands fyrir góðverkið. 

Hjónin á Tálknafirði giftu sig upphaflega árið 2017 en þá bjuggu þau í Njarðvík. „Við vorum alltaf á leiðinni að gifta okkur en fundum aldrei rétta tímann, bara svona eins og gengur og gerist, lífið, við vorum nýbúin að byggja hús, svo við ákváðum að fara til sýslumanns sem var líka mjög gaman. En við lofuðum sjálfum okkur því að við myndum halda partí,” segir Rúna. Hjónin fluttu svo vestur á Tálknafjörð og svo skall kórónuveirufaraldurinn á og þar með fengu veisluhöld að bíða þangað til í sumar.

Rúna viðurkennir að aðgerðin sem þau Eldur Elí fóru í fyrir rúmlega ári hafi átt þátt í því að þau hjónin ákváðu að drífa í að fagna hjónabandinu almennilega. „Það spilaði klárlega inn í. Lífið er svo allskonar, við ákváðum að vera ekkert að bíða meira og fljótlega eftir aðgerðina ákváðum við að næsta sumar myndum við láta verða af þessu.“

Rúna og Jónatan ákváðu að bíða ekki lengur með brúðkaupið.
Rúna og Jónatan ákváðu að bíða ekki lengur með brúðkaupið. Ljósmynd/Egill Tómasson

Giftu sig á föstudegi

Brúðkaupsdagurinn 26. ágúst var föstudagur. „Við vorum búin að vera skoða dagsetningar í júlí en komumst fljótt að því að þær hentuðu ekki, þar sem systir mín og fjölskylda býr erlendis og við vildum mjög mikið fá þau til okkar,“ segir Rúna. Þá rákust þau á daginn 26. ágúst.  

„Við sáum daginn 26.ágúst í dagatalinu sem við höldum svo mikið uppá eins og það væri skrifað í skýin að fagna þessum degi almennilega. Við vissum að þetta væri fyrsta vikan í flestum skólum en vonuðumst bara til þess að fólkið okkar myndi koma. Við vorum ótrúlega ánægð með hversu margir komu, þar sem við búum á Tálknafirði og það tekur alveg fimm tíma fyrir flesta að keyra alla þessa firði.“ 

Hjónin Rúna Sif Rafnsdóttir og Jónatan Guðbrandsson ásamt þeim Kristínu …
Hjónin Rúna Sif Rafnsdóttir og Jónatan Guðbrandsson ásamt þeim Kristínu Gunnarsdóttur og Bjarka Páli Eysteinssyni, foreldrum Elds Elí. Ljósmynd/Egill Tómasson

Rúna segir að hún hafi leyft vinkonum sínum að ákveða sjálfar hvort þær vildu hafa börnin með vestur en þær voru allar á sama máli að koma barnlausar í brúðkaupið.

„Eldur Elí var þá í dekri hjá ömmu sinni og afa á meðan mamma hans og pabbi fögnuðu með okkur. En átta dögum seinna hélt ég á honum í brúðkaupi foreldar hans. Það var dásamlegt. Það voru svo miklar tilfinningar, ég grenjaði alla vegana meira í þeirra brúðkaupi en mínu eigin,“ segir Rúna. 

Rúna segir brúðkaup foreldra Eld Elís hafa verið yndislegt. Ég og Jónatan ætluðum að vera með smá ræðu í brúðkaupinu þeirra eins og þau gerðu í brúðkaupinu okkar, ég vil meina að þeim hafi tekist að láta alla okkar gesti gráta. En varðandi okkar ræðu í þeirra brúðkaupi þá var ég nýbúin að segja við Jónatan að þetta væri engin pressa, hann þyrfti bara að vera smá fyndinn. Þegar við gengum upp á sviðið í þeirra brúðkaupi var spilað lagið Holding out for an hero með Bonnie Tyler og allir stóðu upp og klöppuðu. Þá sagði hann þegar við stóðum uppá sviði „Þetta kallar maður enga pressu, mér fannst það mjög fyndið, segir Rúna sem fann fyrir gríðarlega mikilli hlýju í garð þeirra hjóna í brúðkaupi þeirra Kristínar og Bjarka Páls. 

Vinkonur Rúnu skelltu sér vestur í brúðkaupið í ágúst.
Vinkonur Rúnu skelltu sér vestur í brúðkaupið í ágúst. Ljósmynd/Egill Tómasson

Afslappað og öðruvísi

„Við héldum í rauninni bara annað brúðkaup og létum eins og við værum að gifta okkur. Við giftum okkur í litlu kirkjunni á Tálknafirðunni. Ef einhver er svona skotinn í einhverjum eða ástfanginn þá mæli ég með því að gifta sig svona alvöru,“ segir Rúna. Samtals eiga hjónin fimm börn en Jónatan átti tvær stelpur áður en þau Rúna kynntust og er önnur þeirra búin að eignast barn. Rúna er því orðin amma Rúna og segir hún að öll börnin hafi tekið þátt í athöfninni í kirkjunni, stór og smá.

Börnin og barnabarnið tóku þátt í brúðkaupinu.
Börnin og barnabarnið tóku þátt í brúðkaupinu. Ljósmynd/Egill Tómasson

Rúna klæddist þægilegum brúðarkjól frá Bloom by Eyrún Birna. Kjóllinn var látlaus og Rúna var ekki með slör. Það kom þó aldrei neitt annað til greina en að gifta sig í hvítum kjól. ,,Það kom aldrei neitt annað til greina en að gifta sig í hvítum kjól. Birna er líka frábær hönnuður og með þæginlega nærveru. Mér þótti líka rosalega vænt um það að Dagný besta vinkona mín tók vel í það að gera mig fína. Hún sá um að greiða mér og farða, hún þekkir mig best og veit hvernig ég vil hafa þetta. 

Rúna var í fallegum kjól frá Eyrúnu Birnu.
Rúna var í fallegum kjól frá Eyrúnu Birnu. Ljósmynd/Egill Tómasson

Mikill léttleiki og gleði einkenndi brúðkaup þeirra Rúnu og Jónatans. Fljótlega eftir að hið hefðbundna innspil hófst heyrðist eins og í rispaðri plötu og rödd Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar fréttamanns hljómaði í kirkjunni. Hjónin fengu Magnús Hlyn til þess að bjóða fólk velkomið, biðja það um að geispa ekki og minna það á að skemmta sér. Rúna segir að Magnús Hlynur tengist þeim ekki neitt en hann hafi verið til í þetta. Þetta setti strax tóninn fyrir það sem á eftir kom. 

„Svo hljómaði lagið You’rethefirst, the last, my everything með BarryWhite. Þá gekk Jónatan inn með öllum börnunum okkar og barnabarni. Pabbi minn var kominn fram en pabbar okkar voru búnir að taka á móti öllum. Jónatan var því ekki inni í kirkjunni að heilsa öllum þegar gestirnir mættu, við létum pabba okkar gera það. Við pabbi komum svo dansandi inn við lagið þegar takturinn breytist í laginu,“ segir Rúna. Í lok athafnarinnar fór hún út fyrir þægindaramman og kom gestunum á óvart og söng lagið Halo og Jónatan spilaði undir.  

Rúna kom dansandi inn í kirkjuna með föður sínum.
Rúna kom dansandi inn í kirkjuna með föður sínum. Ljósmynd/Egill Tómasson

Við vorum ekki komin með veislustjóra fyrr en svona fimm dögum fyrir brúðkaupið. Fengum þá elstu systur okkar í það hlutverk. Þær voru frábærar, mágkona mín talaði um á köflum að við værum næstum því óþægilega afslöppuð yfir þessu.Þegar maður býr úti á landi þá er maður ekkert á einhverri Facebook-síðu að kaupa hitt og þetta. Maður þarf bara að vinna með það sem er á svæðinu og reynir að fá góð ráð hjá vinkonum, sérstaklega þegar maður finnur að stressið er að nálgast. En við vorum ekkert að stressa okkur of mikið yfir þessu. Ég bakaði brúðarkökuna sjálf, fékk smá aðstoð við bakstur frá mágkonu minni og svo kom systir mín Berglind og við settum hana saman. Egill Tómasson vinur okkar, tók brúðarmyndirnar og við vorum ekkert smá ánægð og lánsöm að hann vildi taka þetta að sér. Hann er giftur vinkonu minni úr yndislega vinkonu hópnum mínum henni Guðrúnu Maríu,“Við erum svo þakklát öllum, það voru allir svo tilbúnir að hjálpa,“ segir Rúna en góð vinkona hennar kom keyrandi með fallegan brúðarvönd frá Reykjavík. 

Eftir alla þá lífsreynslu sem hjónin og vinir hafa gengið í gegnum síðastliðið ár hafa þau lært að meta lífið betur. Ég hef alltaf verið mikil tilfinningarvera en ég held að ég verði bara meyrari með árunum,“ segir Rúna við blaðamann. Það góða við að finna fyrir meiri tilfinningum er að gleðistundirnar verða enn betri. Rúna og Jónatan svífa enn um á bleiku skýi eftir brúðakaupið. 

Það var mikið stuð í kirkjunni.
Það var mikið stuð í kirkjunni. Ljósmynd/Egill Tómasson
mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda