„Fólk um þrítugt sem getur ekki beðið eftir að verða innhringjandi á Útvarpi Sögu“

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins.
Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaðurinn Gunnar Smári Egilsson segir vinstri flokka á Íslandi hafa færst gríðarlega mikið til hægri og það sé hinn raunverulegi sigur nýfrjálshyggjunnar. Gunnar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann segir að fleiri ættu að gera eins og Davíð Oddsson. 

„Í gamla daga var borgarstjóri með opinn tíma þar sem venjulegt fólk gat hitt hann. Ég nýtti mér það einu sinni og heimsótti Davíð Oddsson sem þá var borgarstjóri. Hann sagði mér að þetta hafi tryggt sér jarðsamband. Að fá að hitta venjulegt fólk og taka við ábendingum og gagnrýni. Fólk í valdastöðum á aldrei að koma sér í burtu frá þessari jarðtengingu. Ég man þegar ég var ritstjóri og fólk var að segja upp áskrift vildi ég fá að heyra í því. Maður verður að fá að heyra gagnrýni og taka mark á henni. Við erum upp til hópa orðin allt of léleg að taka við gagnrýni. Það hjálpar engum að vera bara í samskiptum við já-fólk og fá aldrei endurgjöf. Blaðamenn og stjórnmálamenn sem kvarta undan gagnrýni ættu bara að gera eitthvað annað. Ef þú þolir ekki hittan er best að fara úr eldhúsinu.“

Gunnar Smári segist ekki botna í fólki sem er hrifið af ritskoðun. Sérstaklega sé það skrýtið ef vinstra fólk fagni tilburðum til ritskoðunar. 

„Ég næ því ekki þegar ég sé fólk fagna ritskoðun. Hvort sem það er í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Ég er í grunninn blaðamaður og sem slíkur get ég ekki verið hrifinn af neinni tegund af ritskoðun. Við finnum það alveg á Samstöðinni að það koma tímar þar sem er eins og það hafi verið settur hattur á okkur og allt í einu nær efnið okkar til miklu færra fólks. Svo ætlar maður að fá einhverjar skýringar og þá ertu bara að tala við einhverja gervigreind á Indlandi,” segir Gunnar Smári og heldur áfram:

„Við verðum aðallega vör við þetta á Facebook og þess vegna höfum við reynt að byggja upp aðrar dreifileiðir líka. En reyndar ekki á Twitter, enda týndi ég aðganginum mínum og er því ekki þar inni. Enda hefur mér alltaf fundist Twitter skrýtið fyrirbæri. Fólk um þrítugt sem getur ekki beðið eftir að verða innhringjandi á Útvarpi Sögu þegar það verður sjötugt. Aðeins önnur áhugamál og tilvísanir, en nákvæmlega sami ákafinn og sama stemmningin!”

Gunnar Smári segist ekki hrifinn af þeirri þróun að fara áratugi eða árhundruð aftur í tímann til að finna breyskleika fólks og útskúfa list eða öðru sögulegu vegna breyskrar hegðunar. 

„Það hefur lengi verið í gangi að fólk rífur niður hetjur sínar. En þetta er komið býsna langt. Nú má varla vísa í neinar persónur sögunnar, af því að þær standast ekki kröfur okkar. Mér finnst þetta vera röng manngildishugmynd. Ekki af því að maður sé að blessa slæma hegðun, en ég ennþá lítill drengur sem spyr hvað jesú hefði gert. Það á að vera hægt að hata syndina en elska syndarann. Það er ómannlegt ef við getum ekki fundið til með breyskleikum fólks. Ef að þú vilt refsa öllum linnulaust fyrir misgjörðir sínar, þá er staður fyrir það sem kallast helvíti. Ég hef engan áhuga á að vera þar.“

Hægt er að hlusta á brot úr hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál