„Hvað er betra en ást?“

Ási er einn hæfileikaríkasti teiknari og fatahönnuður landsins. Hann gerir …
Ási er einn hæfileikaríkasti teiknari og fatahönnuður landsins. Hann gerir ástina að viðfangsefni í nýrri línu sinni. Ljósmynd/Kári Sverris

Ásgrímur Már Friðriksson, kallaður Ási Már, er fatahönnuður að mennt frá Listaháskóla Íslands. Hann hefur starfað sem fatahönnuður lengi, en hefur einnig komið að margvíslegum öðrum verkefnum. „Eftir námið í Listaháskólanum hef ég komið víða við t.d. starfaði ég sem aðstoðartískuritstjóri hjá danska tímaritinu Cover, ég var einnig listrænn stjórnandi og meðframleiðandi Reykjavík Fashion Festival svo eitthvað sé nefnt.“

Hvað getur þú sagt mér um nýju tískulínuna þína?

„Nýja línan er gefin út undir nýju nafni, Kismet, og eru formerki merkisins ást, eða „love“ en það er einmitt slóðin að vefsíðunni sem núna er í vinnslu, www.kismet.love. Þetta snýst allt um ást. Einnig leynast falin skilaboð á fötunum en fólk verður að bíða þar til línan kemur út til að vita hver þau eru.“

Af hverju ást?

„Formerkið ást er á sama tíma óvænt stefna og skipulögð. Þegar ég ákvað að fara af stað með þetta nýja merki, vildi ég að gefa mér nægan tíma í undirbúning og þróunina. Ekki bara til þess að skila einhverju af mér út í heiminn. Hver flík er unnin af væntumþykju og mikilli hugsun. Það var ekki fyrr en ég fór að leita að lénum þegar „.love“ datt í fangið á mér og þá var ekki aftur snúið. Formerkin, sem ég hafði í raun verið að vinna með, urðu mér ljós. Enda hvað er betra en ást?“

Fyrir hvern eru fötin?

„Eins og staðan er í dag, þá eru fötin fyrir stráka, en stefnt er á að bæta við kvenfatnaði í framtíðinni. Við undirbúninginn að þessu sinni leit ég til hins klassíska „Americana“-stíls sem innblásturs og þar af leiðandi er vottur af afslöppuðum suðurríkjablæ yfir fatnaðinum. Fötin eru klassísk í sniðum en með smá „tvisti“. Ég vildi að fötin væru aðgengileg fyrir viðskiptavini, án þess að vera of leiðigjörn.

Leðurjakki í anda Ameliu Earhart.
Leðurjakki í anda Ameliu Earhart. Ljósmynd/Kári Sverris

Línan inniheldur meðal annars skyrtur þar sem blandað er saman bómullarefnunum „seersucker“ og „oxford“, rússkinsjakka með skreyttum stálkúlum og flugmannajakka úr leðri og gæru sem skírður er eftir Amelia Earhart.“

 Hvar verður línan til sölu?

„Ég er að kanna möguleikana en nýja línan verður meðal annars til sölu í versluninni KIOSK en búast má við að flíkurnar fari að detta í hús með haustinu.“

 Af hverju fatahönnun?

„Fatahönnun var aldrei stefnan en einhvern veginn var búið að ákveða það fyrir mig. Ég hafði alltaf áhuga á öllu sem kom að listum og hönnun og þá sérstaklega fatahönnun en sem krakki hafði ég mjög gaman af þáttunum „Absolutely Fabulous“ og „Fashion Television“ með Jeanne Baker. Eftir að hafa þvælst á milli brauta í menntaskóla endaði ég á myndlistardeild en á þeim tíma var ég byrjaður að búa til og breyta fötum fyrir sjálfan mig. Eitt kvöldið, þegar ég var einmitt í einum slíkum galla, kynntist ég Lindu Árnadóttur en hún hafði þá nýverið tekið við sem deildarstjóri fatahönnunar við LHÍ. Hún skoraði á mig að sækja um, sem ég gerði og sé ekki eftir því.“

Hvaða merkingu hefur fatnaður fyrir þig?

„Fatnaður er magnaður hlutur, einhvers konar talsmáti fyrir líkamann. Hversu skemmtilegt er það nú að fá að vinna með mannslíkamann sem grunn? Einnig geta föt vakið mikil viðbrögð frá áhorfandanum, hvort sem það er aðdáun, gleði og jafnvel reiði.“

Hvað skiptir þig máli sem hönnuður? 

„Það eru ótrúlega margir hlutir sem skipta mann máli en þeir eiga ekki alltaf við hverju sinni. Að mínu mati er hugsunin sem liggur að baki hönnunarinnar mikilvæg og hvernig hönnuðurinn vinnur úr henni, hvort sem það er verið að vinna með fagurfræðina eða tilfinninguna.“

Nýja línan heitir Kismet og vísar í ástina.
Nýja línan heitir Kismet og vísar í ástina. Ljósmynd/Kári Sverris

 Hvað skiptir þig mestu máli?

„Það sem skiptir mig mestu máli í dag er innri ró og tækifærið til þess að vinna að því sem maður hefur gaman af enda eru það algjör forréttindi. En aðgerðaleysi er manns mesti óvinur, í dag passa ég mig á að halda mér uppteknum, hvort sem það er með verkefnum, útiveru eða að dandalast með vinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál