Íslenskur, 17 ára og vinnur fyrir þá stóru

Alexander á tískupöllunum fyrir Berluti.
Alexander á tískupöllunum fyrir Berluti. FRANCOIS GUILLOT

Alexander Guðmundsson er 17 ára íslenskur strákur búsettur í Danmörku. Hann hefur vakið athygli að undanförnu fyrir störf sín sem fyrirsæta á tískuvikunni í Mílanó og París þar sem hann gekk tískupallana fyrir Prada í Mílanó og síðan Berluti, Valentino, Off-White, og Sacai í París. 

Alexander segir að hann sé einstaklega heppinn með foreldra. Að hann hafi dreymt um það að komast í hjólabrettamenntaskóla í Malmö í nokkur ár. Mamma hans og pabbi vildu styðja það þannig að fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar haustið 2016. „Við erum reyndar alvön flutningum, við bjuggum hérna í Kaupmannahöfn fyrstu árin mín og fluttum svo aftur heim en svo bjuggum við líka á Nýja-Sjálandi í tvö ár þegar ég var 10-12 ára,“ segir Alexander og bætir við að faðir hans starfi sem aðstoðarframkvæmdastjóri fyrir alþjóðlegt fyrirtæki með skrifstofur víða og geti því starfað hvar sem er og síðan sé móðir hans í námi í sálgreiningu.

Hann er í menntaskóla í Malmö sem heitir Bryggeriet Gymnasium á hjólabrettabraut. „Ég ferðast með lestinni á milli heimilis og skóla á hverjum morgni.“

Uppgötvaður í New York og í Kaupmannahöfn

Aðspurður hvernig hann hafi verið uppgötvaður sem fyrirsæta segir hann það hafa verið fyrir algjöra tilviljun.

„Ég var staddur í sumarfríi í New York sumarið 2017 og var uppgötvaður þar sem ég var í hjólabrettagarði í Brooklyn. Það var fyrir sýningu í New York á tískuvikunni þar. Þetta var bara þessi eina sýning og ekkert meira gerðist í þessu samhengi á þessum tíma.

Síðan var tekið eftir mér þar sem ég var á kaffihúsi með vini mínum hér í Kaupmannahöfn, það var fyrir danska fyrirsætuskrifstofu sem heitir Unique. En það leið um það bil eitt ár frá því að þeir sáu mig þar til þeir höfðu samband við mig.“

Alexander segir að maðurinn sem hafði séð hann í Kaupmannahöfn hafi haft samband við hann í gegnum Instagram.

„Hann hafði þá sjálfur stofnað sína eigin umboðsskrifstofu og vildi fá mig á samning. Ég var ekki viss með þetta í fyrstu, eins voru foreldrar mínir frekar neikvæðir gagnvart þessu.

En eftir fyrsta Skype-fundinn sem við tókum með honum sáum við að þetta var alvörufyrirtæki og upp frá því fóru hjólin að snúast.

Það var í gegnum hann sem ég komst á samning við IMG í London, París og Mílanó.“

Ferillinn fer vel af stað

Fyrir hvern hefur þú starfað?

„Ég tók þátt í auglýsingaherferð fyrir Vans og JD Sports í desember. Í janúar á þessu ári tók ég þátt í tískuvikunni í Mílanó og kom þar fram fyrir Prada. Þeir gerðu reyndar samning við mig um að ganga einungis fyrir þá, sem þýðir að ég fékk hærri laun fyrir sýninguna, enda mátti ég ekki vinna fyrir aðra á þessari tískuviku. Síðan tók ég þátt í tískuvikunni í París viku seinna og gekk þá fyrir Berlutti, Valentino, Off-White, og Sacai.“

Aðspurður hvað hann þurfi að gera til að halda sér í bransanum segir Alexander að hann sé rétt að byrja ferilinn sinn og hann líti á það sem svo að hann hafi verið heppinn með fyrstu skref sín á þessu sviði.

Alexander á tískupöllunum fyrir Prada.
Alexander á tískupöllunum fyrir Prada. mbl.is/AFP

„Núna er ég að fá mikið af tilboðum í tískuþætti í hinum ýmsu tímaritum sem mun án efa koma mér á framfæri.

Ég mun svo væntanlega taka þátt í fleiri tískuvikum á komandi misserum. Síðan þarf ég að vera duglegur að setja myndir inn á Instagram og safna fylgjendum þar til að byggja upp ferilinn minn. Ég er reyndar alveg slakur yfir þessu. Það kemur bara það sem kemur.“

Tískan er fyrir alla í dag

Hvað finnst þér flott tengt herratískunni?

„Mér finnst herratískan núna vera mjög fjölbreytt og skemmtileg. Það eru margir að gera margt flott eins og t.d. Alyx studios, Off-white, Vetements og fleiri. Það virðist vera meira frelsi í herratískunni en oft áður og núna er einhvern veginn meira samþykkt að strákar séu að spá í tísku. Það er kannski asnalegt að segja það en mér finnst það ekki lengur eitthvað sem bara stelpur og „gay“ strákar spá í.“

Spáir þú mikið í tískuna?

„Já, ég pæli mjög mikið í fötunum sem ég geng í og mér finnst líka mjög gaman að kaupa föt, þegar ég á pening. Ég hef líka eitthvað verið að hanna og sauma mín eigin föt og skartgripi.“

Hvað langar þig að gera í framtíðinni?

„Ég bara veit það ekki. Mig langar smá að verða fatahönnuður eða bara að vinna í þeim iðnaði en ég er ekki viss. Veit samt að mig langar að gera eitthvað skapandi og að mig langar alls ekki að vinna á skrifstofu fyrir framan tölvuskjá,“ segir hann og brosir.

Hefur kynnst mörgum af stóru nöfnunum í tískunni

Alexander segir að það hafi verið geggjað að fá samninginn við Prada. „Það var einnig mikil upplifun að hitta alla hönnuðina sem standa á bak við stærstu merkin eins og Miuccia Prada, Virgil Abloh og Raf Simmons. Simmons er mjög svalur og sýndi Íslandi mikinn áhuga.

Það er líka ótrúlega skemmtilegt að hitta fólk sem ég hélt að ég myndi aldrei hitta í lífinu. Á einni viku hitti ég fullt af tónlistarmönnum, fyrirsætum og fólki sem ég lít upp til og fylgi á Instagram og ekki nóg með það þá er ég búinn að vingast við fullt af þeim á Instagram. Síðan er ég líka bara búinn að kynnast fullt af geggjað flottum og skemmtilegum krökkum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál