Rauða latex-gallanum reddað á síðustu stundu

Það muna margir eftir rauða gallanum úr tónlistarmyndbandi Britney Spears.
Það muna margir eftir rauða gallanum úr tónlistarmyndbandi Britney Spears. Skjáskot/YouTube

Tuttugu ár eru liðin frá því að Britney Spears gaf út plötuna, Oops! ... I Did It Again. Myndbandið við samnefnt lag er afar eftirminnilegt og margir muna eftir rauða latex-gallanum sem Spears klæddist. Stílistinn Estee Stanley gaf í skyn í viðtali við Vogue að rauði gallinn hefði verið skítaredding. 

„Við vildum að allt yrði kynþokkafullt og einlitt,“ sagði Stanley um tískuna í myndbandinu. Stanley gerði hin hvítu og svörtu föt Spears auk þess sem hún gerði föt fyrir dansara hennar. Erfiðara var að finna rétta búninginn fyrir poppprinsessuna. 

Britney Spears ásamt dönsurum sínum í myndbandinu góða.
Britney Spears ásamt dönsurum sínum í myndbandinu góða. Skjáskot/YouTube

Á síðustu stundu fyrir tökur var leitað til Michaels Bush sem sá um að hanna búninga fyrir tónleikaferðalag Spears. Stanley segir að þær hafi verið vissar um að hann gæti töfrað fram föt fyrir söngkonuna á mettíma. 

Bush gerði latex-gallann á einni nóttu og féll Spears strax fyrir gallanum. Stanley var ekki alveg jafn hrifin þar sem fólk svitnar mikið í fötum úr latex. 

„Ef þú ferð í latex byrjarðu strax að svitna og ég vissi að hún væri að fara að dansa allan daginn,“ segir Stanley í viðtalinu en hún hafði áhyggjur af því að það myndi líða yfir söngkonuna. Það gerðist þó ekki en Spears byrjaði strax að svitna mjög mikið. 

Spears svitnaði mikið í þröngum gallanum.
Spears svitnaði mikið í þröngum gallanum. Skjáskot/YouTube

Tuttugu árum síðar er þetta verkefni enn eitt af þeim skemmtilegri sem Stanley hefur tekið þátt í. Hún hrósar Spears fyrir að hafa haft ákveðna og sterka skoðun á útliti sínu. 

mbl.is