Himnasending að grípa í prjónana eftir erfiða vakt

S. Helga María Helgadóttir byrjaði að prjóna þegar hún glímdi …
S. Helga María Helgadóttir byrjaði að prjóna þegar hún glímdi við mikil veikindi. mbl.is/Arnþór Birkisson

S. Helga María Helgadóttir tók fyrst upp prjónana þegar hún var 19 ára gömul og glímdi við mikil veikindi. Eftir að hafa gert vettlinga á alla í fjölskyldunni lagði hún prjónana niður og ætlaði sér aldrei að taka þá aftur upp. Þegar frænka hennar kom til hennar árið 2019 með poka af garni í lopapeysu og sagði henni að fara prjóna aftur tók hún upp prjónana að nýju og síðan þá hafa margar peysur dottið af prjónunum hjá henni. 

Helga María er fædd og uppalin í Hafnarfirði og leggur stund á hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Hún er nú á sínu öðru ári og vinnur meðfram náminu á hjartadeild Landspítalans. 

„Mér leist ekkert á þetta í byrjun og þurfti mikla hjálp því ég kunni lítið sem ekkert í þessu en þetta er merkilega fljótt að koma og þegar þessi peysa kláraðist varð eiginlega ekki aftur snúið. Ég byrjaði strax á næstu og fyrir árslok var ég búin með fjórar aðrar peysur,“ segir Helga María í viðtali við Smartland.

Helga María prjónar mikið á ástvini sína og fjölskyldu.
Helga María prjónar mikið á ástvini sína og fjölskyldu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Helga María leggur mikla ást í allt sem hún prjónar. Hún prjónar bæði á sjálfa sig, vinkonur sínar og á dætur systkina sinna og þykir vænt um að sjá þær í fötum eftir sig. 

„Ég elska að prjóna á þá sem ég elska og eru mér nánir, en eitt það fyrsta sem ég gerði þegar ég var komin með prjónabakteríuna var að gefa mínum nánustu vinkonum lopapeysur í afmælisgjafir auk mömmu,“ segir Helga María.

En af hverju prjónar hún?

„Það eru svo margar ástæður sem hvetja mig áfram til að prjóna. Fyrst og fremst er það róin sem hellist yfir mig. Ég er mjög eirðarlaus manneskja og er týpan sem er alltaf að stappa niður fætinum eða tappa nöglunum í borðið þegar ég þarf að einbeita mér og prjónið nær algjörlega að stoppa það allt, með því að hafa eitthvað í höndunum að prjóna fæ ég svo margfalt betri einbeitingu! Ég næ að hlusta betur á vinkonur, einbeiti mér betur yfir fyrirlestrinum eða nýt þess betur að hlusta á hlaðvarp. Ég einfaldlega fúnkera bara betur. Einnig er þetta himnasending eftir erfiða vakt að kyrra aðeins hugann, þetta er svo mikil núvitund. Ekki skemmir það svo að lokaútkoman er einhver geggjuð flík,“ segir Helga María.

„Maður prjónar út dýru og góðu garni og flíkurnar eru …
„Maður prjónar út dýru og góðu garni og flíkurnar eru fallegar og endast lengi. Mér finnst peysurnar vera meira virði þegar maður veit hversu fáránlega margir klukkutímar hafa farið í flíkina,“ segir Helga María. Arnþór Birkisson

Helga María segir að það séu margir kostir við að prjóna sínar eigin flíkur; maður geti ráðið hvað þær verða síðar, víðar og hvernig á litinn. „Maður prjónar úr dýru og góðu garni og flíkurnar eru fallegar og endast lengi. Mér finnst peysurnar meira virði þegar maður veit hversu fáránlega margir klukkutímar hafa farið í flíkina,“ segir Helga María. 

Helga sækir innblástur hvaðanæva. Stundum sér hún fallega mynd af prjónaðri peysu og verður að gera eins. Stundum dettur hún niður á fallegt garn og liti og þá reynir hún að finna uppskrift sem passar við garnið.

Það var einmitt þannig sem uppskriftin að Margréti kaðlapeysu varð til. Hún fann garn sem hún heillaðist af en enga uppskrift. Því bjó hún til sína eigin uppskrift og nefndi hana eftir Margréti systur sinni og bestu vinkonu sinni Leu Margréti. 

Það eru ýmsir straumar og stefnur í prjónaheiminum í gangi hverju sinni. Þegar blaðamaður spyr hvað sé mest í tísku þessa dagana segir Helga María: „„Oversized“ lopapeysur koma mjög sterkt inn núna og ég held að þær verði virkilega vinsælar í útilegum sumarsins, þá helst munstrið Heljargjá!“

Helga María heldur úti eins konar dagbók yfir prjónaverkefni sín á Instagram þar sem hægt er að fylgjast með hennar nýjustu verkefnum. 

Margrét kaðlapeysa er fyrsta uppskriftin sem Helga María gaf út.
Margrét kaðlapeysa er fyrsta uppskriftin sem Helga María gaf út. Arnþór Birkisson
Helga María segir að stórar lopapeysur verði vinsælar í sumar.
Helga María segir að stórar lopapeysur verði vinsælar í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is