Áhrifavöldum sniðinn þrengri stakkur

Áhrifavaldurinn Madeilene Pedersen fagnar lögunum.
Áhrifavaldurinn Madeilene Pedersen fagnar lögunum. Skjáskot/Instagram

Nýsamþykkt lög í Noregi gera áhrifavöldum og öðrum sem hafa tekjur af samfélagsmiðlum það skylt taka fram hvort filter hafi verið notaður í markaðssetningu og hvernig filterinn var notaður. 

Lögin ná til allra filtera og breytinga sem gerðar eru á myndum sem birtar eru gegn greiðslu. Lögin hafa verið samþykkt en Noregskonungur þarf að samþykkja þau áður en þau taka gildi. 

Tilgangur laganna er að minnka áhrif samfélagsmiðla á geðheilsu ungmenna sem oftar en ekki bera sig saman við áhrifavalda og annað frægt fólk á samfélagsmiðlum.

Á Íslandi hefur verið sambærileg umræða um notkun filtera hjá áhrifavöldum og öðrum sem hafa tekjur af samfélagsmiðlum. Í apríl tóku nokkrir áhrifavaldar höndum saman í „filterslausum apríl“, þar sem þeir slepptu því að nota filtera og komu til dyranna eins og þeir voru klæddir.

Þá hefur verið bent á að notkun filtera geti haft slæm áhrif á yngri notendur samfélagsmiðla en einnig villt um fyrir neytendum. Umræðan hefur þó ekki ratað inn á borð löggjafarvaldsins. 

Tími til kominn

Norski áhrifavaldurinn Madeleine Pedersen segir í samtali við BBC Radio 1 að hún sé ánægð með lögin. Það hafi verið kominn tími til að setja reglur um notkun filtera. 

„Það er svo margt ungt fólk sem er óöruggt í eigin skinni og ber sig saman við áhrifavalda. Ég sjálf hef glímt við brenglaða sjálfsmynd vegna Instagram. Það versta er að ég veit ekki einu sinni hvort aðrar stelpur sem ég leit upp til hafi breytt myndunum sínum eða ekki. Þess vegna þurfum við svör, við þurfum þessi lög,“ sagði Pedersen. 

Pedersen segist ekki finna fyrir þörf fyrir að breyta útliti sínu á myndum en um 90 þúsund manns skoða myndirnar hennar. Hún breytir lýsingunni, litunum og skerpunni en segist aldrei nota filtera til að breyta andliti sínu og líkama. 

Pedersen notar ekki filtera til að breyta andliti sínu eða …
Pedersen notar ekki filtera til að breyta andliti sínu eða líkama en leikur sér með lýsingu, liti og skerpu. Skjáskot/Instagram

Hún segist vonast til þess að norskir áhrifavaldar hætti að breyta myndunum sínum. „Þeim mun finnast of vandræðalegt að viðurkenna það, svo þau munu breyta þeim minna.“

Eirin Kristiansen, 26 ára áhrifavaldur frá Bergen, segir lögin vera skref í rétta átt en að þau séu þó ekki nógu vel úthugsuð. 

„Mér finnst þetta frekar vera skyndilausn á vandamáli sem mun ekki hafa nein áhrif. Það er svo margt annað en filterar sem hefur áhrif á geðheilsuna og réttar merkingar hjá auglýsingum munu ekki breyta því hvernig ungu fólki líður,“ sagði Kristiansen. 

Kristiansen segist ekki breyta því hvernig hún lítur út á myndum heldur leikur hún sér með lýsingu og liti. 

„Mér finnst frekar að við ættum að einblína á hvernig við getum lært að velja hvað við sjáum og læra hvernig samfélagsmiðlar raunverulega virka. Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera,“ sagði Kristiansen.

Eirin Kristiansen segir lögin skref í rétta átt en ekki …
Eirin Kristiansen segir lögin skref í rétta átt en ekki nógu vel úthugsuð. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál