Oft ekki gert ráð fyrir stórum brjóstum

Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla. Ljósmynd/Saga Sig

Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og eigandi Scintilla, hefur sett af stað netkönnun þar sem viðhorf og reynsla íslenskra kvenna af stærðarkerfum þess tískufatnaðar sem er í boði í verslunum í dag er könnuð. Sjálf hefur Linda rekist á vegg þegar hún kaupir föt og bendir til dæmis á að ekki sé alltaf gert ráð fyrir stórum brjóstum í fatnaði almennt. 

„Mikið af helstu tískumerkjunum er í frönskum og ítölskum stærðum og það er ljóst að konur frá S-Evrópu eru með annars konar vöxt og minni brjóst en til dæmis norrænar konur. Það er ekkert rosalega gaman að máta föt og brjóstin eru alltaf klesst niður en fötin passa að öðru leyti. Þetta hefur orðið til þess að ég á miklu fleiri neðri parta en efri parta,“ segir Linda í samtali við Smartland. 

Stærðakerfið í tískuheiminum var einmitt umfjöllunarefni síðasta pistils Lindu á Smartlandi. Linda hefur alltaf haft það að markmiði að hanna fatnað undir merkjum Scintilla sem hefur hingað til aðeins hannað fyrir heimili og hótel. Hún kannar því nú viðhorf kvenna til stærðakerfa. 

„Það er eitt fyrirtæki sem er ráðandi í saumgínubransanum og það er franska fyrirtækið Stockman, en þau bjóða bara upp á gínur í frönskum stærðum, 36-40. Flestöll snið eru gerð fyrir granna líkama og eru svo „greiduð“ í stærri stærðir en ekki mátuð í þeim stærðum.
Það hefur lengi verið ráðandi hugmynd í tísku að grannur líkami sé „réttur“ líkami og það hefur fyrst og fremst þjónað fjöldaframleiðslunni.

Ég hef lengi horft á þessar fínu búðir, til dæmis í París sem venjulegar konur þora varla inn í, með fatnað í gluggunum sem aðeins örgrannar konur komast í, og mér hefur ekki fundist það endilega vera mjög góð viðskiptahugmynd að útiloka þannig stærstan hluta kvenna,“ segir Linda. 

Linda segir ýmislegt hægt að gera til þess að hanna föt sem passa konum með fjölbreytt vaxtarlag. „Þá þarf að máta þau á nokkrar stærðir af konum en það er almennt ekki gert.
Hægt er að nota teygjur meira eða gefa möguleika á að hneppa eða loka fötum á fleiri en einn veg. Það eru líka til ýmsar leiðir til þess að draga saman efni á ákveðnum stöðum eins og í mitti eða undir brjóstum. Ég hef líka mikinn áhuga á að bjóða upp á fatnað sem er kláraður að mestu leyti en hægt að sérsníða á ákveðnum svæðum, til dæmis í kringum brjóst, mitti og axlir,“ segir Linda. 

Linda er fyrst og fremst fatahönnuður þrátt fyrir að hafa hannað að mestu fyrir heimili undanfarin ár. Hún segir ekki það sama að hanna munstur fyrir húsbúnað og föt. 

„Það er allt önnur tegund af munstrum sem þarf að mínu mati fyrir tískufatnað. Scintilla-munstrin fyrir heimili eru mjög öguð og byggjast á reglum, endurtekningum og symmetríu. Slík munstur láta líkamann líta út eins og baðherbergisvegg eða sófa og það vill enginn vera þannig,“ segir Linda. 

Hún ætlar að leggja áherslu á munstur fyrir tísku og einfaldan fatnað sem gefa möguleika á að kaupandi geti aðlagað þau að einhverju leyti fyrir sinn líkama. Þannig verður áherslan á einfaldleika í formi og á falleg efni. 

„Að mörgu leyti hef ég horft til fyrirtækja á borð við Marimekko eða Missoni við þróun Scintilla-hugmyndarinnar. Þessi fyrirtæki framleiða einfaldar vörur en eiga sinn eigin munsturheim sem er auðþekkjanlegur. Fyrir mér er markmiðið að búa til munsturheim og stíl fyrir Scintilla sem er auðþekkjanlegur og enginn þarf að kíkja á miðann til þess að vita um hvaða merki er að ræða,“ segir Linda. 

Netkönnun Scintilla má finna með því að smella hér.

mbl.is