Hönnun, föndur eða fag?

Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla. Ljósmynd/Saga Sig

„Þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður þá var stofnuð sérstök hönnunardeild, sem var ekki til í Myndlista- og handíðaskólanum sem var forveri LHÍ. Hönnunardeildin varð strax stærsta deildin í skólanum en þar var kennt í fyrsta skipti á Íslandi fatahönnun og vöruhönnun og svo seinna arkitektúr. Þeir sem komu að stofnun þessarar deildar voru undirrituð, Katrín Ólína Pétursdóttir, Guðmundur Oddur og Halldór Gíslason. Við höfðum að mörgu leyti breska hönnunarskóla sem fyrirmynd en þeir hafa lengi þótt vera leiðandi í hönnunarkennslu, þá sérstaklega í fatahönnun,“ segir Linda Björg Árnadóttir hönnuður í nýjum pistli á Smartlandi: 

Í Myndlista- og handíðaskólanum, þar sem ég var nemandi í textílhönnunardeild, var alger áhersla á handverk á kostnað hönnunar. Kennarar voru ekki mikið að ræða eða gagnrýna fagurfræðina eða yfirleitt neitt. Þetta var allt á ákveðnu handverksstigi og handverk var ekki tekið alvarlega sem starfsvettvangur en var meira einhvers konar persónulegt áhugamál og föndur. Þess vegna þótti ekki þörf á neinni gagnrýnni umræðu um það sem var gert vegna þess að um föndur er að ræða, þá er það sem gert er einkamál viðkomandi.

Í Listaháskólanum var lögð áhersla á að hönnun væri fag og starfsvettvangur og gagnrýni helsta forsenda þess að hægt væri að bæta og breyta. Þegar þessi viðhorfsbreyting var innleidd í kennslu í hönnun var auðvitað lögð áhersla á uppbyggilega gagnrýni og umræðu um fagurfræði og að ekkert væri einkamál.

Það því miður eimir aðeins eftir af gamla viðhorfinu að við séum bara að gera „eitthvað flippað“ og að fagurfræðin sé persónuleg og enginn megi gagnrýna hana. En hönnun er fag sem er í samtali við samfélagið og það er mikilvægt að taka það alvarlega sem slíkt, sérstaklega innan veggja LHÍ.

Innan LHÍ hefur ekki verið lögð áhersla á að að ráða hönnuði i stjórnunarstöður sem hafa starfsreynslu í faginu og sýnir það einfaldlega það að hönnun er ekki talin vera starfsvettvangur ennþá, jafnvel ekki innan Listaháskólans. Það hefur meira að segja verið starfandi deildarstjóri hönnunardeildar sem ekki er menntaður hönnuður.

En hönnun er fag sem getur haft stórkostleg áhrif á samfélagið og verið afl sem getur knúið í gagn þær breytingar sem augljóslega þurfa að verða á samfélaginu á næstu árum. 

Það hefur einnig vantað upp á innan LHÍ að það sé fyrir hendi skilningur á að hönnun er þekking sem við verðum að byggja upp. Margt fólk telur að þegar kemur að faginu hönnun þá sé ekki um neina ákveðna þekkingu að ræða; við séum bara að gera „eitthvað“ af því að við erum svo „flippuð“. Með þessu viðhorfi verður ekki hægt að byggja upp neina þekkingu og safna saman. Og þegar kemur að fatahönnun þá virðast konur sem halda að þær hafi hinn svokallaða „góða smekk“ (sem eru allar konur) þá jafngildi það þekkingu á fatahönnun. Með þessu viðhorfi er þekkingin smækkuð í öreindir.

Það er ósk mín að fagið hönnun verði tekið alvarlega sem það afl til breytinga sem það getur verið, og að hæfasta fólkið með mestu starfsreynsluna sé ráðið í mikilvægar stöður. Að virðing sé borin fyrir þeirri þekkingu og reynslu sem hefur orðið til í faginu svo að við þurfum ekki alltaf að byrja á byrjunarreit eins og lengi hefur verið.

mbl.is