„Rétt“ klæddir geta náð miklu meiri frama í atvinnulífinu

Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður og eigandi Scintilla. Ljósmynd/Saga Sig

Linda Björg Árnadóttir hönnuður kynnir fyrsta hluta af doktorsverkefni sínu í félagsfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið „Dress and Success“ eða fatnaður og velgengni. 

Í rannsóknarefninu er samband velgengni og viðeigandi klæðnaðar kannað en þar skoðar Linda Björg velgengni í íslenska bankakerfinu. Hvernig getur klæðnaður og tíska verið notuð sem tæki til þess að miðla upplýsingum eins og stöðu, sjálfsmynd og framsækni. Og hvernig er hægt að skapa ný tækifæri og innleiða félagslegar breytingar. 

„Félagsfræði tísku hefur hingað til ekki verið rannsökuð af íslenskum fræðimönnum en tíska og fatnaður fólks hefur áhrif á hugmyndir okkar um okkur sjálf og aðra. Einstaklingur skapar sjálfsmynd sem byggð er á gefinni og áunninni félagslegri stöðu innan samfélagsins. Sjálfsmynd sem miðlað er með fatnaði verður einnig fyrir áhrifum frá tækni, siðferði og fagurfræði. Markmið rannsóknarinnar er að skilja mikilvægi tísku og klæðnaðar innan íslenska bankakerfisins nú og í kringum bankahrunið árið 2008 og hvernig þær breytingar sem að fylgdu í kjölfarið höfðu áhrif á hugmyndir, um hvað þótti við hæfi þegar kom að klæðnaði. Einnig er markmiðið að rannsaka hvernig klæðnaður getur haft áhrif á velgengni í starfi, skoða hvað fólk innan fagsins er að miðla með fatnaði og hvernig konur hafa aðlagað sinn fatnað að þeim karlægu hugmyndum sem hafa verið ríkjandi innan geirans. Klæðnaður og tíska eru notuð til þess að viðhalda ríkjandi valda- og kynjahlutverkum en einnig til þess að innleiða breytingar í samfélög. Rannsóknin byggir á 10 viðtölum sem tekin voru við konur sem starfa í mismunandi valdastöðum innan íslenska fjármálakerfisins,“ segir Linda Björg. 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að rannsaka klæðaburð og bankahrunið?

„Það var nú ekki ætlunin í upphafi. Ég bjó til þessa rannsókn sem verkefni í námskiði en svo var þetta bara svo áhugavert að ég bætti henni við verkefnið sem hefur reyndar breyst mikið frá upphafi,“ segir hún. 

Nú er oft talað um að klæðaburður sé eitthvað léttmeti en samkvæmt rannsókn þinni þá er um grafalvarlegan hlut að ræða sem getur breytt stöðu einstaklings mikið. 

„Fólk getur náð frama innan allra starfsgreina og í lífinu sjálfu með klæðaburði. Sagan um Öskubusku er gott dæmi um það. Hún var í mjög vondri stöðu en fær þarna í hendurnar kjól sem að bætir lífsgæði hennar stórkostlega. Þessi saga er um 1500 ára gömul og ein vinsælasta saga frá upphafi sem sýnir að það hefur verið mikil eftirspurn eftir henni og hún gefur von.

Það er til margar skráðar sögur í gegnum aldirnar um konur. Með fatnaði gáfu þær sig út fyrir að vera karlmenn og gengu í heri og náðu oft miklum frama. Þessi dæmi sýna konur sem höfðu ekki aðgang að sömu tækifærum og karlmenn og tóku þá upp á því að feika kyn til þess að fá aðgang að þeim tækifærum. Það er hægt að nota klæðnað til þess að fá aðgang að allskonar tækifærum með minni tilfæringum en að feika kyn.

Niðurstaðan er sú að þeir sem eru „rétt“ klæddir, hvað sem það nú er, geti bætt stöðu sína en það á við um alla geira. Margir viðmælendur mínir höfðu séð fólk sem var ekki viðeigandi klætt koma í veg fyrir velgengni og framgang í starfi. Og því meira völd sem fólk hefur þá er lögð meiri áhersla á viðeigandi klæðnað. Þetta snýst fyrst og fremst um að vera sannfærandi og í takt við ríkjandi hugmyndir en það þarf líka að vera skapandi til þess að skera sig aðeins út úr hópnum og skapa sér sérstöðu.“

Jared Leto yfirhönnuður Gucci í bláum flauelsfötum frá merkinu.
Jared Leto yfirhönnuður Gucci í bláum flauelsfötum frá merkinu. AFP

Hvernig klæðaburður hefur virkað best í viðskiptalífinu?

„Fólk þarf fyrst og fremst að vera sannfærandi og klætt í samræmi við sjálfan sig. Það á við um allar stéttir líka; um listamenn sem er hópurinn sem ég mun rannsaka næst. En það er ekki málið að klæða sig eins og allir hinir. Almenna reglan er: Klæddu þig eins og þú sért með stöðuna sem þú vilt fá, ekki þá sem þú hefur.“

Erum við sem sagt ennþá á þeim stað að við tökum meira mark á fólki í jakkafötum en í íþróttafötum?

„Jú það er nú enn svo og er í raun stórkostlega merkilegt. Föt er hægt að nota til þess að blekkja til dæmis stétt, menntun og jafnvel kyn. Ég tel að það sé töluvert um blekkingar hjá fólki þegar það stillir sér upp með dýrum fötum eða dýrri tösku og það heldur að þá fái þau einhvern framgang í samfélaginu. Þetta þyrfti að breytast. Ég tel það sé miklu meiri gæði fólgin í því að vera skapandi og sýna það heldur en að vera að flagga auð eins og flestir vilja gera, jafnvel þó þau hafi hann ekki.“ 

Hefur klæðaburður breyst mikið í þessum geira frá bankahruni?

„Það var ákveðin breyting sem varð við hrunið. Fólk lagði dýru Armani fötunum og snákaskinnsskónum og dýru merkjavörunni almennt, en það eru merki um að sá klæðnaður sé að koma aftur.

Aðspurð hvað sé framundan hjá henni segist hún verja miklum tíma þessa dagana í skrif. 

„Ég er að ljúka við fyrstu greinina mína og fæ hana vonandi birta innan skamms. Það er líka ætlast til þess að doktorsnemar séu önn í erlendum skóla og ég mun fara eina önn í háskóla í London sem að verður örugglega ævintýri. Svo er ég núna að gera sömu rannsókn á klæðnaði listakvenna og ég gerði á bankakonunum.“

Fyrirlestur Lindu Bjargar er í Petersen svítunni í Gamla bíó klukkan 17.00 í dag í tengslum við HönnunarMars sem nú stendur yfir. 

Jordan Belfort er þekktur sem „Úlfurinn á Wall Street“. Hann …
Jordan Belfort er þekktur sem „Úlfurinn á Wall Street“. Hann var alltaf í fínum fötum. mbl.is/Eggert
mbl.is